Að hafa gaman af deginum

Að hafa gaman af deginum

Samtal við Valdimar Tómasson ljóðskáld um skáldskap og galsagang

„Mér finnst samtíminn hégómafullur, neysluglaður og oft á tíðum holur hljómur í því sem verið er að draga heim. Nægjusemi er ekkert mikið að plaga okkur. Ég átti góða samleið með kynslóðinni sem fæddist á fyrstu áratugum síðustu aldar og nú er það fólk gengið. Ég sakna þessa fólks, tungutaksins og samtalsins.“

Ég er staddur í miðbæ Reykjavíkur ásamt ljóðskáldinu Valdimar Tómassyni. Við erum báðir komnir á miðjan aldur og því ekki á öðru von en samtal okkar dvelji að verulegu leyti við fortíðina. Hvorugur hefur séð ástæðu til að gangast með öllu undir dynti tíðarandans. En það er Valdimar sem hefur orðið, og það er hann sem lætur þess getið að hann sakni gömlu mannanna sem hann kynntist á sínum yngri árum skömmu eftir að hann flutti í bæinn. „Svokölluð unglingamenning gekk ekki greiðlega niður í kokið á mér. Ég fékk greiningu hjá fagmanni að það mætti bæta 60 árum við lífaldur minn. Að ég væri þar í sálinni settur.“

Valdimar hefur verið fastur liður í miðbæ Reykjavíkur í um 35 ár. Það líður varla sá dagur að ekki megi sjá hann ganga um götur og torg. Við höfum orð á því að margt hafi breyst á þeim árum. „Ég sakna þess mest að miðbærinn var meiri samkomustaður Íslendinga. Maður hitti oft góðan sérvitring og settist yfir kaffibolla. Núna finnst mér ég geta eigrað um miðbæinn hálfu og heilu dagana án þess að hitta nokkurn. Hins vegar er öll þjónusta orðin fjölbreyttari, eins og í mat. Það eru mörg íveruhólf ef menn vilja. En svo verður maður eldri og það eru aðrar kynslóðir sem taka þetta yfir.“

Gömlu mennirnir hans Valdimars eru horfnir á braut og mannlífið hefur í síauknum mæli einkennst af erlendum ferðamönnum. Raunar hafði götulífið dofnað hægt og bítandi undir lok síðustu aldar eftir því sem úthverfin stækkuðu og verslun fluttist æ meir í verslunarhallir utan miðbæjarins. Það varð sífellt fátíðara að fastagesti götunnar bæri fyrir augu.

Sveimhuga æska

En hvaðan er hann þessi maður sem átti svo gott skap með eldri sérvitringum og spekingum? Mér lék forvitni á að vita úr hvaða jarðvegi hann kæmi og hvað hann hafi haft í farteskinu við komu sína til höfuðstaðarins. „Ég er úr Mýrdal og er kominn af fjósakörlum og fjárhúsaliði aftur í aldir. Meðal annars af Jóni Steingrímssyni eldklerki. Faðir minn var búandi á Litlu-Heiði alla sína æfi en þá jörð keyptu afi minn og amma.“ Það kom snemma í ljós að Valdimar ætlaði sér ekki að ganga í störf forfeðranna. Hann er skjótur til svars þegar spurt er hvernig sveitatilveran hafi verið. „Hrein helvítis hörmung. Ég var lítill búmaður og var aldrei nýtanlegur til nokkurra verka. Þannig að ég var þarna eins og guðs volaður vesalingur, starandi út í loftið fölur og táplítill meðan ættingjar mínir voru hugdjarfar hetjur sem unnu ærið dagsverk. Þeir hlupu um fjöll eftir rollum en eina sem mér var lagið var að féð var spakt við mig og ég þótti góður við sauðburðarhjálp. Ég var kallaður kindahvíslarinn af sveitungum mínum nokkrum. Þær hreyfðu lítið við sér þegar ég kom að dyrum svo ég varð að klofa yfir þær til að komast inn í húsin. Svo stakk einhver annar inn hausnum og þá voru allar kindur komnar á löppina.“

Valdimar var dreyminn og undir sér best úti í náttúrunni. Þangað flúði hann undan einhæfu sveitalífi sem einkenndist einkum af verklegri vinnu og umræðu um vinnubrögð. Upp til fjalla fann hann til seiðandi kennda sem hófu tilvistina upp úr hversdagsleikanum. Slíkar upplifanir eru vitaskuld skáldskapur út af fyrir sig. En hvað með orðsins list? „Það var ekki mikið um hagmælsku en menn sögðu sögur og það var vitnað í þessar klassísku þjóðsögur mikið. Svo sögðu menn alls kyns sögur af hrakningum og brimlendingum og barningi. Og sem krakki og unglingur stalst ég jafnan til Þórðar í Skógum og spurði hann spjörunum úr. Ég hékk mjög mikið á safninu hjá honum og ég las þjóðleg fræði, sagnir og þjóðfræði ýmis konar.“

