Brúin yfir Tangagötuna eftir Eirík Örn Norðdahl fjallar um Halldór, einmana karl á besta aldri sem lætur sér leiðast heima hjá sér á meðan það er vinnslustopp í rækjunni. Hann er á fullum launum og eyðir tímanum í að velta fyrir sér tilvistinni, samtímanum, túrismanum á Ísafirði og nágranna sínum, Gyðu.
Eiríkur Örn Norðdahl er afkastamikill höfundur og hefur unnið Íslensku bókmenntaverðalunin fyrir skáldsöguna Illska.
Einangrað líf
Það er skemmtileg tilviljun að í upphafi bókar er Halldór nánast í sjálfskipaðri einangrun eins og við hin. Í vinnslustoppinu er ekki margt að gera og er því tilvera hans ákveðin speglun á ástandinu í samfélaginu í dag. Bókin er byggð upp á hugsunum, vangaveltum hans, og stöku samtölum sem eru einkar raunveruleg og bitastæð. Lesendur dvelja því langtíma í hugarheimi Halldórs sem getur verið athyglisvert en einnig mjög þrúgandi. Halldór lifir í raun sjálfviljugur því lífi sem við hin neyðumst til að lifa þessa dagana.
Nútíma ástsýki
Halldór er ástfanginn upp yfir haus af Gyðu sem býr aðeins níu og hálfu skrefi frá húsinu hans, beint á móti honum á Tangagötunni. Þar liggur stór kjarni bókarinnar, þrá eftir einlægum samskiptum og nánum tengslum við aðrar manneskjur. Tangagatan er einn stór skurður, búið er að grafa hana upp vegna framkvæmda. Brú hefur verið komið fyrir beint fyrir framan húsið hans Halldórs og liggur hún beinustu leið að húsinu hennar Gyðu. Þrátt fyrir það er einstaklega erfitt fyrir Halldór að nálgast hana og tjá henni hrifningu sína. Halldór er jafnvel á mörkunum á að vera eltihrellir. Hann reykir í laumi á bílskúrsþakinu og fylgist með Gyðu inn um gluggann hennar þar sem hún athafnar sig á nærbuxunum. Hann fylgist með henni úr fjarlægð frekar en að eiga á hættu á að vera hafnað.
Það eru mörg augljós tákn í bókinni. Skurðurinn sem Halldór hefur grafið á milli sín og annars fólks, brúin sem hefur verið byggð á milli hans og Gyðu og að lokum öspin sem stendur staðföst þrátt fyrir að vera með ræturnar í lausu lofti í skurðinum á Tangagötunni. Aspir og rætur spila ákveðna rullu í bókinni, Halldór er algjörlega rótlaus þó að honum finnist hann eiga heima í þessu fallega sjávarplássi á Vestfjörðum. Þrátt fyrir að hafa flutt út á landsbyggðina til að „finna sig“, er hann gjörsamlega stefnulaus. Þetta er einnig ákveðið þema í bókinni, rómantísering landsbyggðarinnar sem töfrastað þar sem fólk getur hlaðið batteríin og komist í nánari tengingu við náttúruna og sjálft sig.
Áhrif ferðamanna á landsbyggðina
Skemmtilegar fannst mér hugleiðingar og vangaveltur Halldórs um áhrif ferðamannaöldunnar á Ísafjörð og almennt lýsingar hans á bæjarlífinu og sögu staðarins. Í bókinni má finna upplifun margra íslendinga, að elska að hata þessa blessuðu ferðamenn sem halda landinu, og smábæjum landsins, að miklu leyti uppi. Sjá hér þegar Halldór hugsar um þau mörg þúsund ferðamanna sem koma úr skemmtiferðaskipum sem menga fallega fjörðinn nánast daglega á sumrin:
Og þetta fólk – ef manni er óhætt að taka þannig til orða, „þetta fólk“ einsog maður sé að tala um meindýr – virðist upp til hópa telja að bærinn sé byggðasafn og ég sé sennilega á launum sem einhver períóðutýpa. „Hér getur að líta rækjukarl í vinnslustoppi. Takið eftir niðurlútum augum hans og uppgjafarlátbragði.“ (bls. 11)
Karlmennskan árið 2020
Halldór skoðar eigin tilfinningar og reynir að kryfja þær til mergjar út frá umræðum sem hann hefur lesið á veraldarvefnum og þá aðallega Twitter. Það læðast inn hugleiðingar um hvað sé pólitískt rétt, femínisma og eitraða karlmennsku. Halldór er meðvitaður um að hann eigi ekki að bæla niður tilfinningarnar sínar, þó að það sé jú það sem honum hefur verið kennt.
Var ætlast til þess að maður bældi óæsilegar tilfinningar? Ég veit að maður átti ekki að bæla sorg heldur gráta ef maður þurfti þess en átti það ekki heldur við ef einhver hafði látist en af því maður vorkenndi sjálfum sér svo mikið? Ætlaði einhver að taka upp hanskann fyrir mig ef ég færi að háskæla af því að konan sem ég var skotinn í var á nærbuxunum með næturgest? Langaði mig það einu sinni? Væri það uppbyggileg hegðun? (bls. 92-93)
Hann kemst þó að þeirri niðurstöðu að „við viljum ekki þessar tilfinningar, það vill þær enginn.“ (bls. 93)
Karl í krísu
Ef andstæðan við skvísubók er gæjabók þá er Brúin yfir Tangagötuna klárlega vel skrifuð, og uppbyggð, gæjabók. Hún fjallar um ástina, tilfinningar og líf nútímamannsins á opinskáan máta. Á köflum verða hugleiðingar Halldórs leiðigjarnar en það er í takt við okkar eigin áráttukenndu hugsanir þegar óöryggi hefur tekið yfir. Halldór er karl í krísu sem finnur að lokum jafnvægið sem hann hefur lengi verið að leita að. Brúin yfir Tangagötuna er töluverður skemmtilestur og ég mæli heilshugar með bókinni þó að hugsanir Halldórs séu ekki alltaf fyrir alla.