Rithornið: Grár og Þvottur

Grár

Ég hef setið ótal sinnum og beðið eftir þér

Heiðin speglast í tjörninni

Óðinshanar dugga sér til og frá

Stundum er eins og þeir ruglist, stefnulaust dugga dugg í enga átt

 

ég sé gárur á vatninu sem eru óútskýrðar

Líkt og þar undir sértu velta þér

í uppstreyminu frá lindunum

 

Mér finnst ég sjá glitta í  grátt fax þitt í brúnu slýinu

 

Kannski kemurðu þegar það dimmir

og við ráfum frá bakkanum

skoðum Baldursbrár og ljónslöpp á hólnum hérna rétt hjá

 

Það drýpur af þér

Niður á svörðinn

Í tagli þínu hafa brunnklukkur sest að

 

Ég flétta blómsveig og legg yfir eyru þín

Þú hristir hann af þér

bítur í vatnasóleyjar

 

Að lokum sest ég á bak þér og

Legg höfuð mitt að hálsi þínu og loka augunum

Við förum fetið niður að vatninu

Ég bít saman vörunum og segi ekki nafn þitt

 

Þvottur

 

Arfur þinn dóttir verður þvottur

Þegar ég sendi þig af stað útí lífið

ferðu af stað með fullt af draumum

og sápu og bala í annarri

Þvi líf þitt verður þvottur

Og klemmur

 

Og þú munt þvo

Þvo af öðrum,

þvo af þér

Og þú munt líka berjast við að þvo það af þér sem lífið slettir á þig

Og á aðra

Og reyna við bletti og krumpur sem engin leið er að ná úr

Og arfur þinn verður þvottur

 

Svo seturðu klemmur á hluti svo þeir hangi saman og uppi

Eitthvað sem mætti í raun enda á gólfinu,

Löngu búið að ofþvo svo allur litur er farinn úr því

 

Og þú þværð af börnum,

Af gömlu fólki, af mér dóttir góð

Og köllum

Og að lokum sérðu óhreinar flíkur vaxa eins og skugga í öllum hornum

Horfir á föt annarra full tortryggni, þarna fer eitthvað sem endar loks í bala sem einhver verður að tæma

 

Og eins og þú munt hata að sjá bala eftir bala fyllast af þvotti

verkja í fingur eftir að þú kemur inn með vindblásnar flíkur

muntu eins fanga gleði og sól

í línið

Einstaka daga þegar sunnanáttin blæs og geislarnir leika um vanga þína og

skuggarnir leika um grasið, sletta höndum og fótum útí loftið,

þegar fötin leika  í vindinum

þegar bómullin lyktar eins og sumar

muntu fanga gleði í þvottinn þinn dóttir

[hr gap=“30″]

Sigurlaug Dagsdóttir er fædd 29.janúar 1982. Hún ólst upp í Aðaldal, Suður Þingeyjarsýslu, er þjóðfræðingur að mennt og hef síðustu ár lagt stund á mastersnám í þjóðfræði og safnafræði við Háskóla Íslands, samhliða vinnu og barneignum.

Sigurlaug er landsbyggðarsál sem býr í vesturbænum, hef yndi af lestri og náttúrunni.

Hún hefur aðallega haldið sig við ritun ritgerða, sýningartexta og sérleiðsagna í tengslum við vinnu og nám, en alltaf skrifað ljóð til að róa hugann inná milli.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...