Fyrir tæpum tíu árum kynntumst við fjölskyldan Fróða sóða fyrst. Hann kom á heimilið í myndabók, þar sem Fróði sleikir hunda, pissar í blómabeð, borar í nefið og BORÐAR horið (hér þurfti alltaf að hrylla sig ægilega yfir ógeðinu). Í bókinni er endurtekningin áberandi, þar sem fjölskylda hans hrópar reglulega á hann „oj  bara, Fróði sóði“. Og það var sama hve oft við mæðginin lásum bókina saman, hún sló alltaf í gegn. Það var því svolítið gaman að sjá að Fróði sóði er kominn út í léttlestrarbókum eftir Alan MacDonald, það er Fróði sóði – Bók 1 og Fróði sóði – Bók 2

Líkindi milli pörupilta

Bókin er á nokkuð hefðbundnu léttlestrarformi. Stafirnir eru þægilega stórir, langt bil á milli lína og blaðsíðurnar ekki alveg hvítar. Í hvorri bók fyrir sig eru þrjár sögur af Fróða og hans uppátækjum. Að vissu leyti minnir Fróði svolítið á Skúla skelfi eftir Francescu Simon, sem er kannski ekki skrýtið þar sem Alan MacDonald hefur unnið að gerð sjónvarpsþáttanna um Skúla skelfi.

MacDonald fylgir því nokkkuð öruggri formúlu í bókunum. Fróði er uppátækjasamur drengur sem skeytir lítið um reglurnar. Hann hefur undarleg áhugamál, eins og að búa til fýlubombur, safna ormum og hann er undarlega heillaður af ruslabílnum. Fróði er sem sagt drengurinn sem veldur uppþoti í skólastofunni og foreldarnir eiga fullt í fangi með – mjög svipað Skúla skelfi. Á móti Fróða er telft vitringi bekkjarins, sem er drambsamur besserwisser.

Líklegar til vinsælda

Sögurnar vekja áhuga markhópsins á lestri. Minnugur fyrri kynna okkar af Fróða var þriðjubekkingurinn fljótur að grípa bækurnar og lesa þær upp til agna. Hann gaf þeim góða einkunn, hló reglulega hátt og innilega yfir uppátækjum Fróða og endursagði heilu sögurnar.

Til að draga þetta saman í nokkrar setningar: Léttlestrarbækurnar um Fróða sóða fylgja öruggri formúlu sem er vel til þess fallin að draga börn inn í lesturinn. Þrjár sögur í einni bók skiptir bókinni upp í þrjá þægilega bita sem auðvelt er að gleypa í sig. Bækurnar henta einstaklega vel börnum sem eru nokkuð örugg í lestri, en vilja auka lestrarhraða. Þær eru líka fínar fyrir foreldra að ota að börnum sínum til að vekja lestraráhuga.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.