The Witcher æðið

Í tilefni furðusagnamánuðs hjá Lestrarklefanum langar mig að fjalla um The Witcher bækurnar sem slógu gjörsamlega í gegn fyrir jólin hjá íslendingum, þó ekki í bókaformi heldur í þáttaformi á Netflix. Sjálf hef ég ekki horft á þessa átta þætti en sá út undan mér brot úr þeim þegar kærastinn minn lá yfir þeim í jólafríinu. Ég frétti einnig af fleirum sem hámhorfðu á seríuna en til eru heilar átta bækur um hinn magnaða Geralt sem hafa verið að seljast upp í bókabúðum landsins.

Á dögunum greip ég fyrstu bókina í bókaseríunni eftir hinn pólska Andrzej Sapkowski. Sú bók ber heitið The Last Wish. Bókin samanstendur af smásögum um Geralt af Rivia sem er „Witcher“ (Nornari) eða svokallaður skrímslaveiðari. Þessir skrímslaveiðarar öðlast yfirnáttúrulega hæfileika ungir að aldri til að kljást við óhugnanlegar skepnur og skrímsli. Auk Netflix þáttanna hefur verið gerð bíómynd, The Hexer (2001), þáttasería The Hexer (2002), tölvuleikjaþríleikur, The Witcher, The Witcher: 2 Assassins of Kings og The Witcher 3: Wild Hunt og fjöldi myndasagna. (Wikipedia)

 

Bækurnar eru samtals átta talsins.

Þjóðarstolt Póllands

Fyrsta sagan af Geralt frá Riviu kom út árið 1986 í tímaritinu Fantastyka. Sapkowski hefur sjálfur sagt að hann hafi skrifað fyrstu söguna til að heilla son sinn, sem var mikill aðdáandi tímaritsins. Annars er Sapkowski menntaður sem hagfræðingur. Fyrsta sagan vakti ekki svo mikla athygli fyrst um sinn en fljótlega fór þó að bera á áhuga hjá lesendum. Sögurnar urðu fleiri og bækurnar þykkari. Í dag er staða The Witcher í Póllandi svo sterk að bækur og varningur um hann eru gefnar þjóðarleiðtogum annarra þjóða í opinberum heimsóknum.

Þegar fyrsti tölvuleikurinn byggður á sagnaheimi Sapkowski kom út árið 2007 varð sprenging í áhuga á bókunum. Síðan þá hafa tveir aðrir leikir komið út. Allir framleiddir í Póllandi. Fyrir utan allar þessar mismunandi útgáfur í þessum mismunandi miðlum hafa upprunalegu sögurnar um The Witcher verið þýddar yfir á fjölmörg tungumál og eru núna gefnar út á ensku af hinu virta forlagi Gollancz, sem sérhæfir sig í útgáfu furðusagna.

Sapkowski hefur gefið út átta bækur, af þeim eru þrjár smásagnasöfn og fimm skáldsögur. Sagnaheimurinn er því ríkulegur og vonandi heldur Netflix áfram að framleiða þætti byggða á honum og lokkar þannig nýja lesendur að bókunum.

Sóknarfæri fyrir íslensk forlög

The Last Wish, fyrsta bókin, inniheldur sex smásögur um Geralt, en hann er í upphafi að safna kröftum eftir erfiðan bardaga og byrjar því að rifja upp nýliðna atburði í lífi sínu. Nú er ég ekki búin að klára bókina en vildi minna á þessar fínu bækur einmitt þegar landinn þarf mest á lesefni að halda. Hingað til er bókin vel skrifuð fantasía (eða furðusaga) og inniheldur mikinn hasar. Geralt er úrræðagóð og sterk söguhetja.

Hægt er að nálgast bækurnar í Nexus (ef þær eru ekki aftur uppseldar) eða í hljóð- og rafbókarformi á veraldarvefnum. Þær eru þó enn ekki komnar í íslenska þýðingu, en það er forvitnilegt hvort eitthvert íslenskt forlag leggi í þýðingu á þessum bókum. Alls ekki nóg af fantasíum eru þýddar yfir á íslensku, en uppáhalds bókaflokkurinn minn sem fellur undir bókmenntategundina hefur ekki enn verið þýddur heldur, The Kingkiller Chronicle eftir Patrick Rothfuss, sem margir þekkja undir nafni fyrstu bókarinnar The Name of the Wind. Þann bókaflokk fáið þið að lesa um í færslu morgundagsins…

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...