Myrkur sumarlestur

Vanessa mín myrka eftir Kate Elizabeth Russell kom út í Bandaríkjunum árið 2020 og þrátt fyrir nálægðina við #metoo byltinguna 2017 þá var bókin áratugi í smíðum. Líkast til hefur bókin þó fengist útgefin þar sem jarðvegurinn var frjór fyrir sögur sem þessa eftir 2017. Bókin kemur út í íslenskri þýðingu Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur hjá nýju bókaútgáfunni Króníku.

Bókin segir frá Vanessu Wye, rúmlega þrítugri konu sem fylgist úr fjarlægð með #metoo byltingunni árið 2017. Tilfinningar hennar til byltingarinnar eru ekki þær sem maður hefði búist við. Hægt og rólega lýkst upp fyrir lesandanum að Vanessa átti í ástarsambandi við kennara, herra Strane, þegar hún var 14 ára í fínum heimavistarskóla. En hennar upplifun af sambandinu var ekki sú að nokkuð slæmt hafi átt sér stað. Hún var ástfangin. Í gegnum bókina flakkar lesandinn á milli áranna 2001 og 2017 – milli hinnar fullorðnu Vanessu og unglingsins. Árið 2001 hefur Vanessa einangrast í heimavistarskólanum og sækir í einveru og ljóðaskrif. Þetta vekur athygli enskukennararns Strane sem tælir Vanessu og hefur það varanlegar afleiðingar á líf hennar.

 

Þungur en raunsannur lestur

Þetta myndi ég segja að væri ekki hefðbundinn sumarlestur þar sem efnistökin eru gífurlega þung og hafa beina skírskotun í baráttu þolenda kynferðisofbeldis sem enn er háð nú árið 2021. Ljóst er frá upphafi að Strane er hreinn og beinn barnaníðingur og narsissisti (með sjálfsupphafningar persónuleikaröskun) en Vanessa sjálf vill ekki viðurkenna það á neinn hátt. Hennar upplifanir á ofbeldinu eru huldar rósrauðri filmu eftir nánast tvo áratugi af réttlætingum frá Strane og henni sjálfri. Hún segir sjálfri sér að þetta hafi verið stórkostleg ástarsaga og það gerir hann líka. Það er í hlutverki lesandans að lesa á milli línanna og greina og dæma hegðun Stranes, því Vanessa gerir það ekki sjálf.

Yfirleitt er fjallað um Strane í jákvæðu ljósi, að hann sé svo góður við Vanessu og sé að fórna sér fyrir hana og hann sannfærir Vanessu um það. En þetta er gott dæmi um gasljóstrun (e. gaslighting) sem er hugtak sem hefur verið áberandi í #metoo umræðunni. Gasljóstrun er þegar gerandi rengir upplifanir þolanda með því að neita því að hafa gert nokkurt rangt og segir þolandann vera að misminna eða að gera úlfalda úr mýflugu. Þegar gasljóstrun er beitt gegn manneskju byrjar hún að efast um eigin tilfinningar og upplifanir og hættir að treysta eigin mati á samskiptum og aðstæðum. Þannig leikur Strane sér auðveldlega með tilfinningar og hugsanir 15 ára Vanessu með blíðu og hörku til skiptis. Hann gerir þetta meðal annars með því að segja að það sé henni að kenna að hann hafi orðið ástfanginn af henni, hann var bara svo óheppinn að verða ástfanginn af unglingi.

Að laðast að myrkrinu

Lýsingarnar af ofbeldinu, bæði andlega og líkamlega, eru óþægilega raunsannar og gerðu lesturinn virkilega erfiðann á köflum. Strane passar að spyrja Vanessu alltaf um leyfi, fær samþykki frá henni til að ganga alltaf lengra og lengra. Þannig fær hann hana til að líða eins og hún beri ábyrgð á öllu því sem þau gera, hún gerir sér enga grein fyrir valdaójafnvæginu sem er á milli barns og kennara á fimmtugsaldri. Strane fær hana í rauninni til að trúa því að það sé hún sem sé með valdið yfir honum, að það sé hún sem getur stjórnað honum og hún upplifir sig sem valdamikla. Hún þarf að biðja hann afsökunar á þeirri sálarangist sem hún veldur honum og þeim vandræðum sem samband þeirra hefur skapað fyrir hann.

