Stardust eftir Neil Gaiman kom fyrst út árið 1997 og hefur verið sett í flokk furðusagna. Gaiman hefur notið mikilla vinsælda um allan heim  og hefur skrifað fjöldann allan af bókum á borð við Kóralínu (e.  Coraline), Good Omens og Norrænar goðsagnir. Stardust er fyrsta bókin sem ég les eftir Gaiman en ég hef heyrt góða hluti um bækurnar hans. Nokkrar þeirra hafa verið kvikmyndaðar eins og Good Omens, sem gerð var þáttasería eftir árið 2019 (alveg frábær sería!) og kvikmyndin Coraline, sem kom út árið 2009. Kvikmyndin Stardust var frumsýnd árið 2007 við góðar undirtektir.

Tristran eða Tristan?

Sagan gerist í Englandi árið 1856. Tristran (hann heitir Tristan í kvikmyndinni) er ungur maður sem er hrifinn af Victoriu, fallegustu stúlkunni í bænum Wall. Bærinn heitir Wall eftir steinveggnum sem aðskilur bæinn frá töfralandinu Faerie. Eitt kvöldið sjá Tristran og Victoria halastjörnu og til að heilla stúlkuna alveg upp úr skónum ákveður hann að ferðast yfir steinvegginn, ná í stjörnuna og færa Victoriu. Mér finnst þetta alveg ótrúlega fyndin hugmynd; að ungur maður ætli að ferðast yfir í töfraland til að ná í stjörnu til að geta trúlofast sinni heittelskuðu. Svakalega rómatískt: gjörðu svo vel, hérna er grjót. Tristran bregður heldur betur í brún þegar hann kemur að fótbrotinni konu að nafni Yvaine í gígnum þar sem stjarnan brotlenti og áttar sig á því að hún er stjarnan. Hann lætur það þó ekki aftra sér frá því að færa hana Victoriu. Þetta er ennþá rómantískara: gjörðu svo vel, hérna er slösuð kona sem datt af himnum! Tristran er alveg með ´etta. Á ferðalaginu heim til Wall lenda þau í ýmsum hremmingum og úr verður skrítið en skemmtilegt ævintýri.

Bókin á eftir myndinni

Það er ekki oft sem mér finnst bíómyndin betri en bókin en þetta er eitt af þeim skiptum. Það er kannski ekki alveg að marka þar sem ég sá myndina mörgum árum áður en ég las bókina.  En þar sem ég var svo ánægð með kvikmyndina varð ég fyrir hálfgerðum vonbrigðum þegar ég las loksins bókina af því að það var svo margt sem ég saknaði við lesturinn. Eitt af  því sem ég saknaði voru nokkrar hryllilega skemmtilegar aukapersónur sem fá talsvert stærra hlutverk í kvikmyndinni. Þar á meðal voru Captain Shakespear, skipstjóri og harðjaxl sem var í raun hið mesta ljúfmenni. Robert De Niro leikur hann með glæsibrag í kvikmyndinni, og svo saknaði ég líka nítíu og sjö ára gamla mannsins sem stendur ávallt vörð við steinvegginn. Auk þess fannst mér endirinn á bíómyndinni betri en þar sem ég vil ekki skemma hann fyrir neinum ætla ég ekki að fara nánar út í það.

Tekin að hluta til upp á Íslandi.

Þegar ég fór á Stardust í bíó hafði ég ekki hugmynd um að myndin væri byggð á bók. Hún er talsvert öðruvísi en kvikmyndin en báðar eru skemmtilegar á sinn hátt. Það gæti vel verið að mér hefði fundist bókin betri ef ég hefði lesið hana fyrst, enda er það nú oftast þannig. Persónurnar eru líflegar og heimurinn spennandi en yfirbragð kvikmyndarinnar heillaði mig meira í þetta sinn. Stardust er skemmtileg saga, uppfull af húmor og frábærum hugmyndum. Ég mæli líka heilshugar með bíómyndinni fyrir alla aldurshópa og það vill svo til að hún er aðgengileg á Netflix. Skemmtilegur fróðleiksmoli svona rétt í lokinn er að hluti kvikmyndarinnar er tekin upp á Stokksnesi, nálægt Höfn í Hornafirði.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...