Það eru án efa mörg skáld sem hafa fengið innblástur til skrifa á meðan á samkomubanni stóð í mars og apríl í ár. Á næsta ári koma örugglega út fjölmargar bækur sem sækja efni í þessa tíma, og það er gott og blessað því skáldskapurinn er fullkomin leið til að takast á við þær hugsanir og tilfinningar sem fylgdu þessum undarlegu tímum. Nú þegar hafa komið út tvær ljóðabækur sem fjalla um þessa tíma, það er Kyrralífsmyndir eftir Lindu Vilhjálmsdóttur og Veirufangar og veraldarharmur eftir Valdimar Tómasson.
Háttbundin og taktföst kvæði
Ég hafði ekki áður lesið ljóð eftir Valdimar og vissi því ekki við hverju var að búast. Eftir örlitla eftirgrennslan komst ég þó að því að hann skrifar myrk ljóð þar sem dauðinn er aldrei langt undan. Fyrri ljóð hans hafa verið í óbundnu máli en í Veirufangar og veraldarharmur yrkir Valdimar í bundnu máli. Stíllinn er háttbundinn, með stuðlum og höfuðstaf og fyrir vikið mjög taktfastur og þungur. Efni ljóðanna er ekki síður þungt, eins og áður í ljóðum Valdimars. Þegar bókin er öll lesin í einum rykk er hætta á að lesandi tapi þræðinum, festist í taktinum og tapi merkingu ljóðanna.
Harmþrungin er gamansöm lýsing
Bókinni er skipt í tvo hluta. Sá fyrri (veirufangar) er töluvert styttri en sá síðari og fjallar hann um um veirufárið mikla á vordögum 2020. Þótt efnið sé alvarlegt og þungt þá má gæta nokkurs húmors í sumum ljóðanna. Til dæmis þegar hann segir: Nú er í Smitvík nöpur vist / ég norpa í tómu porti, / líf mitt er allt á einhvern veg / útaf gengið korti. / Í einsemd kveð ég kvæðastef / sem Kristján fjallaskáld orti, / á kvöldin heyrast kynjahljóð / af klósettpappírskorti. Hann fangar þann raunveruleika sem sumir Íslendingar lifðu á meðan á samkomubanninu stóð. Til dæmis um fundi við tölvuskjái, óttann við að fara út í búð. Einsemdina.
Heimsósómi og vonleysi
Í seinni hluta bókarinnar (veraldarharmur) er Valdimar mun pólitískari en í fyrri hlutanum. Ljóðin eru enn háttbundin, með stuðlum og höfuðstaf og í bundnu máli. Í gegnum ljóðin dregur hann upp myndir af hinu spillta Íslandi; spilltri pólitík, baráttu hinna fátæku, kjaftagangi á Klaustri, fordómum. Hann skrifar um firringu hins vestræna samfélags, neylsuhyggju og forheimskun. Ljóðin sýna Ísland sem gróðrarstíu spillingar og óréttlætis, þar sem erlendir auðjöfrar fá að kaupa heilu jarðirnar og Hver fjóla er fótum troðin / og fegurðin kaupum boðin. Ljóðin minna mann á að margur pottur er brotinn í íslensku samfélagi og raunin er sú að Íslendingar eru allt of fljótir að gleyma óréttlæti sem hefur dunið yfir.
Ég dáist að þeim stíl sem Valdimar hefur valið á ljóðin. Ég hef lengi verið hrifin af ljóðum í bundnu máli, en þó er það skemmtilegra þegar efni ljóðanna er ögn léttara. Mér finnst ljóðmælandi í þessari bók þó hrauna yfir nær alla í íslensku samfélagi og vestrænum ríkjum. Án efa er ástæða til. En það er enginn léttari tónn í seinni hluta bókarinnar, sem er mikið lengri en sá fyrri. Það er hvergi slegið á léttari strengi, heldur er svartnættið alls ráðandi. Ljóðmælandi velur líka að enda bókina á því að segja: En fagurlitt vorsins veldi / senn verður að einu kveldi / er dauðinn mun búrhnífinn brýna / og bláljós um heiminn skína, / þá aldirnar engin telur / né auðlindir græðginni selur. Og það má vera að ég túlki orðin vitlaust, en mér finnst ljóðmælandi hér segja að ekkert verði aftur gott fyrr en dauðinn sækir að. Það sé í raun allt vonlaust. Fyrir vikið situr lesandinn eftir vonlaus, en þó snortinn.
Ég mæli með Veiruföngum og veraldarharmi fyrir þá sem hafa gleymt því hvernig var að lifa samkomubann, sem áttu erfiða tíma í samkomubanni. Einnig fyrir þá sem hafa gleymt hve mikið hefur gengið á í íslensku samfélagi og vilja muna eftir því sem enn er óunnið. Ljóðin geta eflaust blásið einhverjum baráttuanda í brjóst.