Poirot ráðgáta af bestu gerð

Five Little Pigs (einnig þekkt sem Murder in Retrospect) er talin vera ein af bestu glæpasögum Agöthu Christie. Gagnrýnendur á mörgum vígstöðum, til að mynda New York Times og Guardian eru sammála þessu. Þar sem þetta er ein af betri Agöthu Christie bókunum sem ég á en hef ekki lesið ákvað ég að demba mér í að lesa hana núna á dögunum. Bókin er auðlesin og mjög vel uppbyggð og er því óhætt að mæla með henni fyrir alla Christie aðdáendur, sem og þá sem vilja kynnast þessum frábæra rithöfundi.

Sextán ára gamalt morð

Bókin er eflaust vinsæl þar sem hún er ólík flestum glæpasögum Christie þar sem hinn geðprúði belgíski rannsóknarlögreglumaður Hercule Poirot kemur við sögu. Bókin hefst á því að hin rétt rúmlega tvítuga Carla Lemarchant kemur á fund Poirot. Hún er trúlofuð en vill ekki gifta sig fyrr en hún veit nákvæmlega hvernig fór fyrir foreldrum hennar sextán árum áður. Móðir hennar Caroline Crale var dæmd fyrir að myrða föður hennar, listmálarann Amyas Crale, eftir að hann fór að halda við hina ungu Elsu Greer. Caroline lést svo ári síðar í fangelsi.

Það gæti reynst Parent Trap aðdáendum erfitt að ímynda sér Meredith Blake sem karlmann

Fimm liggja undir grun

Carla var send til Kanada þar sem hún var alin upp af ættingjum sínum, en þegar hún varð 21 árs fékk hún bréf sem móðir hennar hafði ritað þar sem hún lýsti yfir sakleysi sínu. Poirot fellst á að taka að sér málið og fer að ræða við aðilana sem rannsökuðu málið. Hann kemst fljótt að því að fimm einstaklingar hafi verið viðstaddir þennan dag sem Caroline var ásökuð um að hafa eitrað fyrir Amyas. Það eru svínin fimm sem titillinn vísar til, en þetta minnir Poirot á vísu um svínin fimm (sem við á Íslandi þekkjum frekar sem vísuna um puttana); Phillip Blake, verðbréfamiðlari; Meredith Blake, bróðir Phillip og áhugamaður um lyfjafræði; Angela Warren, yngri hálf systir Caroline; Cecilia Williams, barnfóstra Angelu, og Elsa Greer (nú Lady Dittisham) sem Amyas var að mála. Poirot hefur upp á einstaklingunum fimm og biður þá alla um að segja sér sína hlið málsins, og þannig nýtir hann gráu heilaselurnar til að leysa þetta gamla mál.

Óhætt er að mæla með samnefndum ITV Poirot þætti

Leyst með bréfum

Heilt yfir er þetta hin besta glæpasaga. Hún er stutt og hnitmiðuð og sem fyrr segir ólík týpíska formi Christie. Mín helsta gagnrýni er að auk þess að fara yfir málið með öllum fimm einstaklingunum sem voru viðstödd þennan dag biður Poirot þau líka um að skrifa sér bréf þar sem þau lýsa í löngu máli nákvæmlega hvað þau upplifðu þennan dag og í aðdraganda morðsins. Þessi bréf eru svo birt seint í bókinni eftir að Poirot hefur heimsótt alla aðilana. Mér fannst þetta dálítið langdregið því maður var að lesa svipaða frásögn aftur og aftur, eftir að hafa heyrt einstaklinga lýsa þeim fyrr í bókinni. Hins vegar er þetta tól sem Poirot notar til að leysa gátuna og því þjónar þetta ákveðnum tilgangi fyrir framvindu sögunnar. Það er óhætt að mæla með ITV sjónvarpsþættinum Poirot sem byggir á þessari bók en þar tekst handritshöfundinum einmitt að blanda saman skrifuðu og mæltu frásögunum til að koma í veg fyrir þessa tvítekningu.

Five Little Pigs er klárlega með betri Christie bókum sem ég hef lesið, auðlesin og spennandi og hlakka ég til að halda áfram að lesa mig í gegnum þetta frábæra safn bóka hennar.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...