Gamla fólkið og þeir sem kunnu skil á fornum fræðum urðu Valdimar snemma sá félagsskapur sem best dugði. En hvenær komst hann fyrst í kynni við ljóðlistina? „Ég var svo sem alinn upp við hana. Það var vitnað í stef og amma mín, Margrét Tómasdóttir, var mjög ljóðelsk manneskja. Hún átti örfá söfn en svo hafði fólk aðgang að þessu í gömlum blöðum og tímaritum sem þá voru horfin úr umferð, bara komin í hringrásina eilífu. En ekki ljóðasöfn í miklu magni.“ Allt var þetta meira og minna eldri kveðskapur þar sem orðið var reyrt í ljóðstafi og rím enda þótti annað tæpast skáldskapur. Valdimar átti snemma gott með að læra ljóð utanbókar en í þeim efnum reyndust Skólaljóðin drýgst. Annars var hann ekki mikill lestrarhestur á æskuárum enda var hugur hans meira og minna á sveimi á þeim árum.

Sérviskulíf

Valdimar yfirgaf sveitina að skyldunámi loknu þar sem hann hugðist verða sér úti um vinnu. „Ég var fljótlega ráðinn í pylsusölu hjá Ásgeiri pylsusala og þegar hann seldi vagninn þá fylgdi ég með í kaupunum. Ég var bara ráðinn í lúgunni. Gripinn inn á vaktina. Ásgeir var í vandræðum með mann þá nótt og ég var að labba þarna um á föstudagskvöldi og hann býður mér þessa vinnu. Ég skellti mér í SS bolinn og fer að möndla við sinnepið. Þetta byrjaði sem helgarvinna en svo varð þetta fastavinna alla daga. Þarna var ég viðloðandi í um áratug, en með hléum.“

Í bænum komst Valdimar í samneyti við fólk sem hann átti samleið með. „Kynbætur á sauðfé og rekstur á fjalli“ voru orðræða sem hann hafði aldrei fundið sig í. Nú sá hann fram á að geta sinnt sinni sérvisku í friði. „Minn selskapur voru hin og þessi fiðrildin í 101. Svo hitti maður líka svolítið af samtíðarlistamönnum, skáldum og sérvitringum. Og mikið náttúrulega af bókabéusum og furðufuglum sem héngu á fornbókasölunum. Þær voru hælið, vinin í eyðimörkinni. Stundum var maður þar hálfan daginn ef maður átti frídag.“ Á þessum árum voru fornbókabúðirnar mun fleiri en í dag og Valdimar var fljótur að kynnast þeim sem þar réðu ríkjum. Andinn var með sérstökum blæ, það var sem tíminn stæði í stað á þeim slóðum. Vettvangur fornbókarinnar var heimur út af fyrir sig. „Á Laufásvegi 4 var gamall maður sem hét Ingvar og hjá honum var margt hægt að fá á góðu verði. Bókin á Laugavegi 1 og svo var Bragi Kristjónsson í Hafnarstræti en ég varð seinna hjá honum í stundavinnu. Á Amtmannsstíg 2 var opið um helgar og svo var ein inn á Langholtsvegi 3. Þetta voru nokkrar sjoppur. Og svo voru Klausturshólar sem Guðmundur Axelsson rak, þeir voru þá á Laugavegi 6. Hann var aðallega að höndla með myndlist en var einnig með bækur. Við þessir béusar mættust þarna og voru meira og minna í góðum vinskap og þó stundum væri keppt um sömu skræðuna þá gengu menn nú alltaf dús frá því. Og þeir hjálpuðu oft hver öðrum ef þeir gátu orðið innan handar, það var þannig andi. Svo var með þessa karla alla sem maður flökti á milli og orðinn fastagestur hjá að þeir vissu hvað maður vildi og voru rausnarlegir við mann. Þeir voru allir góðir heim að sækja. Oft bjó sú þráhyggja að baki að ég vildi fá vissa bók og það var hlaupið á milli staða til að leita að henni. Þá var oft hringt manna á milli og oft gerður góður díll ef samböndin voru góð. Þetta var afskaplega skemmtileg ívera.“

