Kyrralífsmyndir af kófinu

 

Nú strax í byrjun sumars komu út bækur sem fjalla um nýliðna einangrun þjóðarinnar á vormánuðunum. Linda Vilhjálmsdóttir yrkir um tíma kórónuveirunnar og er ljóðabókinni skipt í sex kafla eða tímabil. Kaflarnir eru merktir með dagsetingum, sá fyrsti 24. mars til 28. mars og sá síðasti 4. maí til 26. maí. Ekki sjá íslenskir lesendur oft bækur sem eru svo ný skrifaðar að það er varla liðinn mánuður frá því að síðasti punktur var lagður við verkið þangað til það er gefið út. En fordæmalausar aðstæður skapa fordæmalaus skilyrði, meira að segja í hinum reglubundna bókabransa.

Linda Vilhjálmsdóttir er eitt af okkar fremstu skáldum en hún hefur fengið lofsamlega dóma fyrir ljóðabækur sínar, þar á meðal Frelsi og Smáa letrið. Linda hefur verið þekkt fyrir beitta pólitíska ádeilu í ljóðum sínum en í Kyrralífsmyndum er hún á örlítið rólegri slóðum.

Sjónvarpsmessan og póstbiblíska páskahelgin

Bókin og hönnunin lætur lítið fyrir sér fara en bókin er fallegur gripur. Linda yrkir um sammannlegar tilfinningar, óttann, þráhyggjuna, sýklafóbíuna, tvo metrana og daglegu fundina eða „sjónvarpsmessuna“ sem hún horfir samviskusamlega á: „kveiki á kerti klukkan tvö / og spenni greipar um sprittklútinn // meðan æðstuprestarnir leiða okkur gegnum farsóttarritúalið“. Hún notar trúarlegt myndmál úr biblíunni til að lýsa ástandinu í samfélaginu, enda myndar ástandið í huga margra bein hugrenningartengsl við endalok heimsins sem lýst er í biblíunni. Einnig var þetta tíminn þar sem margir báðu til æðra máttarvalds: „skilningur okkar / á píslarsögunni dýpkar / svo um munar // þessa póstbiblísku / páskahelgi“. Einnig bendir hún á augljósustu hugrenningartengsl ástandsins úr biblíunni: „kórónuveiran / stökkbreytist / stundum í biblíufrásögn / af engisprettufaraldri“.

Fuglar eru tákn sem er nálægt út alla bókina, „þar yfir sveimar / fagurskapað mávager // of kvikt / til að festist á símamynd / … / lífga upp á daginn“. Ljóðmælandi finnur frið og ró við að ganga í fjörunni og fylgjast með fuglunum, smellir jafnvel af þeim myndum, en myndir af fuglum sjást einmitt við hver kaflaskil, ætli þær séu þessar sömu símamyndir og voru teknar í kófinu? Fuglar eru algengt tákn yfir frelsi þar sem þeir fljúga óáreittir um háloftin á meðan við störum upp á þá föst á jörðinni, og því hentugt leiðarstef í ljóðabókinni yfir það hvernig við einangruðumst og þráðum hversdagsleikann aftur.

Hver fær að anda?

Það er þó ekki langt í ádeilu en ljóðmælandi er gagnrýninn á heilbrigðiskerfið og hinn vestræna heim sem var gjörsamlega óundirbúinn slíkri vá.

í höfuðstað
vestrænnar menningar

er hjúkrunarliðið nauðbeygt
til að velja

hver
á meðal fárveikra

fær að anda
í vél

og hver
ekki

Við öll fundum líklega til við að lesa fréttir um ástandið á spítölum víðsvegar um heiminn þar sem of fáar öndunarvélar voru til reiðu og fólki var forgangsraðað, heilbrigðisstarfsmenn voru nauðbeygðir til að taka ákvarðanir upp á líf og dauða oft á dag. Einnig var það fólkið sem er í svokölluðum „áhættuhópi“ sem var allt í einu á allra vörum en ljóðmælandi óskar þess að því verði ekki gleymt jafn skjótt: „vonandi / berum við gæfu til / að þeir sem veikir voru fyrir / lendi ekki aftur í ruslflokki // þegar upp verður staðið.“

Titill ljóðabókarinnar er einstaklega vel heppnaður en Kyrralífsmyndir er hægt að tengja við bæði ytra ástand samfélagsins sem stóð í stað í vor og líf hvers einstaklings sem sat heima og beið af sér ógnina. Lífið leið hægt á þessum furðulegu vormánuðum en það voru göngutúrar ljóðmælanda og ómengað loft samkomubannsins sem hélt honum gangandi.

Yfirveguð sýn á ástandið

Kyrralífsmyndir er lágstemmd og yfirveguð ljóðabók sem varpar fram svipmyndum úr lífi á tímum kórónuveirunnar. Ég hefði viljað aðeins lengri og innihaldsríkari ljóðabók en nánast allt sem kemur fram í henni er hægt að tengja við einfaldlega útaf því að þetta tímabil er svo nýliðið og ferskt í minni. Því leið mér stundum jafnvel eins og ég væri ekki að lesa neitt nýtt. En myndmálið og táknin í bókinni dýpka hana og mála upp fyrir lesandanum mismunandi myndir og nýjar hliðar af ástandinu. Forvitnilegt er að sjá hversu margar bækur munu fjalla um tíma kórónuveirunnar en nú þegar er önnur ljóðabók komin út sem fjallar um kófið, Veirufangar og veraldarharmur eftir Valdimar Tómasson.

 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...