Bráðsnjöll og vel skrifuð

Grikkur er önnur bókin sem Benedikt bókaútgáfa gefur út eftir Domenico Starnone, einn fremsta skáldsagnahöfund Ítala, en í fyrra kom út skáldsagan Bönd. Þetta eru bæði stutt skáldverk sem hafa notið mikilla vinsælda. Á tímabili var haldið að Starnone stæði á bakvið höfundanafnið Elena Ferrante og hefði skrifað Napolí-fjórleikinn, en einnig hefur verið haldið fram að eiginkona hans, Anita Raja, sé höfundurinn. Ekkert er þó enn staðfest í þeim málum…

Hörnandi gamalmenni og orkumikið barn

Grikkur fjallar um Daniele Mallarico sem var eitt sinn frægur listamaður en er nú á áttræðisaldri og að jafna sig eftir erfiða aðgerð. Hann finnur að hann er að falla í gleymskunnar gjá í listaheiminum en ungur útgefandi hefur samband við hann til að myndskreyta sögu eftir Henry James. Í miðjum klíðum við að ljúka myndunum hringir einkadóttir hans, Betta, og biður hann um að passa barnabarnið, hinn orkumikla Mario sem er aðeins fjögurra ára. Daniele er orðinn óöruggur í sínum eigin líkama, „Ég varð steinhissa við tilhugsunina um að líkami minn – eins og hann var orðinn núna – væri að bregðast mér. Mín eigin hrörnun laukst upp fyrir mér, skref fyrir skref.“ (bls. 55) Þrátt fyrir þetta fer hann til Napólí til að passa dótturson sinn. Betta býr enn með eiginmanni sínum og Mario á æskuheimili Daniele í Napólí sem flutti þaðan til Mílanó eftir að hann missti Ödu, konuna sína.

Draugar í hverju horni

Í gömlu íbúðinni fara vofur úr fortíðinni að sveima í höfðinu á Daniele. Hann fer að sjá ofsónir og drauga í hverju horni. Hann byrjar að rifja upp framhjáhald konu sinnar, lífið sem honum var ætlað í Napólí og allt sem hann sér eftir í lífi sínu. Hinn fjögurra ára Mario er ótrúlega skarpur og uppátækjasamur og þráir ekkert frekar en athygli afa síns sem þráast við að vinna teikningarnar. Ungi hrokafulli útgefandinn niðurlægir Daniele þegar hann hringir og segir að skissunum hans vanti „súrefni“. Þessar athugasemdir verða að þráhyggju og gamli maðurinn nær ekki að halda einbeitingu vegna Marios og stöðugra truflanna af hans hendi. Mario vill leika sér, horfa á sjónvarpið, kveika á gasinu á eldavélinni sjálfur og fylgja afa sínum hvert einsta skref. Daniele virðist hægt og rólega vera að missa vitið, þó að hann hrífist af gáfum og framtakssemi unga drengsins.

Undirliggjandi kaldhæðni

Samtölin í bókinni eru stórskemmtileg og snörp, uppfull af húmor og kaldhæðni. Þá eru samtölin á milli gamla mannsins og Marios í sérstöku uppáhaldi en þessir tveir fulltúrar mismunandi kynslóða mynda svo stórkostlegar andstæður. Togstreitan á milli þeirra er áþreifanleg, alveg frá fyrstu stundu þegar Mario lætur falla áhrifamikil orð um myndir afa síns: „Þær eru dökkar, hafði [Mario] sagt, næst skaltu hafa þær ljósari. Þetta hafði hann sagt […] um myndirnar sem ég hafði gert fyrir óralöngu síðan, sem höfðu verið lofaðar í hástert. En ég hafði trúað orðum hans enda þótt mér hefði alltaf þótt þessi ævintýrabindi vel heppnuð. Allt gufaði upp á augabragði, sjálfsöryggið og allt hólið.“ (bls. 46) Í drengnum fer Daniele að sjá meira en ungt vitlaust barn, hann sér speglun af sjálfum sér, „Ég hugsaði kaldhæðinn til þess að mínar vofur hlytu einnig að hamast í þessu barni þótt það væri samansett úr allt annarri genamaskínu.“ (bls. 90)

Ókennileikinn liggur í loftinu

Nú þarf ég klárlega að útvega mér Bönd sem kom út hjá Benedikt í fyrra sem hluti af Bókaklúbbnum Sólinni.

Daniele leyfir Mario að vinna með sér eftir ítrekaðar tilraunir Mariós til að fá að teikna með afa sínum. Daniele sér fljótlega að Mario verður mun betri listamaður en hann. Daniele efast stöðugt meira og meira um eigið ágæti og leyfir að lokum Mario að rífa allar tíu myndirnar sem hann hafði náð að teikna, þegar hann sér að Mario hefur teiknað mun betri mynd: „Á blaði drengsins var sönnun um framúrskarandi eftirhermuhæfileika, um nákvæma tilfinningu fyrir jafnvægi í myndbyggingu og stórkostlegt næmi fyrir litum. Hann hafði svo greinilega teiknað mig, eins og ég var núna, einmitt á þessari stundu. Samt var myndin sveipuð óhugnaði, þetta var raunverulega vofan af mér.“ (bls. 109) Þetta er ókennilegt og óþægilegt fyrir Daniele sem sér að Mario hefur óbeislaða hæfileika sem hann hafði sjálfur haft sem barn. Það gerir hann ómerkilegan, það fær hann til að hugsa að hver sem er hefði getað orðið merkilegur listamaður.

Illkvittni grikkurinn

Straumhvörf verða í sögunni þegar Mario gerir afa sínum afar stóran grikk sem ég ætla ekki að uppljóstra neinu um, en segja má að Mario standi uppi sem sigurvegari í þessari baráttu kynslóðanna. Ég vil einnig minnast á hversu vel Mario er skrifaður, þrátt fyrir að vera fjögurra ára er hann þrívíð persóna en oft verða börn frekar einföld í skáldsögum. Svo er ekki í þessu tilviki og er Mario virkilega áhugaverð og djúp persóna sem skynjar umhverfið sitt, vanlíðan foreldra sinna og leikur hrottalega á afa sinn. Skáldsagan endar svo á eftirmála sem ég er ekki alveg sannfærð um hvort að hafi verið nauðsynlegur.

 

Grikkur er stutt og fljótlesin skáldsaga, virkilega góður skemmtilestur sem skilur heilmikið eftir sig. Stíllinn er þægilegur, lipur, og þýðing Höllu Kjartansdóttur góð. Mér finnst þessi bók bráðsnjöll og vel skrifuð. Hún er bæði kómísk og drungaleg og náði mér gjörsamlega að halda mér. Það er í raun frekar sorglegt að hún sé aðeins 176 blaðsíður.

 

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...