En auðvitað gerir hún sér grein fyrir því inn á milli að eitthvað rangt sé að eiga sér stað. Strane réttlætir það með því að segja að þau séu bæði „myrkar“ sálir, að þau bæði laðist að myrkrinu og því sem er rangt. Að Vanessa sé öðruvísi en aðrar stelpur, þroskaðri, gáfaðri, nánast kona. Þetta er kallað tælingarferli (e. grooming) og er það þegar gerandi falast eftir barni í kynferðislegum tilgangi, hann undirbýr það með því að sýna því blíðuhót og vingast við það yfir ákveðið tímabil. Gerandinn lætur svo til skara skríða þegar hann er búinn að „undirbúa“ barnið nóg. Þetta gerði Strane með því að sýna Vanessu sérstaka athygli í kennslustundum, eyða tíma með henni eftir skóla og hrósa henni meira en öðrum nemendum.

Bandaríska kápa bókarinnar og höfundurinn Kate Elizabeth Russell.

Lolita og Vanessa

Lolita eftir Vladimir Nabakov kemur ósjaldan til tals í bókinni og eru textatengslin mikil á milli þessara verka. Strane notar bókina sem hluta af tælingarferlinu. Hann lánar Vanessu sitt eintak og hún les hana blaðsíðanna á milli líkt og um mikilvægasta lestur lífs hennar sé að ræða. Hún samsamar sig með Lolitu og Humbert Humbert er Hr. Strane (ef þið kannist ekki við söguþráð Lolitu má lesa sér til um hana hér). Alltaf kemur verkið aftur og aftur upp í bókinni en einnig er það bókin Pale Fire eftir sama höfund sem Strane nýtir sér, en í þeirri bók er titill skáldsögunnar tekinn, Vanessa mín myrka. Þetta túlkar Vanessa sem skilaboð, merki, um að samband hennar og Stanes sé öðruvísi, merkilegt, óumflýjanlegt.

Eins og áður sagði var bókin mörg ár í vinnslu. Russell byrjaði að skrifa bókina á menntaskólaárum sínum, en gefur ekkert uppi um hvort bókin byggi á hennar eigin lífi. Í gegnum háskólanám sitt hélt Russell áfram með söguna, fínpússaði og fínstillti og að loknu doktorsnámi í skapandi skrifum var bókin um Vanessu lokaafurðin. Bókin hefur komið út á fjölda tungumála nú þegar.

Ofbeldið í bókinni er bersýnilegt hverjum þeim sem vill sjá það. Þegar konur hafa stigið fram með sögur af kynferðisofbeldi eru þær gagnrýndar fyrir að hafa ekki kært strax. Þessi bók dregur upp mjög svo raunsanna mynd af kynferðisofbeldi og sýn þolandans, og af hverju það er ekki kært strax í sumum tilfellum. Valdaójafnvægi, vanþroski þolandans, gasljóstrun, tæling… allt hefur áhrif á að sýn þolandans. Heimurinn er á skjön. Þolandinn veit ekki hverju á að trúa. Eða hverju hann vill trúa.

 

Það er ekkert undir rós í þessari bók. Vanessa mín myrka var virkilega erfiður lestur því kynferðisofbeldið sem Vanessa verður fyrir liggur allt augum uppi og réttlætingar Stranes eru svo ógeðfelldar og úthugsaðar að erfitt að komast í gegnum þær á köflum. Svo er það allt fullorðna fólkið í lífi Vanessu sem bregst henni fullkomlega og leyfir þessu að viðgangast. Þetta er bók sem vert er að taka eftir því hún varpar ljósi á þau gífurlegu áhrif sem kynferðisofbeldi hefur á manneskju og hvernig gerendur komast upp með að misnota þolendur í áratugunum saman.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...