Haukur Hólmsteinsson skrifar:
Grímur hafa lengi verið táknrænar fyrir leikhús, ekki síst Þjóðleikhúsið sem bar tvær grímur á vörumerki sínu þar til nýlega. Á þessum tímum eru það þó áhorfendur sem setja þær upp. Á milli hópa eru auð sæti og þegar ég horfi upp í salinn sé ég meðal annars fullorðið par. Ég kemst ekki hjá því að hugsa að líklega hefur aldrei verið hættulegra að fara í leikhús en nú, á veirutímum. En þarna eru þau. Kannski er þetta merki um hvað leikhús getur verið mikilvægt, sérstaklega á umbrotatímum og minnir á fræga tilvísun sem oftast er eignuð Winston Churchill; þegar hann var beðinn um að minnka fjárframlög til listamála átti hann að hafa sagt: fyrir hverju berjumst við þá?
Einkennilegt leikár
Upphaf nefnist fyrsta sýning Þjóðleikhúsins á þessu nýja, einkennilega leikári, sem er sett upp í Kassanum við Lindargötu. Höfundur þess er englendingurinn David Eldridge sem leikhússtjóri tekur viðtal við í leikskrá verksins. Þar kemur fram að hann sótti sýninguna í London fyrir nokkrum árum þar sem það kallast Beginning á frummálinu.
Öll sýningin gerist í rauntíma og á sér stað seint um kvöld, eftir partý, heima í íbúð Guðrúnar, sem leikin er af Kristínu Þóru Haraldsdóttur.
Eftir að gleðskap lýkur eru allir gestir farnir heim fyrir utan einn, hann Daníel, leikinn af Hilmari Guðjónssyni. Daníel er hálgerður ræfill, að eigin sögn, en er líður á leikritið kemst ég ekki hjá því að hugsa, hvers á maður að þurfa að gjalda fyrir að vera hálfgerður ræfill? Við fylgjum með vandræðalegu daðri og einlægum afhjúpunum þeirra á milli í þennan eina og hálfa klukkutíma sem sýningin stendur yfir.
Reipitog á milli aðalpersónanna
Sýningin byrjaði sterkt með kærulausri en um leið órólegri orku sem myndaðist á milli Guðrúnar og Daníels. Við fáum fljótt að heyra að þau hafa gjóað augum að hvoru öðru allt kvöldið. Það virðist því óumflýjanlegt að þau nái saman í lok kvölds, spurningin sem hangir yfir áhorfendum er því ekki hvort, heldur af hverju – hvernig? Reipitogið snýst svo um að aðalpersónurnar skiptast á að missa kjark en síðan tvíeflast á víxl, þetta gera þau með því að viðurkenna sína fortíð og vankanta á meðan makkerinn sýnir samkennd.
Þau dansa í samtali sínu fram og til baka, á köflum tignarlega en oftar klaufalega. Þegar þau þaga er það aðeins á meðan þau dansa bókstaflega. Reyndar gáfu þau sér einnig örlítinn tíma til að taka til á kaflaskilum í leikritinu, það var ef til vill of mikil óreiða.
Vandræðaleikinn er viljandi gerður og eflaust geta margir tengt við þetta stirða ferli sem felst í að kynnast annarri manneskju. Leikmyndin hentar einstaklega vel og fasteignasalar myndu eflaust segja um íbúðina að hún sé vel skipulögð. Sviðið var vel nýtt á allar víddir sem hjálpaði áhorfendum að upplifa tenginguna þeirra á milli. Í byrjun var ráfað aðeins um íbúðina, en er leið á sýninguna urðu hreyfingar þeirra ákveðnari. Óöryggi þeirra beggja var þó alltaf undirliggjandi, enda er erfitt að berskjalda sig fyrir annarri manneskju.
Vel heppnuð sýning
Ef eitthvað mætti setja út á sýninguna er að hún datt aðeins úr takt í einræðum þeirra beggja þegar þau útskýra sínar fortíðir. Í seinni hluta sýningarinnar varð sömuleiðis textinn, sem framan að var einstaklega hversdagslegur og eðlilegur, örlítið háfleygur í átakamesta hluta sýningarinnar sem virkaði ögn melódramatískt í samanburði við fyrri hlutann.
Þegar öllu er á botnin hvolft er þetta vel heppnuð sýning. Það er augljóst að Hilmar og Kristín eru leikarar í efstu deild hér á landi þótt þau hafi allan tíman leikið hálf ölvað fólk. Ég trúi ekki öðru en að þau séu líka fín edrú.
[hr gap=“30″]
Haukur Hólmsteinsson frá Raufarhöfn er nú að klára meistaraverkefni sitt í ritlist. Þess á milli reynir hann að drekka í sig menningu úr tveggja metra fjarlægð.