Vilborg Davíðsdóttir hefur sérhæft sig í að skrifa sögulegar skáldsögur og gerir það vel. Fáir hafa eins mikið vald á því að skapa eins lifandi persónur úr Íslendingasögunum og Vilborg gerir. Vilborg sendi frá sér bókina Undir Yggdrasil í jólabókaflóðið, sögu Þorgerðar Þorsteinsdóttur, konu Dala-Kolls. Persónurnar sækir hún í Laxdælu. Bókin hefur fengið tilnefningu til Fjöruverðlaunanna.
Undir Yggdrasil
Sagan segir frá Þorgerði Þorsteinsdóttur, sem er óhamingjusamlega gift Kolli. Saman eiga þau tvíbura sem Þorgerður ól vart komin úr barndómi sjálf. Og svo eiga þau Þorkötlu. Þorkatla er óskabarn móður sinnar. Þorgerður er barnabarn Auðar Djúpúðgu, en hún deilir ekki trú þeirrar gömlu á Hvíta Kristi, heldur aðhyllist fornan sið og heiðna trú. Eflaust eru margir lesendur sem gleðjast við að rifja lítillega upp kynni við Auði í sögunni.
Á þingi á Þórsnesi eiga sér stað atburðir sem umturna lífið Þorgerðar. Atburðina vil ég ekki tíunda hér, það myndi spilla bókinni fyrir væntanlegum lesendum. Þorgerður þráir ekkert heitar en að fá svör við því hvað kom fyrir á þinginu og þarf að leita sér svara um langan veg, allt frá Íslandi til Noregs, til Eystrasaltsríkjanna og undir Yggdrasil.
Nákvæm heimildavinna
Mér hefur alltaf þótt gaman að lesa sögulegar skáldsögur, sérstaklega þegar höfundi tekst vel að móta hugaheim persónanna á lifandi og sannfærandi hátt og í takt við tímann sem sagan á sér stað. Eða að minnsta kosti það sem maður ímyndar sér að passi við hugsanir fólks frá þeim tíma.
Framvinda er töluvert hæg framan af í bókinni. Vilborg nostrar við að lýsa fötum, helgiathöfnum og uppruna hinna ýmsu persóna. Fyrir vikið var ég lengi að komast inn í bókina. Þegar áfallið reið svo yfir, um einn þriðja veg inn í bókina, var ég því ekki viðbúin og það skók mig jafn mikið og það fékk á Þorgerði.
Vilborg hefur aflað sér ótrúlega mikillar þekkingar á fornum siðum og hefðum. Bakgrunnur hennar er í þjóðfræði svo hún á ekki langt að sækja þekkinguna. Í eftirmála bókarinnar segir Vilborg frá heimildaöflun fyrir bókina, þar sem hún ferðaðist til Eystrarsaltsríkjanna til að kynna sér staðahætti og sögu þeirra. Þessi heimildaöflun skilar sér vel í bókinni og gerir heiminn allan trúverðugari og meira dáleiðandi.
Samkynhneigð er ekki uppfinning nútímans og Vilborg hnykkir á því í bókinni. Að ýmsu er ýjað vegna barnleysis Þorgerðar og Dala-Kolls. Það þótti sneypa að vera karlmaður sem grintist aðra karlmenn. Og að ferðast undir Yggdrasil (fara yfir í handanheima) gat verið varasamt fyrir karlmenn, enda þurftu þeir að kvengerast að einhverju leiti.
Föst í örlagavef
Þótt lesandinn skilji allan tíma af hverju fór sem fór á Þórsnesþinginu, þá verður hann bundinn örlögum Þorgerðar og vill að hún skilji líka. Þótt því fylgi líka smá ótti. Vilborgu tekst að fanga lesandan algjörlega í örlagavef Þorgerðar, og maður verður að vita hvert örlaganorningar hafa spunnið vef hennar. Ferðin til Noregs og síðar Eystrasaltsríkjanna var upplýsandi og áhugaverð. Persónurnar sem koma við sögu á hverjum stað fyrir sig eru vel uppbyggðar og sannfærandi, svo þær standa ljóslifandi fyrir hugskotsjónum lesandans. Vilborg endurlífgar fortíðina í bókinni, blæs lífi í gamla siði og lesandinn verður í smástund sannfærður um að hann sé að lesa um fortíð sem átti sér stað í raun.
Þrátt fyrir að vera hæg í byrjun er Undir Yggdrasil bók sem dregur lesandann aftur til fortíðar og sleppir seint. Vilborg skapar ótrúlega nákvæmt persónugallerí sem lesandinn á erfitt með að sleppa hendinni af. Sálarlífi og sálarangist Þorgerðar er lýst á sannfærandi hátt – svo sannfærandi að lesandinn dregst inn í örvæntinguna með henni.