Ljóðræn ádeila á nýlendustefnu

 Nýjung hjá Unu útgáfuhúsi er bókaserían Sígild samtímaverk. Fyrsta bókin sem kemur út í seríunni er Beðið eftir barbörunum (1980) eftir nóbelskáldið J.M. Coetzee. Bókin er í þýðingu Sigurlínu Davíðsdóttur og Rúnars Helga Vignissonar. Bókin var upprunalega þýdd fyrir útvarp árið 1984 af Sigurlínu en Rúnar Helgi endurskoðaði og endurvann þýðinguna fyrir þessa prentuðu útgáfu.

Bókin er hálfgjört prentverk en hún er í óhefðbundnu broti þar sem forsíðan leggst yfir bókina frá vinstri. Hægt að nota kápuna sem bókamerki en þá á lesandinn í hættu með að afmynda hana svolítið. Þessi einstaka kápa er hönnuð af Chris Petter Spilde.

Heimsveldið gegn barbörum

Á fyrstu síðunum kynnist lesandinn dómara í litlum landnemabæ á mörkum ónefnds heimsveldis. Hann hefur lengi lifað þar ljúfu lífi þar til herdeild sest að í bænum vegna yfirvofandi styrjaldar barbaranna. Þetta eru þó aðeins sögusagir, enn sem komið er, en þrátt fyrir það byrjar herforinginn að taka sér, að því viðrist, saklausa fanga. Dómarinn kann illa að meta framgöngu herforingjans og er skáldsagan mestöll innri mónólógur hans þar sem hann veltir fyrir sér umhverfi sínu og ríkjandi valdakerfi sem hann græðir á. Dómarinn er þó alls ekki heilagur, hann fer að sofa hjá barbarastúlku sem hermennirnir hafa blindað og afmyndað, og kemur sér þannig í slæma stöðu í litla samfélaginu.

Táknræn ádeila

Bókin birtist mér sem táknsaga, eða allegóría, yfir hræðilegar afleiðingar nýlendustefnu. Hún er hörð ádeila á framgang nýlenduherra sem eigna sér landsvæði og bera svo enga virðingu fyrir fólkinu sem bjó þar fyrir. Þá er persóna dómarans talsmaður þessarar ádeilu en hann gagnrýnir stöðugt ástandið þó að hann sé sjálfur spilltur siðferðislega og virkur hluti af þessu hræðilega valdakerfi.

Hugsanir dómarans eru ljóðrænar og setja aðstæðurnar í samhengi: „Því lýstur niður að við kremjum skordýr undir fótum, þau sem eru einnig dýrðlegt sköpunarverk…“ (bls. 175). Þannig hagar herinn sér gagnvart barbörunum sem enginn hefur getað staðfest að séu raunverulegir ógnvaldar. Í gegnum alla bókina eru barbararnir mjög óljós óvinur sem lesandinn efast um að sé einu sinni til. Hvað eru barbarar í raun? Þessi ógn er líklegast uppspuni valdagráðuga Heimsveldisins sem vill jaðarsetja fólk af öðru þjóðerni og kynþætti til að efla sín eigin völd.

Árið 2003 hlaut Coetzee Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

„Blæðingar kvenna eru óheillamerki“

Aðalkvenpersóna bókarinnar er barbarastúlkan sem dómarinn „tekur að sér“. Hann færir hana í herbergið sitt og nuddar hana frá toppi til táar á hverju kvöldi. Hann segist ekki fá neina kynferðislega örvun við að framkvæma þetta nudd en þráir að laga hana einhvernveginn eftir allt ofbeldið sem hún var beitt í yfirheyrslum af hermönnunum. Athyglisvert er að skoða hvernig dómarinn réttlætir þessa framgöngu sína fyrir sér en hann finnur fyrir sektarkennd fyrri að hafa ekki stöðvað þetta ofbeldi.

Dómarinn sefur hjá öðrum stúlkum og veit sjálfur upp á sig sökina, að hann ætti ekki að vera sofa hjá svo ungum og fallegum konum þegar hann er sjálfur gamall og ófríður. Hann gerir það samt. Óheillandi ljósi er varpað á konur í bókinni en á einum tímapunkti vill dómarinn hjálpa barbarastúlkunni að komast aftur heim til sín og fer því í háskaför með nokkrum hermönnum til að koma stúlkunni til fólksins síns. Á meðan ferðalaginu stendur vill svo óheppilega til að henni byrjar að blæða: „Stúlkan er á blæðingum, það er sá tími mánaðarins. Hún getur hvorki leynt því né farið afsíðis […]. Hún er í uppnámi og mennirnir líka. Það er sama gamla sagan: blæðingar kvenna eru óheillamerki, þær eru slæmar fyrir gróðurinn, slæmar fyrir veiðarnar og slæmar fyrir hestana.“ (bls. 114) Ádeilan er hér mjög skýr, fáfræði og vanþekking mannanna er gífurleg, og ekki hjálpar þessi hrikalega hjátrú. Ég er þó því miður ansi hrædd um að slíkir fordómar og fáfræði um tíðablæðingar kvenna séu enn sumstaðar við lýði að einhverju leiti. Konur í bókinni eru í gamaldags kvenhlutverkum, vinnukonur, eldabuskur, mæður og kynlífsviðföng, og hafa hvorki rödd né vald.

