„Ég er komin til að játa syndir mínar,“ sagði ég við starfsmann Borgarbókasafnins í Grófinni, þegar ég mætti með fullan poka af bókum sem ég hefði átt að skila í febrúar. „Hvaða hvaða,“ svaraði hún hlæjandi. „Líttu bara á þetta sem framlag til uppihalds á bókasafninu.“

Ég kunni ómögulega við að fylgja samtalinu eftir með því að segja henni að þá mætti líklega líta á mig sem sérlegan bókasafnsvin, en árlega greiði ég meira í bókasafnssektir heldur en ég kæri mig um að viðurkenna. Bókasafnsvinur er líka full djúpt í árina tekið. Bókasafnsskussi væri réttnefni.

Margar af mínum fyrstu minningum eru frá bóksafninu sem starfrækt var í Esjubergi við Þingholtsstræti. Húsið sjálft er auðvitað stórglæsilegt og sem bókasafn var það töfrum slungið í augum barns á leikskólaaldri. Mér fannst mest spennandi þegar bækurnar voru stimplaðar út og á einhverjum tímapunkti ákvað ég að ég skyldi vinna við að lána fólki bækur þegar ég yrði fullorðin (sem ég á reyndar ennþá eftir að prófa, og gæti verið að gera úti um með þessum pistli). Ég ber með öðrum orðum mjög mikla virðingu fyrir bókasöfnum og það er því sannarlega með skottið á milli lappanna sem ég mæti í mína ársfjórðungslegu (lesist; hálfsárslegu) uppgjörsheimsókn á bókasafnið.

Nú myndir þú, lesandi góður, eflaust ætla að ég myndi læra af reynslunni og hreinlega sleppa því að fá lánaðar bækur á bókasafninu. En hvar væri fúttið í lífinu ef allir myndu alltaf taka skynsamlegar ákvarðanir? Og hver getur staðist það að ganga inn í rými fullt af bókum og labba ekki út með eina einustu þeirra? Það væri eins og að ganga inn í bókabúð án þess að versla bók. Eða ísbúð og fá sér ekki ís. Óhugsandi!

Nei, auðvitað finn ég mér alltaf nokkrar bækur til að taka að láni. Svo raða ég þeim í pokann minn, klappa þeim aðeins á leiðinni heim, stilli þeim upp á náttborðinu þegar heim er komið, því auðvitað ætla ég alltaf að lesa þær, og þaðan horfa þær á mig koma með fleiri nýjar bækur heim, sem ég stilli upp á náttborðinu, þaðan sem þær horfa á mig koma með fleiri nýjar bækur he…

Ég held að ég sé byrjuð að skilja hvar vandamálið liggur.

 

Engar bókasafnsbækur báru skaða af gerð þessa pistils. Fjárans augun eru með svo litlu lími á að það er vesen að fá þau yfirhöfuð til að tolla.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...