Absúrd örsagnasafn

Nú skrifa ég um enn eitt örsagnasafnið en ég tel það gott og gaman fyrir íslenskar lesendur að kynnast þessu formi. Þetta er fjórða örsagnasafnði sem ég les á árinu og fannst mér öll þessi örsagnasöfn fyrirtaks skemmtun.  Að þessu sinni mun ég fjalla um rússneskar örsögur eftir Danííl Kharms (1904-1942) sem voru valdar og íslenskaðar af Óskari Árna Óskarssyni og Áslaugu Agnarsdóttur. Safnið á íslensku ber heitið Gamlar konur detta út um glugga eftir samnefndri örsögu sem birtist í safninu.

Danííl Kharms er þekktur absúrdisti og aðhylltist framúrstefnu í bókmenntum. Eftir hann liggja ógrynni af örsögum og gamansögum fyrir börn. Á káputexta bókarinnar er hann kallaður „sérkennilegur furðusagnameistari“ og „einn fremsti höfundur absúrdbókmennta í hinum vestræna heimi.“ Ekki slæmt það!

Kómískar og tilviljanakenndar sögur

Sögurnar í safninu eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar. Þær eru kómískar, tilviljanakenndar, myrkar og margar bókstaflega rugla mann í ríminu. Sögurnar eru flestar í hefðbundnum prósa en sumar eru leiktextar þar sem endurtekningu er yfirleitt beitt. En það er einmitt eitt af helstu einkennum sagnanna, en einnig er ofbeldi fyrirferðarmikið sem ákveðið þema en margar persónurnar fá útrás við að, til dæmis, slá einhvern utan undir eða berja gesti sína.

Hér er dæmi úr sögunni „Dauði gamlingja“, en þar má greina endurtekningu fáránlega atvika og myrkan undirtón: „Lítil kúla skaust út úr nefi gamlingja nokkurs og féll á jörðina. Gamlinginn beygði sig niður til að taka kúluna upp en þá skaust lítið prik út úr öðru augunum og féll einnig á jörðina. […] Um leið skaust lítill ferningur út úr munninum. Gamlinginn greip um munninn en þá skaust lítil mús niður úr annarri erminni.“ (bls. 66) Myndirnar eru óhugnalegar en að lokum virkilega fáránlegar þrátt fyrir ókenndina sem þær vekja. Þó er ekki hægt að hundsa kómíkina í lýsingum Kharms þannig ég get ímyndað mér að sögurnar vekji fjölbreytt viðbrögð hjá lesendum.

Í sögunni sem bókin er nefnd eftir detta sex konur út um glugga: „Gömul kona steypist út um glugga af því hún réð ekki við forvitni sína. Hún datt niður á götuna og stórskaddaðist. Önnur kona hallaði sér út um gluggann til að forvitnas tum konuna sem hafði slasast, en valt líka út um gluggann og braut í sér hvert bein.“ (bls. 79) Þetta endurtekur sig svo þar til áhorfandinn fær leið á þessu: „Þegar sjötta gamla konan datt út um gluggann var ég búinn að fá meira en nóg af þessu og fór á Maltsevskí-markaðinn þar sem ég frétti að blindum manni sem hefði verið gefið handprjónað sjal.“ (bls. 79) Sem lesandi er oft erfitt að átta sig á tilgangi sagnanna, enda eru þær fáránlegar og fjarstæðukenndar. Í þessari sögu velti ég fyrir mér tilgangi forvitninnar og hvert hlutverk sögumannsins sé, sem lætur þessar hörmungar ekkert á sig fá, og hefur á endanum meiri áhuga á blindum manni sem fékk sjal. Er þetta dæmisaga, forvarnarsaga? Það er best að vera ekki of forvitinn, hnýsinn, í samfélaginu? Veldur það dauða hins forvitna? Það er áhugavert að skoða sögurnar í sögulegu samhengi en Kharms var ítrekað fangelsaður fyrir skrifin sín sem þóttu heldur of mikil ádeila á stjórnarhætti á miklum umbrotatímum í Rússlandi. Farið er yfir sorglega ævisögu Kharms í góðum eftirmála í lok bókar sem er skrifaður af Áslaugu Agnarsdóttur.

Góð kynning á absúrdbókmenntum

Ég hafði tiltölulega gaman af lestrinum en ég hafði ekki lesið mikið af framúrstefnubókmenntum áður, þannig ég var að kynnast því formi á meðan lestrinum stóð. Sumum sögum botnaði ég ekkert í, sumum skemmti ég mér konunglega af en aðrar vöktu upp heimspekilegar hugleiðingar. Ég mæli með að lesendur opni þessa bók með opinn huga og tilbúinir til að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og góðan tíma til að velta fyrir sér merkingu einstakra sagna. Það er voða erfitt að fá eitthvað út úr bókinni ef hún er lesin á hundavaði. Gamlar konur detta út um glugga er góð kynning á þessari bókmenntategund og örsagnaforminu.

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...