Bókabéusinn

Þó Valdimar hafi verið þeirri stundu fegnastur þegar hann yfirgaf sveitinni lifði hún góðu lífi í huga hans. Fyrst í stað var hann einkum á höttunum eftir þjóðlegum fróðleik, ekki hvað síst því sem tengdist Suðurlandi og þá ekki hvað síst því umhverfi sem hann þekkti af eigin raun. Ekki leið þó að löngu þar til hann fór að kynna sér ljóðasöfn gömlu meistaranna þar sem rími og stuðlum var haldið til haga. „Þetta var góður tími að því leyti að það var hægt að fá fyrirtaks lesefni fyrir lítið. Eins og með bókamarkaðina sem Bragi hélt á loftinu, þaðan fór maður með heilu kassana af hlutum sem manni fannst algjör djásn fyrir dagskaupið sitt. Þetta voru mjög gjöfulir tímar í aðföngum.“

Með tímanum komst Valdimar á þá skoðun að ekki dygði að einskorða sig við forna hefð. Hugkvæmni módernísku skáldanna opnaði honum nýjan heim. Rit þeirra reyndust ekki auðfundin á þessum árum. „Þegar ég fór að lesa módernísku skáldin vildi ég eiga frumútgáfurnar og sá eltingarleikur var oft langur og fyrirhafnarsamur. Fyrsta móderníska ljóðabókin sem ég kaupi er Skrifað í vindinn eftir Jón Óskar. Síðan lendi ég inn á bókamarkaði hjá Helgafelli það sama haust og þá liggur þar í haugum góðmeti eins og bækur Hannesar Péturssonar – Stund og staðir, Innlönd og Rímblöð á 200 krónur stykkið. Ég verð mjög fljótt hrifinn af hans kveðskap og les hann alveg í þrot og Þorstein frá Hamri.  Og ég dreg þetta að mér í sekkjum og á fornbókasölum og háma þetta í mig eins og hungraður úlfur.“

Bókasöfnun getur verið kostnaðarsöm, einkum þegar frumútgáfur eiga í hlut. Ætli það hafi ekki oft verið strembið að nurla saman nægum fjármunum þegar pyngjan var létt? „Jú það var oft hálfgerð hungurvaka, en ég átti auðvelt með það. Mér þótti gott að offra einum matardiski fyrir góða bók. Það var ekki sárt. Maður gat jafnvel verið fastandi í tvo daga vandræðalaust, fann ekki fyrir hungurverkjum.“ Mesta glíman var að hafa upp á bókum Steins Steinarrs enda lagði Valdimar áherslu á að gripirnir litu vel út. Honum lánaðist smám saman að hafa upp á höfundarverkinum í heild sinni. Það fór svo að lokum að hann náði nánast að safna öllum þeim bókum sem hann ásældist.

Skáldakynni

Þess var skammt að bíða eftir að í bæinn kom að Valdimar kæmist í kynni við mörg af höfuðskáldum þjóðarinnar enda urðu þau víða á vegi hans. „Þau kynni hófust í Austurstrætinu þegar ég var í pylsuvagninum. Mér þótti afskaplega gaman að standa við pottinn og sjá mannlífið. Ég tala nú ekki um þegar höfðuskáld gengu um Austurstrætið. Þeir flugu þarna um Þorgeir Þorgeirson, Þorsteinn frá Hamri, Vilborg Dagbjartsdóttir, Jón Óskar og Einar Bragi. Á góðum dögum voru kannski nokkur skáld sem maður sá. Svo hugaðist maður kannski til, ef maður var með bókina þeirra í skjóðunni til að lesa á vaktinni, að hlaupa og biðja um áritun og því var yfirleitt vel tekið. Það var líka að menn komu svona í heimsókn á rólegum stundum til að spjalla. Ég nefni Jón Óskar sem gekk þarna um. Maður skalf aðeins í hnjánum og svo afréð ég það að taka með mér bækurnar og biðja hann um að árita einn daginn þegar rólegt var í vagninum. Hann gerði það fúslega. Svo bauð hann mér heim fljótlega eftir það og við urðum bestu vinir. Fornbókabúðin bauð upp á mörg kynni. Einar Bragi mjög títt í heimsókn þegar ég var þar við afgreiðslu. Svo var Sigfús Daðason oft að fiðrildast um miðbæinn og Þorsteinn frá Hamri kom mikið í Bókina og síðan til Braga, þeir voru náttúrulega gamlir mátar. Svona kynntist ég þeim. Og ég var líka oft að útvega fólki bækur og þá fékk maður oft góðan kaffibolla og heimspekispjall. Maður dvaldist þá oft við því við töluðum sama tungumál.“

