Tölum saman um kynþátt

Núna er fólk víðast hvar í heiminum að eiga erfið, stundum óþægileg, en nauðsynleg samtöl um kynþátt og rasisma. Hér verður fjallað um bókina So You Want to Talk About Race eftir Ijeoma Oluo sem fræðir lesendur um kynþáttamisrétti og kennir þeim að tala um kynþátt.

Bókin hefur ekki verið þýdd en hægt er að panta sér hana á netinu eða hlusta á hana á Storytel. Ég kaus seinni kostinn og var mjög ánægð með hlustunina.

“Conversations on racism should never be about winning”

Ijeoma talar um kynþátt á bæði persónulegum og fræðilegum nótum. Hún er rithöfundur en hefur einnig starfað sem blaðamaður, í tæknigeiranum og við markaðsetningu. Hún er gífurlega fjölhæf kona og tekur oft dæmi úr sínu eigin lífi í bókinni til að koma lesandanum betur í skilning um sum málefnin. Þessu var ég mjög hrifin af og standa sögurnar úr hennar lífi upp úr þegar ég hugsa um bókina í heild.

Ijeoma skrifaði þessa bók fyrir þá sem vilja fræðast um kynþátt og læra að tala um hann. Hún útskýrir fyrirbæri eins og menningarnám (e. cultural appropriation), samtvinnun mismunabreyta (e. intersextionality) og smáreiti (e. microagressions). Sjálf hafði ég kynnt mér þessi fyrirbæri en áttaði mig á við að hlusta á bókina að ég hafði alls ekki fullan skilning á þeim. Það sem mér fannst í raun hjálplegast er að hún setur upp allskonar aðstæður sem maður getur lent í, erfiðum samtölum við fólk sem er að haga sér á rasískan hátt eða segir eitthvað ónærgætið, og kemur með tillögur um hvernig maður eigi að bregðast við.

“Racial oppression should always be an emotional topic to discuss. It should always be anger-inducing. As long as racism exists to ruin the lives of countless people of color, it should be something that upsets us. But it upsets us because it exists, not because we talk about it.”

Forréttindi og hið hvíta valdakerfi

Ijeoma fræðir lesandann um hið hvíta valdakerfi (e. white supremacy) og kerfisbundin rasisma í Bandaríkjunum. Hún segir frá því þegar hún á að fá launahækkun en hún er skyndilega tekin til baka. Löngu seinna kemur í ljós að hvít kona hafði kvartað að svört kona sem hafði unnið styttra en hún yrði hækkuð í tign á undan henni. Hvíta konan fékk stöðuhækkunina þrátt fyrir að vera vanhæfari en Ijeoma. Ijeoma talar um smáreiti eins og þegar hvítt fólk gerir ráð fyrir því að hárið á henni sé almannaeign og snertir það án leyfis. Hún talar um hvít forréttindi (e. white priviledge) og segir frá því þegar hún þurfti að tala við sína eigin móður, sem er hvít, í fyrsta skipti um kynþátt og rasisma. Kemur í ljós að hvíta móðir hennar hélt að hún gæti ekki verið rasisti því hún ætti svört börn. En allir sem alast upp í hvítu valdakerfi verða sjálfkrafa rasistar, enda er ekkert annað hægt þegar allt samfélagið byggir á völdum hvíta mannsins og jaðarsetningu litaðs fólks.

 

Í þessari bók er einfaldlega of mikill fróðleikur til að ég geti farið að telja upp allt það sem ég lærði við að hlusta á hana. Ég mæli eindregið með henni, Ijeoma skrifar á persónulegum nótum og er textinn mjög aðgengilegur fróðleiksfúsum lesendum. Ég legg til að lesendur hlusti eða lesi þessa bók með gjörsamlega opnum hug, tilbúinir til að setja sig í spor annarra og finna til samkenndar.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...