Ást í bók og bolla – Sparibollinn afhentur 27. febrúar

Tilkynnt hefur verið um tilnefningar til Sparibollans, bókmenntaverðlauna veittra fyrir fegurstu ástarjátninguna í íslenskum bókmenntum á árinu 2019.

Tilnefndir eru:

  • Andri Snær Magnason fyrir fallegustu ástarjátninguna til fjölskyldunnar, í bók sinni Um tímann og vatnið.
  • Dagur Hjartarson, fyrir fallegustu lýsinguna á ást sem leiðir til harmleiks, í skáldsögu sinni Við erum ekki morðingjar.
  • Guðrún Eva Mínervudóttir, fyrir fallegustu lýsinguna á hvunndagsástum venjulegs fólks, í skáldsögu sinni Aðferðir til að lifa af.
  • Ragna Sigurðardóttir, fyrir fallegustu ástarjátninguna til listarinnar og litapalletu veraldarinnar, í smásagnasafni sínu Vetrargulrætur.
  • Sölvi Björn Sigurðsson, fyrir fallegustu lýsinguna á harðseigri ást sem stenst tímans tönn, í skáldsögu sinni Seltu.

Sparibollinn verður afhentur þeim höfundi sem þótti hafa fegurstu ástarjátninguna 27. febrúar á Ástarmálþíngi Bókabæjanna í Tryggvaskála. Húsið opnar klukkan 19:30, en dagskrá hefst klukkan 20:00. Þingið ber yfir skriftina Ást í bók og bolla og hér fyrir neðan má sjá dagskrá þingsins.

Ást í bók og bolla

Ástarmálþing Bókabæjanna í Tryggvaskála 27. febrúar kl. 20

Ekkert er betra en ástin – og því er málþing Bókabæjanna að þessu sinni helgað ástinni. Að vanda er dagskráin fjölbreytt og við flestra hæfi.

Húsið opnar kl. 19:30

Upphafstónar tónlistarkonunnar Myrru Rósar.

Yfirlit um ástina, á kvöldgöngu með hundinum.
Jón Özur Snorrason flytur stutt ávarp um efni kvöldsins.

en anda sem unnast, fær aldregi, eilífð skilið.
Eldri borgarar á Selfossi flytja Ferðalok Jónasar Hallgrímssonar.

Fyrirlestrar:

Lífið er stundum eins og ævintýrabók
Rósa Vestfjörð Guðmundsdóttir frá Ásútgáfunni segir okkur frá Rauðu ástarsögunum sem glatt hafa þjóðina óslitið frá árinu 1985.

Þegar ástin grípur unglinginn
Hildur Ýr Ísberg íslenskukennari ræðir um ástarjátningar í unglingabókum þá og nú.

Á þessari djöfla eyju

Leikfélag Selfoss býður uppá brot úr sýningunni Djöflaeyjan sem frumsýnd verður 6.mars næstkomandi.

Afhending Sparibollans

Sparibollinn, nýstofnuð bókmenntaverðlaun, veitt fyrir fegurstu ástarjátninguna í íslenskum bókmenntum 2019 verða afhent í fyrsta skipti.

Lokatónar Myrru Rósar.

Að vanda er ókeypis inn meðan húsrúm leyfir, en við minnum á að gjarnan er þröngt á þingi. Bókabæirnir bjóða kaffi og sæta mola, en barinn er opinn fyrir göróttari drykki.

Harpa Rún og Jözur reyna að halda í stjórnartaumana.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...