Ekki má heldur gleyma listamannaakademíunni sem hélt til á Hressó en svo vel vildi til að pylsuvagninn stóð andspænis kaffihúsinu. Valdimar var því fljótur að taka eftir þeim spekingum sem þar sátu við borð. „Svo gerist það að ég er að ganga með vatnskútinn til að fá áfyllingu á Hressó. Þá er kallað í mig og ég er beðinn um að koma að borðinu. Þá þurfti að leita upplýsinga varðandi gamlar bækur, hvenær þær hefðu komið út. Þá var tæplega tvítugur unglingurinn fenginn til að segja þeim til um útgáfuár hinna og þessara bóka. Svo verður það að áður en ég opna vagninn á meðan ég er að fíra upp í undir pottinum þá fer ég að setjast þarna hjá þeim og þeir buðu mér inn í akademíuna. Þarna voru Gunnar Dal, Agnar Þórðarson, Þorgeir Þorgeirsson, Atli Heimir Sveinsson, Jón Ásgeirsson og fleiri svona lausagestir en þessir sátu hvað fastast. Og ég var oft notaður sem uppflettirit og fenginn til að leysa deilumál um útgáfuár, upplagstölur og annað. Þannig varð ég fastagestur við borðið. Síðar færðist borðhaldið yfir á Café París. Ég hafði þá reynslu af þessu fólki að þetta væru upp til hópa mjög vandaðir menn. Mjög íhyglir og vandvirkir. Það var oft mjög sterk persóna þarna á bak við og ekki hægt að greina frá því á neinn auðveldan hátt. Og svo var gott að fletta upp í þeim ef maður var einhver staðar í blindgötu.“

Ljóðskáldið

Valdimar varð sér snemma úti um skáldskaparfræði því hann vildi kunna skil á bragfræði og háttum ljóðlistarinnar. Um tíma hafði hann mjög gaman af að slengja fram tækifærisvísum. Laugardagskvöldin voru ljóðastundir en þá sat hann fundi í kvæðamannafélaginu Iðunni þar sem menn kváðust á. En oft urðu ljóðin fyrst til í pylsuvagninum þar sem þau höfnuðu á pylsubréfi. Það var svo undir hælinn lagt hvort þau ættu framhaldslíf fyrir höndum því Valdimar lagði lengi vel ekki mikið upp úr því að halda ljóðunum til haga. Það er ekki nema rétt liðlega áratugur síðan hann fór að halda betur utan um þau.

Fyrsta ljóðabókin kom ekki út fyrr en árið 2007 en Valdimar var þá 36 ára. „Margt af því efni var búið að liggja lengi í skúffunni. Elsta ljóðið orti ég 17 ára. Það var eiginlega Þorsteinn frá Hamri sem ritstýrði þeirri bók. Hann hjálpaði mér að sortéra og ganga frá handritinu. Ég safnaði saman haug af bókum og bleðlum og fór með til Þorsteins. Svo vélritaði ég þetta á ritvélina sem ég sat á vaktinni hjá Braga bóksala og klára þessa uppskrift og fer með til Þorsteins. Hann sortéraði í þrjá dálka og segir mér að þarna fremst telji hann vera fullort ljóð, í miðjunni eru hlutir sem ég þarf að vinna lengra og neðst séu góðar hugmyndir sem megi gera eitthvað úr. Síðan tek ég fremstu ljóðin ásamt fleirum og vinn í nokkra mánuði að handriti og enda með því að koma með það til hans aftur. Ég bar þetta einnig undir Sigurð A. Magnússon og þeir voru raunar fleiri sem litu yfir efnið en ekki eins skipulega og Þorsteinn og Sigurður. Svo fór ég með handritið í forlag.“

Það er óhætt að segja að með fyrstu bókinni, Enn sefur vatnið, hafi gamall draumur ræst. Nokkrum árum áður hafði Valdimar fengið birta sonnettu í Tímariti Máls og menningar en annars hafði lítið farið fyrir ljóðum hans. Nú eru ljóðabækurnar orðnar fimm, auk ljóðasafnsins sem út kom árið 2018. Fyrsta ljóðabókin seldist mest á knæpum og veitingastöðum þar sem Valdimar gekk um og auglýsti bók sína en sú aðferð hefur oft orðið skáldum drjúg leið til að koma ritum sínum á framfæri. Sonnettugeigur, sem út kom árið 2013, fékk hins vegar góða bókabúðasölu enda vakti hún töluverða athygli. Eftir það hafa ljóðabækur Valdimars komið örar út. Dvalið við dauðalindir kom á markað árið 2018 og Vetrarlandið árið eftir. Síðasta ljóðabókin, Veirufangar og veraldarharmur, varð umtöluð um leið og hún kom út árið 2020 enda skírskotaði hún sérstaklega til ríkjandi ástands, þ.e. pestarfaraldursins sem umturnað hefur samfélaginu síðustu misseri.

