Ebenezer Tweezer er 511 ára og þráir ekkert heitar en að lifa lengur. Í æsku kynntist hann Ókindinni, en Ókindin er búin þeim töfrum að geta ælt upp töframeðali sem heldur herra Tweezer ungum. Það eina sem Ebenezer þarf að gera er að fóðra hana, sem er auðvelt verk framan af. En eftir því sem Ókindin stækkar verður matarlystin meiri og framandlegri. Þegar Ókindin biður svo um að fá barn að borða veit Ebenezer ekki alveg hvað hann á að gera.
Bethany kemur til sögunnar
Ókindin og Bethany er skrifuð af Jack Meggitt-Philips, í þýðingu Guðna Kolbeinssonar. Myndhöfundur bókarinnar er Isabelle Follath og ljá teikningar hennar bókinni svolítið hrollvekjandi blæ.
Ebenezer þarf að finna barn fyrir Ókindina, en á erfitt með að finna það. Hann reynir dýragarðinn en foreldrar barnanna eru fyrir honum. Hann leitar í fuglabúðinni, en þar eru einungis seldir fuglar. Svo er honum bent á munaðarleysingjahælið. Vandast þá málin, því Ebenezer getur engan veginn fært Ókindinni gott og yndislegt barn. Þess vegna velur hann Bethany. Hún er hræðilega óþekk, hrekkjótt, stríðin og heilt yfir hræðilegt barn.
Bókin minnir á söguna um Dorian Gray. Ebenezer felur hið illa á efstu hæð og á einhvern hátt er það hans innræti. Á sama tíma minnir hún mann á söguna um Gru í Aulinn Ég, því þrátt fyrir að vera fyrst og fremst hræðilegur maður og illmenni þá er Ebenezer mjúkur að innan. Rétt eins og Gru. Svo er auðvitað þetta með að sækja sér barna á munaðarleysingjahæli til að ná fram áætlunum sínum.
Ævintýralegur heimur
Ég hafði töluvert gaman af að lesa bókina en sagan var nokkuð fyrirsjáanleg frá fyrstu síðu. Meggitt-Philips ögrar þó svolítið lesendum sínum, börnum á aldrinum 8-12 ára, með því að skapa persónur sem eru ansi illa innrættar. Bethany er hræðilegt barn og Ebenezer er vondur og hégómafullur maður sem lætur stjórnast af duttlungafullu hungri ókindar á fimmtándu hæð. En Bethany, eins og Ebenezer, á sínar góðu hliðar líka. Hún er fær um að sjá að sér og saman ætla þau tvö að stefna að betri hegðun og aukinni samkennd með samferðafólki sínu.
Mér finnst sagan bera sterkan keim af enskri barnasagnahefð sem sækir til Roald Dahl. Bókin veður áfram, ímyndunaraflið fær að ögra raunveruleikanum og persónur eru svolítið öfgakenndar. Fólk er annað hvort algott eða alvont. Heimur Meggitt-Philips verður líka svolítið ævintýralegur með syngjandi páfagaukum og viktoríönskum klæðnaði Ebenezers.
Endirinn gefur færi á framhaldi og stefnt er á að sagan af Ókindinni verði að þríleik, sem án efa á eftir að heilla marga lesendur.