Elizabeth er týnd…eða hvað?

Elizabeth is Missing er með frumlegri „spennusögum“ sem ég hef lesið. Bókin er fyrsta skáldsaga breska höfundarins Emmu Healey og kom út árið 2014. Hún fjallar um Maud sem komin er hátt á níræðisaldur og þjáist af minnistruflunum (það er aldrei farið nánar út í það í bókinni hvort hún sé með Alzheimer sjúkdóminn). Maðurinn hennar er látinn og Helen dóttir hennar uppkomin en hún á nána vinkonu Elizabeth sem hún hefur eytt góðum stundum með. Einn daginn virðist Elizabeth hins vegar gufa upp og Maud reynir að leysa málið. Það reynist ansi snúið, því sökum minnistruflana þarf hún að endurtaka margt í rannsókninni og fer hún oft tvö skref áfram og svo eitt til baka. Samhliða þessari atburðarrás rifjar Maud upp óleyst hvarf Sukie systur sinnar á fimmta áratug síðustu aldar og sögurnar tvær tvinnast að lokum saman.

Elizabeth is Missing er áhugaverð saga og naut vinsælda við útgáfu, en Healey hlaut meðal annars Costa verðlaunin fyrir besta fyrstu skáldsögu fyrir hana. Ég heyrði fyrst af bókinni þegar BBC frumsýndi sjónvarpskvikmynd byggða á henni sem hlaut mikið lof. Það var freistandi að horfa strax á þá mynd, þar sem söguþráðurinn hljómaði svo öðruvísi en ég ákvað að lesa bókina fyrst og sé ekki eftir því.

Heilt yfir er bókin góð frumraun höfundar þar sem hún notar áhugaverða rittækni: Maud er sögumaður sem ekki er hægt að treysta fyrir frásögninni (e. unreliable narrator), frásagnaraðferð sem ég hef komist í kynni við áður í t.d. Konan í Lestinni en aldrei á sama hátt og í þessari bók. Mál Elizabeth og Sukie halda manni að mestu leyti við efnið; mér fannst bókin verða smá langdregin á köflum en á endanum náði höfundurinn að leysa úr lausum endum á fullnægjandi hátt. Vert er að minnast líka á persónusköpun Maud. Persóna hennar er ótrúlega trúverðug kona á níræðisaldri sem þjást af minnistruflunum. Þetta er sérstakt afrek í ljósi þess að hún var skrifuð af rithöfundi sem var ekki orðin þrítug þegar bókin kom út. Maður kynnist öðrum sögupersónum minna og hefði verið gaman að fá betri innsýn inn í þeirra hugarheim

Ég naut þess að lesa bókina og mæli með henni fyrir bæði aðdáendur spennusagna sem og þá sem hafa gaman af bókum um gömul fjölskylduleyndarmál.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...