Meðvirk, píslarvottur, auðsveip, auðveld í umgengni? Eyrún Ósk Jónsdóttur gerir hina penu, auðsveipu og „vill láta lítið fyrir sér fara“, „vertu ekki að hafa fyrir mér“ konu að umræðuefni í nýrri ljóða/smásögubók sinni Guðrúnarkviðu. Ég held við þekkjum öll einhverja svona konu, þó þær séu kannski á undanhaldi. Konan sem vildi ekki láta í sér heyra, konan sem mótmælti ekki af ótta við að valda öðrum óþægindum. Konan sem kunni ekki að segja nei.
Konan í bók Eyrúnar Óskar vaknar upp við vondan draum í kistu í eigin jarðarför. Í gegnum bókina fær lesandinn stærri og litríkari mynd af konunni í gegnum gesti jarðarfararinnar. Hún er hin trygga vinkona, svikula eiginkona úr ástlausu hjónabandi, svikula vinkona og í laumi hefnigjörn.
Illa haldin af meðvirkni
Eyrún Ósk fléttar saman ljóðum við smásögur. Þannig er hluti af sögunni sagður í gegnum smásögur, þankagang kirkjugesta og konunnar sjálfrar, og í gegnum stutt ljóð. Einnig laumast stöku ljóðlínur inn í smásögurnar. Saga konunnar er kímin, þótt örlög hennar séu sár. Í gegnum söguna dregur Eyrún upp sögu af konu sem hefur ekki svarað eigin þrám, heldur látið undan löngunum annarra. Nokkuð sem kemur í ljós að er alls ekki það besta sem maður gerir fyrir samferðafólk sitt.
Bókin er stutt en geymir heila ævi konu. Fyrir hennar hönd varð ég ögn bitur við lesturinn, en það rjátlaðist af mér þegar leið á. Eyrún fær lesandann til að finna til samúðar og andúðar á aðalsögupersónunni, sem mér fannst ansi vel gert.
Guðrúnarkviða er harmræn saga konu sem hefði ef til vill átt að standa betur með sjálfri sér. Á öllum sviðum lífsins. Samfléttun smásagna við ljóð heppnaðist vel og þrátt fyrir þungan efnivið, þá var sagan bráðfyndin.