Gunnar Theodór Eggertsson sendir frá sér bókina Drauma-Dísa í jólabókaflóðið og lýkur þar með þríleik sínum um stelpuna Dísu, sem var einu sinni venjuleg menntaskólastelpa á Íslandi.

Þríleikur á fimm árum

Saga Dísu hefst í bókinni Drauga-Dísa (2015). Dísa er venjuleg stelpa sem þarf að kljást við sérlega grimmilegt einelti. Hún á sér athvarf í sumarbústað fjölskyldunnar sem stendur nokkru fyrir utan borgina. Á sama stað á öðrum tíma er Björn að fylgjast með skoffíni klekjast úr eggi. Örlög Björns og Dísu fléttast saman þegar Dísa fellur í gegnum tímahlið til fortíðar. Saman þurfa þau að berjast við öflugasta galdramann Íslandssögunnar.

Í næstu bók, Galdra-Dísa (2017), heldur saga Dísu áfram. Gunnar Theodór fléttar inn í söguna stríði í mið-austurlöndum, en það er ekki allt sem sýnist. Dísa vill gjarnan nota krafta sína til góðs, hjálpa fólki á flótta og koma böndum á illann einræðisherra. Það fer þó ekki allt eins og hún ætlaði sér, því allur galdur kostar eitthvað og kostnaðurinn var kannski hærri en Dísu hafði nokkru sinni órað fyrir.

Í þriðju og síðustu bókinni, Drauma-Dísa, er Dísa horfin og tuttugu og fjögur ár hafa liðið frá lokum síðustu bókar. Björn hefur saknað Dísu sinnar sárt en hefur þó skapað sér nafn með því að skrifa furðusögur um álfkonuna Dísu sem berst við Dermíta í óþekktum heimi. Vinsældir bókanna eru í raun svo miklar að þær hafa verið þýddar á fjölda tungumála og hann er eitt af aðalnúmerunum á stórri furðusagnaráðstefnu í Evrópu. Aðalsöguhetjurnar í þessari bók eru aðdáendur bókanna; Vár frá Íslandi, Tina frá Grikklandi og Róbert frá Englandi. Þeirra helsta markmið er að berja skáldið augu og fá eiginhandaráritanir í bækurnar sínar, en þegar Björn hverfur fara undarlegir hlutir að gerast.

Bók sem ögrar lesandanum

Fyrstu tvær bækurnar fylgdu nokkurn veginn þeirri línu sem ég bjóst við af þeim. Þær voru með hefðbundna söguuppbyggingu og gerðust nokkurn veginn í okkar heimi. Í Drauma-Dísu fer Gunnar Theodór með lesandann út fyrir okkar heim og inn í annan, mjög framandi. Um leið komumst við að því hvað varð af Dísu eftir að hún hvarf í annarri bókinni. Eins og í fyrri bókunum er höfundurinn ekki feiminn við að skapa hrollvekjandi senur og ögra fyrirframgefnum hugmyndum lesandans um söguframvindu.

Í bókinni falla tveir heimar saman. Annar er okkar heimur og hinn er heimur sem er okkur ekki sýnilegur og geymir skugga okkar heims. Öllu fylgir skuggi – öllum gjörðum okkar góðum eða illum. Öllu fylgir skuggi til að skapa jafnvægi í heiminum. En á einhverjum tímapunkti varð rof á milli og skugginn hætti að fylgja ljósinu og var falinn. Björn og Dísa eru tengd órjúfanlegu bandi. Þegar Dísa fellur inn í skuggaheiminn skapast tengsl milli heimanna sem hægt og rólega toga þá saman og tuttugu og fjórum árum eftir að Dísa hverfur verður áreksturinn og það er Várs, Tinu og Róberts að kljást við það.

Heimur án minninga, heimur án sögu

Vár sér Dermíta á furðusagnaráðstefnunni. Það er hluti af sameiningu heimanna tveggja. Í fyrstu fannst mér þessi hugmynd, um að heimarnir væru farnir að skarast, spennandi. Ég sá fyrir mér að krakkarnir myndu á einhvern hátt stöðva heimsenda á hetjulegan hátt. En svo fór ekki, í staðinn hélt bókin áfram inn í súrrealískan handan heiminn og allt varð svolítið óljóst og fljótandi. Margar persónur voru kynntar til sögunnar sem maður átti erfitt með að tengjast, persónur breyttust og gleymdu og einhvern veginn flosnaði allt í sundur. Allt varð að engu. Það var svolítið erfitt að henda reiður á öllu sem var að gerast og mér, sem lesanda, fannst ég vera í lausu lofti. Kannski svolítið svipað líðan sögupersónanna.

Í lok bókarinnar sest Dísa niður við eld í helli og hlustar á sögu sem Björn segir. Heimarnir tveir hverfast því í kringum þau tvö. Björn segir sögur af heiminum sem var. Og einhvern veginn fannst mér eins og það væri eins og sköpunarsaga gömlu trúarbragðanna að heimarnir sameinaðir væru hinn fullkomni heimur. Nær því sem gömlu sköpunarsögurnar sögðu frá, þar sem fótur getur getið sin með hinum og heilur árnar renna úr spenum kúa. Þar sem það er fullkomlega rökrétt að dvergar haldi uppi himinhvolfinu. Á sama tíma fannst mér við minnt á mátt sagnanna og munnlegrar geymdar. Hvað erum við án sagnanna? Án minninganna?

Óvæntur endir á þríleik

Ef til vill hef ég misst af einhverjum táknum í bókinni, einhverju sem dýpkar súrrealískt sýrutrippið. Lokin á þríleiknum komu mér nokkuð á óvart sé þriðja bókin borin saman við fyrri tvær bækurnar. Kynnum mínum af Dísu er þó hvergi nærri lokið. Ég veit að ég mun lesa þríleikinn aftur einhvern daginn, enda er Dísa ein sú allra töffaralegasta sögupersóna sem ég hef kynnst. Ímyndunarafli Gunnars Theodórs virðist ekki bundið neinum takmörkum.

Drauma-Dísa er súrrealískur endir á þríleiknum um Dísu og eins og fyrri bækurnar fullar af ótrúlegri hugmyndaauðgi Gunnars Theodórs.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...