Það hefur verið svoleiðis rífandi gangur á lestrinum frá því að ég leit aðeins upp úr kanínuholu bóka sem kenndar eru við ungmenni, en þar hef ég svo gott sem haft lögheimili frá því í febrúar. Ekki skilja mig sem svo að ég sé orðin þreytt á ungmennabókunum, alls ekki. Það eru bara svo margar aðrar góðar bækur sem hafa setið á hakanum á meðan. Atlagan að sumarnáttborðsstaflanum (gesundheit) hefur gengið vonum framar og ég er búin að lesa ótrúlega margar góðar bækur undanfarnar vikurnar. Ég má til með að fjalla aðeins um eina þeirra, bókina The Switch eftir Beth O’Leary.
Skiptin
Nafnið er eflaust kunnuglegt, en hún er höfundur bókarinnar Meðleigjandinn, sem kom út hjá JPV 2019, en Lestrarklefinn fjallaði einmitt um þá bók hér og hér. Það er óhætt að segja að Meðleigjandinn hafi slegið í gegn og undirrituð var ekki ónæm fyrir töfrum hennar, þótt pistilinn um konur í klípu megi vissulega skilja öðruvísi. Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar þegar ég sá að von væri á annarri bók eftir sama höfund og þær eru meira að segja orðnar þrjár þegar þetta er skrifað.
Grunnsöguþráður bókarinnar er sá að hin áttræða Eileen Cotton er nýskilin og á höttunum eftir lífsförunauti og ævintýrum. Það er því miður ekki um auðugan garð að gresja í pínulitla þorpinu Hamleigh-in-Harksdale í Yorkshire og hugurinn leitar til London, þar sem úrvalið af piparsveinum á hennar aldri er ívið meira. Á sama tíma er dótturdóttir hennar, hin tæplega þrítuga Eileen „Leena“ Cotton, að reyna að takast á við ástvinamissi með því að vinna yfir sig. Eftir að hún klúðrar mikilvægum fundi í vinnunni er hún send í tveggja mánaða orlof frá vinnu og finnur að hún þarf líka að breyta aðeins til. Áður en þær vita af eru þær búnar að skipta á landshlutum, húsnæði, vinahópum og verkefnum.
Blæbrigðaríkur frásagnarstíll
O’Leary tekst einfaldlega snilldarlega vel upp með að fjalla um mikilvægi félagslegra tengsla og vinskapar, missi, einmanaleika og ást í sinni annarri skáldsögu. Hún fléttar þessi viðfangsefni áreynslulaust inn í hjartnæma frásögn og úr verður bók sem er best lýst með orðunum „gott í hjartað“. Söguþráðurinn er nokkuð fyrirsjáanlegur, eins og gengur og gerist með bókmenntir af þessu tagi, en persónusköpunin er vönduð og ég hló og grét til skiptis við lesturinn. Eitt af því sem O’Leary tekst listilega vel upp með er að skapa þrívíðar aukapersónur sem manni er virkilega annt um. Þá er hún einnig fær í að skrifa söguþráð frá tveimur mismunandi sjónarhornum, eins og hún var þegar búin að sýna fram á í Meðleigjandanum. Það er blæbrigðamunur á frásagnarstílnum eftir því hvor aðalsöguhetjan hefur orðið, en það blæs að mínu mati miklu lífi í persónurnar.
Ég kalla hér með eftir því að JPV haldi áfram að standa fyrir þýðingum á bókunum hennar Beth O’Leary, því að mínu mati er hér á ferð algjör kanóna í flokki ástarsagna. Ég er strax farin að hlakka til að lesa þriðju bókina hennar, The Road Trip.