Síðasta ljóðabókin hefur nokkra sérstöðu þar sem hún er viðbragð við sérstæðum aðstæðum meðan fyrri bækur skáldsins eru tímalausari eins og algengt er með ljóðabækur. Mér lék forvitni á að vita hvernig hún varð til. „Maður varð að atast eitthvað með þetta sóttarástand. Umræðan í kringum það var svo leiðinleg að ég varð að leika mér með það. Fyrst duttu stefin niður í hausinn á mér og svo fór ég að vinna markvisst með þetta. Ég orti þennan „Veirufangabálk“ með vísun í Áfanga Jóns Helgasonar. „Veraldarharmurinn“ var búinn að vera lengur í kompunni. Það er meira almennt heimsósómakvæði eins og Skáld-Sveinn og miðaldaskáldin ortu að allt væri að fara lóðbeint til helvítis, að samtíðin sé spillt og úrkynjuð. Það virðist kannski nöldurtónn í þessu en þetta er sett upp sem satíra. Heimsósóminn er nú þekkt form í gegnum tíðina þar sem menn eru að nöldra út af nútíðinni. Og nóg er gert af því á útvarpsstöðvum og opinberlega og ég er kannski að setja í bundið mál nöldurhyggjuna og Tuðbjörgu og Tuðberg. Frekar en þetta séu mínar eindregnu skoðanir eða hjartans mál.“

Valdimar lítur á pestarkveðskapinn sem tækifærisljóð sem séu sett fram í „spjátrungshætti til að kalla aðeins út í þessa grímuklæddu tilveru sem við vorum komin í.“ Sú bók kom út með hraði til að bregðast við tímabundnu ástandi. Yfirleitt verða ljóð hans til á lengri tíma, en hvernig verða þau til? „Það er svo misjafnt. Stundum eru þetta einhver stef og hugsun sem leitar á mig og lætur mig ekki í friði. Ég skýt niður einhverjum hendingum og síðan lík ég við það í rólegheitunum. Og svo liggur það kannski í salti og vinnst áfram.“ Ljóð Valdimars eru yfirleitt alvarlegs eðlis. Þau eru tilvistarglíma um líf og dauða þar sem hann tekst á við heiminn. Hann segist eiga mörg ljóð í handraðanum sem séu ekki fullunnin. „Ég er með þrjú handrit sem eru búin að vera mislengi hjá mér, frá 20 árum upp í tvö ár á teikniborðinu. Þau eru mislangt komin. Eitt er nú eiginlega fullunnið og ég býst við að setja það í prent á næsta ári. Það samanstendur af stökum ljóðum en keimurinn er sá sami. Það er þessi tilvistarglíma okkar og það að vera maður í heiminum.“

Það getur verið dýrt ljóðsins orð en skáldið sjálft á það til að vera glettið og gamansamt. Vegfarandi sem gengur um miðbæinn má alltaf eiga von á að sjá  Valdimar bregða fyrir því þar er hans samastaður sem fyrrum. Hann er kannski alvarlegur á svip þar sem hann stikar áfram og má þá búast við að hendingar og stef séu að gerjast í huga hans. En svipurinn verður iðulega hýrlegur þegar kastað er á hann kveðju. Eða eins og hann segir sjálfur. „Ég er ekki endilega svo alvarlegur. En í ljóðunum er ég að takast á við tilveruna, þessar stærri glímur. En svona dags daglega er maður með hanalæti og galsagang og reynir að hafa gaman af deginum.“

[hr gap=“30″]

Leifur Reynisson, höfundur viðtalsins, er kennari og sjálfstætt starfandi fræðimaður. Hann hefur jöfnum höndum skrifað bækur og greinar, einkum um söguleg og menningarleg efni. Þá hefur hann gert nokkra útvarpsþætti fyrir Rás 1. Jafnframt hefur hann skipulagt viðburði og haldið erindi fræðilegs eðlis. Þá hefur Leifur gert stutta heimildamynd um Valdimar sem nefnist „Götuskáldið“.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...