Lævíst og miskunnarlaust heimsveldi

Aðstæður dómarans gjörbreytast í seinni hluta bókarinnar, hann er sjálfur fangelsaður og fær að upplifa það að dúsa í fangaklefa án klósetts, vatns og að vera skammtað mat einu sinni á dag. Þetta truflar dómarann furðulega lítið en í fyrstu finnst honum þægilegt að þurfa hvorki að hugsa né taka ákvarðanir. Það merkilegasta er samt að á endanum áttar hann sig á hversu gagnslaus og máttlaus tilvera hans er. Hann hefur engin raunveruleg völd. Hann er aðeins eitt af ómerkilegu hjólunum sem keyrir áfram þetta ógnvænlega valdakerfi. Framan af er ádeilan á heimsveldið á þann hátt að dómarinn lýsir ástandinu og gagnrýnir það í huga sér, en eftir því sem líður á bókina verður hún augljósari og að lokum að ljóðræn upphrópun:

„Hvað er það sem hefur gert okkur ófær um að lifa fyrir líðandi stund eins og fiskar í vatni, eins og fuglar í lofti, eins og börn? Það er Heimsveldinu að kenna! Heimsveldið hefur skapað tímaskyn sögunnar. Tilvera Heimsveldisins byggir ekki á hnökralausri hringrás árstíðanna, heldur á skörpum skilum milli blómaskeiðs og niðurlægingar, upphafs og endaloka, á hamförum. Heimsveldið er dæmt til að tilheyra mannkynssögunni en um leið til að vinna gegn henni. Í hulduhuga Heimsveldisins kemst ekkert annað að en að forðast eigin endalok, halda sér gangandi og framlengja eigið valdaskeið. Það eltir óvini sína á daginn. Það er lævíst og miskunnarlaust, sendir blóðhunda sína út um allt.“ (bls. 216)

Langt frá því að vera skáldskapur

Beðið eftir barbörunum var virkilega áhugaverður og góður lestur, sérstaklega í dag þar sem samfélagið logar vegna baráttu svarts fólks í Bandaríkjunum. Umræðan er því miður að fjara út en það er svo mikil þörf að halda henni á lofti og einmitt lesa bækur sem á einhvern hátt tala inn í nútímann. Ég tengdi þessa skáldsögu beint við ástandið í heiminum í dag, þar sem fólk er tekið höndum, beitt ofbeldi og myrt af yfirvaldinu í það sem við köllum „þróuðum ríkjum“. Í bókinni er það herforinginn sem tekur fólk fanga án dóms og laga og pyntir það í löngum yfirheyrslum, en í nútímanum er það lögreglumaður í Bandaríkjunum sem kæfir mann til dauða þegar hann krýpur á hálsi hans þangað til hann kafnar. Þetta er ógeðfelldur og hræðilegur raunveruleiki sem er því miður langt frá því að vera skáldskapur. Enda hefur Coetzee upplifað eftirköst nýlendu- og aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku á eigin skinni, en hann er sjálfur afkomandi hollenskra nýlenduherra.

Þetta er ástæðan fyrir mikilvægi skáldskaparins og af hverju hæfileikaríkir höfundar eru nauðsynlegir samfélaginu. Með listinni er hægt að miðla skelfilegu ástandi á ljóðrænan og lesendavænan hátt, og þannig varpa ljósi á undirokun, ofbeldi og skelfilegt óréttlæti. Það er það sem Coetzee tekst í þessari tilteknu bók, hann fær lesandann til að upplifa ástandið á nýjan og óvæntan hátt í gegnum augu dómarans sem skoðar umhverfi sitt með ljóðrænum og gagnrýnum augum. Stundum jafnvel barnalegum augum, því það er svo barnslega einfalt að það á ekki að koma svona fram við neinar mannverur.

Til að fræðast nánar um Coetzee, bakgrunn og þemu bókarinnar, mæli ég með að lesa eftirmálann eftir Einar Kára Jóhannsson sem er einstaklega fróðlegur og fer vel yfir fyrri verk Coetzees. Ég vil þó segja að lokum að þetta var samt ekki auðveldur lestur fyrir mig því ég tengdi hann svo beint við ástandið í heiminum í dag. Ég tók mér þó nokkrar pásur til að melta það sem ég var að lesa og var því frekar lengi með bókina, en þetta var hollur og góður lestur. Ég mæli innilega með þessari bók.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...