„Olía og vatn eru ósamrýmanleg efni“

 

Olía er einstaklega spennandi verk sem er nýkomið út hjá Máli og menningu. Höfundar skáldsögunnar eru sex, þær Þórdís Helgadóttir, Þóra Hjörleifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Melkorka Ólafsdóttir og Fríða Ísberg. Saman kalla þær sig Svikaskáld og hafa áður gefið út þrjú ljóðverk. Allar sex hafa gert sér gott orð í íslensku menningarlífi með skáldsögum, ljóðabókum, smásagnasöfnum og fjölbreyttri listsköpun. Ein þeirra, Þóra Hjörleifsdóttir, var nýlega í fjölmiðlum vegna þess að sjálf Oprah Winfrey mældi með ensku þýðingu skáldsögunnar Kviku, sem á ensku fékk heitið Magma. Þannig afrek þessa kollektívs eru ekkert slor og mætti lengi telja.

Sex konur, sex heimar

Olía segir frá sex konum sem hafa hver sína einstöku rödd, enda skrifa höfundarnir hver sinn kafla. Konurnar tengjast innbyrðis, sumar blóðböndum, aðrar minna. Við lesturinn var alltaf spennandi að komast að því hvernig næsta kona tengdist þeirri fyrri, en persónurnar bregða fyrir í kafla annarra persóna. Þetta form hef ég ekki séð oft áður en Bernadine Evaristo beitir svipaðri uppbyggingu í skáldsögu sinni Girl, Woman, Other sem er nýbúið að þýða á íslensku.

Konurnar sex eru á mismunandi aldri, sú elsta komin á eftirlaunaaldur en sú yngsta aðeins rétt skriðin yfir tvítugt. Allar eru þær breyskar og á einhverskonar tímamótum í lífinu. Hver kafli hefur algjörlega sinn blæ og skilur lesandann eftir hæfilega forvitinn um að vita meira um persónuna áður en sjónarhornið breytist.

Hamfarahlýnun, feðraveldið og fyrirgefningin

Gaman er að skoða stíl hvers höfundar í hverjum kafla og lífið sem þær blása í hverja persónu á mismunandi hátt. Þóra Hjörleifsdóttir skrifar Mæju sem er í uppreisn gegn feðraveldinu og bendir á ósanngirni þess að vera kona í samfélagi sem feðraveldið hefur mótað og beitir sínum tólum til að kúga kvenfólk. Kaflinn er kómískur, hæðinn og skemmtilega skrifaður en hún endar í skondni útlandaferð og lendir jafnvel í einhverju sem má kalla ástarævintýri. Kaflar Sunnu Dísar og Ragnheiðar Hörpu eru fágaðir og skrifa þær báðar um eldri konur, Gerði og Kristínu. Gerður er mjög áhugaverð persóna, hún er ekki öll sem hún er séð og er lesandinn allan kaflann að komast að því hvað hefur komið henni í uppnámi. Kristín er myndlistarkona og náttúruverndarsinni sem býr úti á landi en heldur í bæinn til að finna leið til að fyrirgefa gömul ósætti. Melkorka Ólafsdóttir skrifa kafla Rannveigar, eldri konu sem virðist hafa misst allan neista og lífsvilja. Sá kafli sker sig út með fallegri og óræðri ljóðrænu þar sem ljóðlínum er meira að segja skeytt inn í prósann til að undirstrika andlegt ástand Rannveigar.

Eitt stærsta þema bókarinnar er hamfarahlýnun, hræðilegar afleiðingar loftslagsbreytinga á komandi kynslóðir, en velt er upp þeirri spurningu um hvað mun verða um heiminn vegna þessa yfirvofandi hamfara. Hin unga og metnaðarfulla Snæsól, skrifuð af Fríðu Ísberg, vill leggja sitt af mörkum til að bjarga heiminum og reynir því að sannfæra fjárfestinn Lindu P. um að fjárfesta í fyrirtækjum sem vinna að umhverfisvænum lausnum. Linda P., skrifuð af Þórdísi Helgadóttur, fannst mér merkilegasta persóna bókarinnar og hefði ég viljað lesa heila skáldsögu um hana og hennar líf. Hún er áhrifamikil kona og móðir, ættleidd af íslenskri stórstjörnu, og á sér frekar óvenjulega og jafnvel óhugnanlega fjölskyldusögu. Ég vil ekki uppljóstra um of hvernig þessar konur tengjast en það er eitt af því ánægjulega við að lesa bókina, að komast að því hvernig þær tengjast og taka eftir hverju einasta smáatriði í umhverfinu.

 

Olía er merkilegasta bókin sem ég hef lesið í þessu flóði hingað til. Hver kafli var ferskur andblær og hafði fram að færa eitthvað nýtt. Verkið velti upp hugleiðingum um framtíð heimsins, varpaði ljósi á stöðu kvenna á Íslandi og ögraði lesandanum hæfilega með mismunandi stílum og persónum sem allar voru skrifaðar af dýpt og næmni. Eins og ég segi hér fyrir ofan hefði ég jafnvel viljað heila skáldsögu um eina persónuna en bókin skilur lesandann eftir spenntan yfir framtíðar skáldsögum Svikaskálda.

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...