Á ferðalagi um landið las ég bókina Litla land eftir Gaël Faye sem kom út í áskriftarseríu Angústúru. Bókin fjallar um ungan dreng, Gaby, sem býr í Bújúmbúra í Búrúndí. Móðir hans þurfti að flýja Rúanda þegar hún var ung, og faðir hans er franskur, en saman ákváðu þau að stofna fjölskyldu í Búrúndí. Bókin er þýdd úr frönsku af Rannveigu Sigurgeirsdóttur en þetta er hennar fyrsta þýðing.
Fyrsti hluti bókarinnar fjallar um barnæsku Gabys og nána vini hans sem leika sér í botnlanga í úthverfi borgarinnar. Fjölskylda Gabys hefur það gott peningalega séð og eru þau með þjóna og lifa ákveðnu forréttindalífi. Hann gengur í franskan skóla og er ósköp venjulegur drengur sem lifir venjulegu lífi. En á einni nóttu breytist allt, forsetar bæði Búrúndí og Rúanda eru myrtir og borgarastríð brýst út. Allt fer til fjandans í nágrannalandinu Rúanda þar sem Tútsum er nánast útrýmt í ógeðfelldu þjóðarmorði. Móðir Gabys og fjölskylda hennar eru Tútsar og eru þau í mikilli hættu. En hættan nær ekki strax að smitast inn í örugga úthverfið og fær lesandinn að fylgjast með því hvernig stríðið sýkir allt umhverfi og líf Gabys hægt og rólega.
Áhrifamikil frásögn
Bókin er gífurlega áhrifamikil frásögn af borgarastríði frá sjónarhorni barns sem upplifir heiminn umturnast á örskotsstundu. Gaby og vinir hans fara frá því að stela mangóum af trjám nágrannanna, í að sjá lík í vegkantinum og verða hluti af stríðinu sjálfu þegar faðir eins vinarins er myrtur og þeir taka morðingja hans til fanga. Móðurbróðir Gabys, Pacifique, færir fréttir af framlínunni þar sem hann ákvað að ganga í RPF, herflokk til að vernda föðurlandið Rúanda en afleiðingarnar styrjaldarinnar eru vægast sagt skelfilegar, „Eftir því sem klukkutímar, dagar og vikur liðu, staðfestu fréttir sem við fengum frá Rúanda það sem Pacifique hafði spáð nokkrum vikum áður. Um allt landið var Tútsum skipulega og markvisst mysþyrmt, slátrað, útrýmt.“ (bls. 170)
Frásögnin er grípandi og heldur lesandanum við efnið allan tímann. Gaël er virkilega fær höfundur, textinn er á köflum ljóðrænn þegar sögumaðurinn lítur til baka á atburðina frá sjónarhorni fullorðins manns: „Það sem gerðist í Rúanda, og var verra en nokkurt stríð, stóð yfir í þrjá langa mánuði. Ég man ekki lengur hvað við gerðum þennan tíma. Ég man hvorki eftir skólanum, né vinunum, né daglega lífinu. Við vorum aftur öll fjögur heima, en risastórt svarthol hafði gleypt okkur, okkur og minni okkar. Frá apríl og fram í júlí árið 1994 upplifðum við úr fjarlægð, innan fjögurra veggja, við hliðina á síma og útvarpstæki, þjóðarmorðið sem var framið í Rúanda.“ (bls. 171-172) Hann notar myndmál til að varpa ljósi á tilfinningarnar sem hann upplifði og tekst vel til.
Móðir hans fer, að lokum þessa þriggja mánaða, til Rúanda í leit að systur sinni og bróður. Þegar hún snýr til baka er hún ekki lengur sama konan. Öll fjölskylda hennar hafði verið myrt og hún er með slæma áfallastreituröskun sem börnin skilja ekki, „Að lokum sætti ég mig við ástand hennar, ég hætti að reyna að finna í henni móðurina sem ég hafði átt. Þjóðarmorð er olíubrák á hafi, þeir sem drukkna ekki, eru mengaðir af henni fyrir lífstíð.“ (bls. 193) Stríðið hefur áhrif á alla hliðar lífsins og Gaby mun aldrei upplifa áhyggjulausa tíma barnæsku sinnar aftur.
Bækur breyta lífinu
Eitt af því sem heillaði mig við Litla land er að hún fjallar ekki um stríðið fyrr en í seinni hlutanum. Barnæska og bernskubrek Gabys fá að njóta sín hálfa bókina og nær lesandinn því að kynnast raunveruleika hans og finna enn dýpri samkennd með honum þegar tilveru hans er kollvarpað. Gaby er líka viðkunnanlegur strákur. Þegar stríðið dynur yfir finnur hann griðastað hjá eldri konu í hverfinu frú Economopoulos en hún lánar honum bækur sem breyta lífi hans: „Þær koma mér til að hlæja, gráta, efast, íhuga. Þær gefa mér tækifæri til að forða mér. Þær hafa breytt mér, gert úr mér nýja manneskju.“ (bls. 177) Þannig hjálpuðu bækurnar honum að komast í gegnum þessu erfiðu tíma, það og samræður hans við gömlu konuna um bækurnar sem hann las.
Litla land er áhrifamikil skáldsaga sem endurspeglar skelfilega sögu Búrúndí og Rúanda og áhrif stríðs á ungan strák. Textinn er virkilega góður og þýðingin rennur mjög vel. Þetta er bók sem spilar á tilfinningaskalann og tekst að vekja samlíðan lesandans með heillandi texta af skelfilegum atburðum.