Tvistur og Basta er sjötta bókin eftir Roald Dahl sem kemur út í nýrri íslenskri þýðingu Sólveigar Sifjar Hreiðarsdóttur. Bókin er myndskreytt af Quentin Blake líkt og aðrar bækur Dahl. Tvistur og Basta fjallar um hin hræðilegu hjón Tvist og Böstu (e. The Twits) sem gera allt öðrum til ama. Best af öllu finnst þeim að hrekkja hvort annað – og þau eru góð í því.

En Dahl byrjar ekki bókina á því að fjalla Tvist eða Böstu. Hann dembir lesandanum í hugleiðingar um skeggjaða karlmenn og svo virðist sem Dahl hafi haft eitthvað á móti þeirri hártísku manna því út frá þeim hugleiðingum sprettur hinn óhemju ógeðslegi Tvistur, sem étur matarafganga úr eigin skeggi. Síðan fær lesandinn að kynnast konunni hans, sem er svo ófríð af því það eina sem hún hugsar eru slæmar og ljótar hugsanir. Þau hjónin eru virkilega ótuktarleg – við hvort annað og aðra í umhverfi sínu. Einu sinni í viku smyr Tvistur lími á greinar dauða trésins í garðinum þeirra (það er sko allt mjög hrottalegt og ljótt í umhverfi þeirra) til að fanga þannig fugla sem enda í fuglaböku Böstu. Tvistur og Basta eru fyrrverandi sirkusþjálfarar og geyma apafjölskyldu í búri í garðinum. Aparnir reyna að vara fuglana við gildru Tvists, en tala ekki rétta tungumálið. Þegar fínufjaðrafuglinn kemur í garðinn getur hann túlkað viðvaranir apanna til fuglanna. Tvistur reynir án árangurs að veiða fuglana í límið og smyr alls kyns fleti með því en Fínufjaðrafuglinn nær alltaf að vara fuglana við. Tvisti og Böstu þykir þetta mjög slæmt, enda hungrar þau í fuglaböku, og ákveða að fara að kaupa byssur til að veiða fuglana.

Eins og í öðrum bókum Dahl endar allt vel fyrir góðu kallana, sem í þessu tilviki eru fuglarnir, fínufjaðrafuglinn en ekki síst apafjölskyldan sem Tvistur og Basta hafa árum saman pínt til að standa á haus tímunum saman. Dýrin ná að klekkja á Tvist og Böstu sem enda á því að fá Samskrepping, hræðilegan sjúkdóm sem lætur þau skreppa saman í ekki neitt. Bókin er því nokkuð týpísk fyrir stíl Dahl, sem er ævintýralega hugmyndaríkur og skeytir lítið fyrir eðlisfræði og náttúrulögmál. Það gerir bækurnar enn skemmtilegri – ímyndunaraflið fær að njóta sín óspart og það er aldrei að vita hvað kemur næst.

Mér þótti ögn ruglingslegt hvernig Dahl hoppar úr einu í annað. Lesandinn veit ekki í hvaða átt sagan er að fara, en það er líka hluti af töfrunum við skrif Dahl. Uppátæki Tvists og Böstu eru bráðfyndin þótt þau séu ívið kvikindisleg. Það er vel hægt að hlæja duglega við lesturinn.

Þýðing Sólveigar Sifjar er til mikillar prýði og finnst mér þýðingin á tilti bókarinnar – Tvistur og Basta – alveg frábær þýðing á enska heitinu The Twits.

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...