Nú hef ég lesið töluvert magn af bókum í sumar en það sem ég verð að segja að hafi verið bók sumarsins var skáldsagan Girl, Woman, Other eftir Bernardine Evaristo. Bókin vann Booker verðlaunin 2019 ásamt ógrynni annarra verðlauna. Hún er algjör metsölubók og tilnefndi meira að segja Barack Obama bókina sem bók ársins 2019. Bókina las ég á ensku en hún hefur ekki verið þýdd á íslensku, það verður spennandi að sjá hver fær að gefa út þetta tímamótaverk.

Girl, Woman, Other segir frá tólf breskum konum af lituðum kynþætti sem allar tengjast á einn eða annan hátt. Hver þeirra hefur sína merkilegu sögu að segja og nær Bernardine að sýna þverskurð af veruleika svartra kvenna í Bretlandi.

Samfélagsumræða og femínismi

Ytri umgjörð bókarinnar er leiksýning fyrstu kvenpersónunnar sem kemur fram í bókinni sem heitir Amma. Hún er leikskáld, femínisti og lesbía. Hún hefur átt farsælan feril og er uppsetning af leikritinu The Last Amazon of Dahomey  einhverskonar hápunktur ferilsins þar sem hún er sýnd í virtu leikhúsi í London. Konurnar sem bókin fjallar um tengjast þessari leiksýningu á einn eða annan hátt, margar þeirra eru viðstaddar frumsýninguna en aðrar eru ættingjar þeirra kvenna sem mæta. Í fyrsta kaflanum kynnumst við Ömmu en áhugasvið hennar er femínismi, birtingamyndir svartra kvenna í listum og samfélaginu sem og fræðikenningar og -konur. Hún á dóttur, Yazz, sem er ákveðin ung kona og finnst femínismi móður sinnar úreltur og lesandinn fær að kynnast hennar róttæka sjónarhorni í öðrum kafla bókarinnar. Allskonar samfélagsleg málefni koma upp, rasismi, transfóbía, hinseginleiki og jaðarsetning minnihlutahópa. Það má mjög margt læra af þessari bók um þessi mikilvægu málefni þar sem fjallað er um þau frá mismunandi sjónarhornum og kynslóðum.

Ljóslifandi persónur

Hver einasta persóna sem stígur fram á eftir Ömmu er manni ljóslifandi á síðunni. Það finnst mér talsvert afrek þegar konurnar eru tólf í heildina og hver kafli er útpældur og gefur hverri einustu konu dýpt og ríka forsögu. Það má ekki gleyma að nefna einnig allar margslungnu aukapersónurnar sem lesandinn fær einnig að kynnast. Persónusköpun Bernardine er einn helsti kostur bókarinnar.

Bókin fjallar ekki einungis um nútímann og heit samtímamálefni, heldur gerist hún einnig mismunandi tímabilum í sögu Bretlands þar sem sumar konurnar sem við kynnumst eru mæður eða ömmur annarra persóna. Því tekst bókinni að varpa fram birtingamyndum svartra kvenna á mismunandi tímum og af mismunandi kynslóðum. Þá er aldur þessara kvenna alveg frá 19 ára til 93 ára og því eru sjónarhornin gífurlega fjölbreytileg.

Það var einstaklega flott hvernig myndum af samfélaginu á hverjum tíma var varpað upp á virkilega sannfærandi hátt. Þá er sérstaklega verið að skoða upplifun kvenna á hverju tímabili, hvað er ætlast af þeim og hvernig þeirra hlutverk í samfélaginu þróast í gegnum tíðina. Einnig er ljósi varpað á upplifun svartra innflytjenda og hvernig fólk hegðaði sér gagnvart þeim í smábæjum Bretlands þar sem miklir fordómar viðgengust.

Áhugaverður stíll

Mörgum gæti brugðið í upphafi lesturs en bókin er skrifuð á óhefðbundin hátt. Í frásögninni eru engir punktar í lok málsgreina, þær eru brotnar upp, eins og oft má sjá í ljóðlist, og enginn greinamunur er gerður á samtölum, lýsingum og hugsunum. Þannig getur persóna textans hoppað úr þriðju í fyrstu persónu í sömu setningu. Þessi aðferð veitir höfundinum mikið frelsi og gefur textanum áhugaverðan blæ. Það tók mig fyrsta kaflann að venjast þessum stíl en eftir náði ég flæðinu og datt alveg inn í bókina. Það er spennandi að sjá hvort að fleiri höfundar muni taka upp þennan stíl eftir vinsælda þessarar bókar.

 

Fjölbreytileiki Girl, Woman, Other er magnaður og hennar helsti kostur. Það var í rauninni eins og að hafa lesið tólf mismunandi skáldsögur. Ég hefði getað dvalið miklu lengur hjá flestum persónunum og vildi alltaf vita meira um hverja þeirra þegar hver kafli endaði. Þetta er bók sem allir ættu að lesa.

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...