Bók Andra Snæs Magnasonar Um tímann og vatnið hefur þegar fengið mikið lof. Hún hefur verið titluð sem tímamótaverk, sögð þarfasta bók samtímans og að sama skapi mjög aðgengileg. Þessar alhæfingar um bókina draga nokkuð vel upp lestrarupplifun af bókinni. Það hafa fjölmargir á undan mér farið í ítarlega greiningu á bókinni og gefnir hafa verið fínustu dómar um bókina. Mig langar að fjalla frekar um lestrarupplifunina.

Að fjalla um eins stórt málefni og loftslagsbreytingar í einni bók á eins aðgengilegan hátt og Andri Snær gerir í  Um tímann og vatnið er magnað stórvirki. Andri Snær á mikið hrós skilið fyrir taka að sér að skrifa þetta verk fyrir okkur hin, til þess að reyna eftir fremsta megni að koma okkur öllum í skilning um að hættan er raunveruleg. Það eru margir sem reyna að koma þessum skilaboðum til skila. Vísindamenn sem setja fram stærðir og tölur En sú sem er ef til vill háværust og hefur náð til flestra eyrna er Greta Thunberg. Skilaboð Gretu Thunberg eru sterk, en það er erfitt að skilja stærðirnar sem hún talar um.

Andri Snær byrjar einmitt bókina á að tala um þetta vandamál. Hve mannshugurinn er í raun vanmáttugur þegar kemur að þeim stærðum sem eru til umræðu. Til að skilja loftslagsmálin þarf að setja hlutina í samhengi, því tölurnar einar og sér segja okkur of lítið. Andri Snær notar sögur af sinni eigin fjölskyldu til að setja hlutina í samhengi. Einnig nær hann að setja fram staðreyndir um loftslagsmál í samhengi sem hinn almenni lesandi tengir persónulega við til dæmis á blaðsíðu 143 segir:

“Til að fá samanburð um vægi tveggja gráðu hækkunar í lífríkinu er nærtækt að horfa á okkar eigin líkama. Fyrir manneskju er lífið óbærilegt ef hún er alltaf með 39 stiga hita, og með miklum einföldunum lýsir það ágætlega hvað gerist ef jörðin hitnar um tvær gráður.”

Textinn er eins blóm sem opnast og lokast til skiptis. Hann byrjar sem lítill blómknappur á hinu persónulega, fjölskyldusögu sem svo margir geta samvarað sig við. Ævi ömmu hans, upplifun hennar af náttúru – stökum jökli. Svo breiðir blómið út anga sína og opnar fyrir okkur samhengið. Blómið snertir allan heiminn, því einstök upplifun af náttúru er ekki til. Náttúran tengist öll í viðkvæmu jafnvægi, rétt eins og lítið blóm. Svo lokast blómið aftur, Andri Snær dregur lesandann aftur að hinu smáa. Og þannig er öll bókin, eins og andardráttur. En aldrei fannst mér óþægileg skiptingin á milli hins stóra og hins smáa.

Að sama skapi nær Andri Snær að setja tímann í samhengi. Hann minnir okkur á það sem hefur þegar breyst og að líf okkar snertir hundruð ára milli kynslóða. Það sem gerist í dag mun hafa áhrif á komandi kynslóðir og það eru allar líkur á að einhver sem þú þekkir í dag muni upplifa þá atburði.

Andri Snær bendir á óneitanlegar staðreyndir um hvað mengun hefur aukist gríðarlega á síðustu áratugum, til að mynda varð helmingurinn af öllu plasti sem hefur verið framleitt í heiminum til eftir aldamótin 2000 (bls. 155). Einnig varpar hann fram þeirri sláandi staðreynd að þegar gaus í Eyjafjallajökli stöðvaði það flugumferð í Evrópu í sex daga og var losun eldfjallsins einungis um 40% af daglegri losun vegna flugumferðar. Því minnkaði eldfjallið CO2 mengun um helming á þessum tíma (bls. 192).

Mig hafði kviðið fyrir að lesa bókina. Það er erfitt að lesa bækur um loftslagsmál. Hugtakið loftslagskvíði er nýlega komið til og er raunverulegt. Tilhugsunin um komandi ár og áratugi undir hamfarahlýnun er ógnvekjandi og stundum er þægilegra að geta stungið hausnum í sandinn og sagt “ég vissi þetta ekki”. Það gerir þó engum greiða. Þess vegna er það skylda þeirra kynslóða sem lifa núna að kynna sér málin og reyna að breyta rétt. Þessi bók er þörf lesning fyrir alla. Ég fylltist örlítilli svartsýni á getu mannkyns, eða réttara sagt vilja mannkyns, til að breyta rétt í loftslagsmálum. Allt of margir skilja ekki hvað er í húfi eða kjósa að hunsa það og það er greinilegt þegar bókin er lesin. Andri Snær bendir þó réttilega á að sé viljinn fyrir hendi þá ætti mannkynið að geta undið ofan af þessum hörmungum.

Bókin er tímamótaverk. Hún er þarfasta lesning samtímans og hún er mjög aðgengileg.

Að lokum er vert að nefna frábæra hönnun á kápu bókarinnar. Ekki eingöngu nær bókin að fanga stórvel mikilfengleika náttúrunnar og vatnsins (sjávarins) í einni mynd heldur er kápan líka í þægilegu en gerðarlegu kiljubroti með flipum. Allt gerir þetta það að heildarupplifun af bókinni frábæra.

(Meðhöfundur að umfjölluninni er Sæunn Gísladóttir).

 

 

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...