Ragnheiður Harpa Leifsdóttir gaf út sína fyrstu ljóðabók Sítrónur og náttmyrkur um miðjan nóvember á síðasta ári. Ljóðabókin, sem og ljóðabók Melkorku Ólafsdóttur Hérna eru fjöllin blá, eru fyrstu ljóðabækurnar sem koma út hjá Svikaskáldum þar sem aðeins eitt skáld er höfundur verkanna. Áður hefur Ragnheiður Harpa gefið út þrjár ljóðabækur með ljóðakollektívinu Svikaskáld. Ragnheiður Harpa er einnig sviðslistakona og hafa smásögur eftir hana birst í seríunni Meðgöngumál.
Titill ljóðabókarinnar vekur strax upp spurningar og laðar lesandann að, hvað eiga sítrónur og náttmyrkur sameiginlegt? Hann mun síðar komast að þvi að sítrónurnar eru gular og glóandi en myrkrið er svart og gleypandi. Þetta er þema sem víða má finna í ljóðabókinni, ákveðinn leikur með myrkur og ljós, litróf og umbreytingar.
„Ég sé þig bræða brotin“
Í bókinni eru prósaljóðum og hefðbundnum ljóðum blandað saman, árstíðirnar eru rauður þráður, sem og glerbrotin sem birtast víða. Það er einhverskonar brot eða glufa í heimi ljóðmælanda sem er oft í fyrirrúmi. Í einu af fyrstu ljóðunum í bókinni kynnumst við ljóðmælanda sem telur sig tilfinningalega kaldann eins og veturinn: „Þú kallaðir mig vor / en vissir að ég væri vetur // allt visnaði // í hári mínu / í lófum mínum“ (bls. 12)
Í ljóðinu „Kona“ sjáum við konu sem er sligin af erfðum sársauka en vonleysið er ekki algjört því síðustu ljóðlínuna er hægt að túlka sem tilraun konunnar til að gera gott úr sinni stöðu. Bræða brotin til að afmynda þau, umbreyta þeim, skapa eitthvað nýtt.
Kona
Ég sé þig
halda á
brotunum
fjölskyldubrotunum
sjálfsmyndabrotunum
vasa sem brotnaði í gær
brotunum sem þú erfðir
frá formæðrum þínum, systrum og bræðrum
ég sé þig bræða brotin
Sítrónur og náttmyrkur, bls. 32.
Þó að allt virðist brotið, brostið, þá er það gullið sem slípar það brotna: „Aldan splundrast á klettunum / í hvítri sprengingu // aftur og aftur og aftur // með tímanum / slípast grjótið // brotin eru bætt / með heitu gulli andans“ (bls. 37).
Myrkur og ljós
Eins og áður kom fram er myrkri og ljósi oft teflt saman í ljóðabókinni. Í ljóðinu „Sprengistjarna“ er ljósaperu á „ryki þöktu háalofti“ lýst, hún er í dauðateygjunum, „hún rembist / í klaufalegum kippum / sveiflast milli myrkurs og ljóss / höktandi lýsir hún skærar og skærar og skærar // rykið brennur // í örskammastund verður hún að sólu / sprengikraftasprenging og síðan algjört myrkur“ (bls. 38). Nú dæmir hver fyrir sig en það er spurning hvort ljósaperan sé eins og konan eða ljóðmælandi sem kljáist við að brenna ekki út í stöðugri baráttu við myrkrið.
Titill ljóðabókarinnar lítur út fyrir að koma úr ljóðinu „Sítrónur í myrkri“, „Sítrónurnar eru mér leiðarvísir. Ég elti þær eins og stikur í þoku. Slóðir gulra sóla.“ (bls. 46) Sítrónurnar eru tákn fyrir ljósið í myrkrinu, stikurnar í þokunni eins og Ragnheiður Harpa fer svo fallega með það. Í upphafi ljóðsins stendur einmitt „Þegar mér líður hvar verst birtast þær.“ Þar er auðvitað átt við sítrónurnar sem birtast þegar draga þarf ljóðmælanda upp úr versta þunglyndinu. Það er von í þessu ljóði, það endar á línunum: „Himininn grásvartur, fullur eftirvæntingar. Í fullkomnu kæruleysi umbreytist hann í gráblátt haf. Við fylgjumst með hvítum hval synda hægt yfir himinhvolfið.“ (bls. 46). Þar er komin sjálf kápumynd ljóðabókarinnar sem hefur jákvæðan ljóma, það er eftirvænting og kæruleysi í loftinu. Allt kallast á, tengist, í þessari ljóðabók og þræðirnir eru vel ofnir djúpt í textann.
Dulmögnuð og einlæg ljóðabók
Í Sítrónum og náttmyrkri er stöðugur leikur með ljósið og myrkrið, vonina og vonleysið. Sítrónurnar eru tákn sem var alls ekki skýrt í fyrstu en verður svo ljóslifandi og augljóst við lok lestursins. Ragnheiður Harpa er stöðugt að bretta og snúa upp á heiminn sem við þekkjum, hún notar myndhverfingar óspart og kannar hvar mörkin á milli raunveruleikans og súrrealismans liggja. Uppi stendur dulmögnuð og einlæg ljóðabók þar sem bæði dökku og ljósu punktar lífsins eru skoðaðir.