Feneyjar úr fjarlægð – Venice eftir Jan Morris

Í ljósi þess að Lestrarklefinn ætlar að setja ferðabókmenntir í brennidepil þótti mér rétt að skrifa um án vafa bestu ferðabók sem ég hef lesið, Venice eftir Jan Morris. Morris er stórmerkilegur höfundur sem er því miður lítt þekkt utan heimalands hennar, Bretlands. Hún hefur átt afskaplega viðburðaríka ævi, svo fáir geta státað af öðru eins. Hún fæddist árið 1926 til velsks föður og enskrar móður, og fékk nafnið James Morris; hún (eða eins og þá var talið: hann) gekk til liðs við breska herinn í heimsstyrjöldinni síðari og sinnti herþjónustu í Ítalíu. Það var undir stríðslok sem Morris, ásamt herdeild sinni, ferðaðist fyrst til Feneyja og varð hún ástfangin af borginni, eins og svo margir síðan.

Jan Morris.

Morris sneri síðan aftur til Feneyja á sjötta áratugnum, þá sem blaðamaður og rithöfundur, og bjó þar um hríð ásamt eiginkonu og börnum. Hún skrifaði þá sína frægu ferðabók um borgina sem kom út árið 1960, þ.e. rétt fyrir tíma massatúrismans sem átti eftir að gjörbreyta Feneyjum. Ferðabókin sú er þó er aðeins einn hluti af miklum og merkilegum höfundaferli. Morris hefur skrifað skáldsögur, mikinn þríleik um sögu breska heimsveldisins, ferðabækur af öllu tagi og frá öllum heimshornum, hún hefur sem blaðamaður flutt fréttir af Súez-deilunni og réttarhöldum Adolfs Eichmann. Upp úr 1964 hóf Morris svo kynleiðréttingarferli sem lauk árið 1972, og gaf út bók um reynslu sína tveimur árum síðar, Conundrum, sem telst frumkvöðlaverk í transbókmenntum.

Feneyjar ca. 1960.

Ekkert þessa ofangreindu bóka hef ég lesið, skal ég viðurkenna, en Venice sýnir svo ekki verður um villst hvers Morris er megnug sem höfundur. Ég þýði lauslega úr upphafi bókarinnar, þegar hún lýsir því hvernig það er að koma að Feneyjum frá sjó:

[Borgin] er afar gömul, tigin og hokin. Turnar hennar horfa yfir lónið, jafn mikilfenglegir og þeir eru afundnir, og hallast hver í sína áttina. Sjóndeildarhringurinn er margbrotinn bjölluturnum, hvolfþökum, turnspírum, krönum, stillönsum, sjónvarpsmöstrum, tenntum múrum, sérvitringslegum skorsteinum og stórum rauðum kornturni. Það má sjá glitta í fána og útskorin þök, marmarasúlur, víðfeðma skurði. Þung bátaumferð líður framhjá hafnarbökkunum; gríðastórt, hvítt skemmtiferðaskip smeygir sér inn í höfnina; fjöldinn allur af riðandi glæsihöllum, þungbúnum og ógnvekjandi, þröngvar sér fram að vatnsborðinu eins og hópur heilsuveilla aristókrata sem stjaka hver við öðrum í leit að fersku lofti. Þetta er samanknýtt en gullfalleg borg: og þegar báturinn nálgast hana í gegnum seinustu kirkjukrýndu smáeyjarnar, og orrustuþota drynur tignarlega sem hún sendist út úr sólinni, svo að allt umhverfið virðist sindra – af bleikum bjarma, af elli, af sjálfsánægju, af hryggð, af gleði.

Stýrimaðurinn leggur sjókortin frá sér og lætur á sig gráan stráhatt; því hann er lentur í þessari fyrirmyndarhöfn, Feneyjum.

 

Feneyjar ca. 1960.

Já, sýnin sem við fáum af borginni er rómantísk og full af opinmynntri aðdáun; á þessum síðum birtist borg sem er allt að því kæfandi fögur, en líka dimm, óhugnanleg, þrungin langri sögu og undarlegum karakterum. Í Feneyjum Morris búa enn Feneyingar, sem hún lýsir með blöndu af aðdáun og þeirri snert af hæðni sem Bretar geta aldrei verið án. Morris lýsir byggingum, sögu, listum, goðsögum og staðarháttum af mikilli list, svo að mann hreinlega verkjar af löngun til að fara til Feneyja og upplifa þetta meistaraverk mennskrar byggingarlistar.

Börn að leik í Feneyjum ca. 1960. Svona umhverfi blasti við Jan Morris, en finnst hvergi í Feneyjum í dag.

En þá stöðvar maður sig. Ég hef einu sinni farið til Feneyja – ég fór þangað með lest snemma einn morgun og aftur til baka til Bologna samdægurs. Ekki kom til greina að gista í Feneyjum því það hefði verið alltof dýrt, og raunar var það eiginlega skilyrði fyrir förinni að þetta var í nóvember þegar túristarnir voru bara alltof margir, ekki brjálæðislega, hryllilega, skammarlega margir. Því fegurð Feneyja er að ganga að borginni dauðri, eins og við vitum flest. Gígantísk skemmtiferðaskip, stærri en nokkur þau sem Morris sá á 7. áratugnum, eru við það að hvolfa Feneyjum ofan í lónið; svo gott sem allir innfæddir Feneyingar hafa forðað sér úr borginni, og er talið að aðeins um 30.000 slíkir séu þar eftir (þeir voru um 200.000 þegar mest var á fyrri hluta 20. aldar); feneyskar matarhefðir eru meira lifandi í London en í Feneyjum sjálfum, þar sem fátt annað fæst í dag en örbylgjupizza á 60 evrur (ég ýki, en þið vitið hvað ég á við.) Það sem einu sinni var lifandi borg með stórbrotna sögu er nú fátt annað en risastórt og stórbrotið Árbæjarsafn með óvenjulega dreifðri og dýrri safnbúð. Og ef ég fer til Feneyja, þá er ég ekki einhver siðvandur ferðalangur sem stendur fyrir utan massatúrismann og horfir á hann að ofan gagnrýnum augum – nei, ég er túrisminn, ég er vandamálið. Það besta sem ég get gert fyrir Feneyjar er að fara ekki til þeirra.

Feneyjar í dag (þarna á bak við drepsóttarskipaferlíkið).

Þess vegna eru bækur eins og Venice eftir Jan Morris svo ágætar. Þegar maður les ferðabækur sem eru svona vel skrifaðar, af svona miklu innsæi, og sem segja frá skárri tímum í sögu áfangastaðarins, þá líður manni næstum eins og maður sé ekki bara á staðnum sjálfur heldur líka þar á besta mögulega tíma og undir bestu mögulegu kringumstæðum. Ef mann vantar meira er bara að kveikja á Google Maps, slá inn Venice og láta sig líða um eftir skurðum Feneyja í öruggri fjarlægð internetsins, eins og saklaus, stafrænn túristadraugur.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...