Umframframleiðsla er fyrsta ljóðabók Tómasar Ævars Ólafssonar. Hann er heimspekingur, dagskrágerðarmaður hjá Rás 1 og nánast útskrifaður með meistaragráðu í ritlist frá Háskóla Íslands.
Í aðfararorðum ljóðabókarinnar er sagt frá lækninum Duncan MacDougall sem greinir frá því að þyngdarbreyting á sér stað í mannslíkamanum er manneskja deyr og „dró […] þá ályktun að sál mannsins hlyti að vera efnisleg og vega nákvæmlega tuttugu og eitt gramm.“ (bls. 7) Aðfararorðin eru undarleg og eilítið dularfull en Tómas heldur áfram að vinna með þessar upplýsingar sem stef í gegnum bókina. Sálina, vigt hennar, efni og óefni sálarinnar.
Götótt dula
Því er ekki að undra að fyrsta ljóðið í fyrsta kaflanum „göt“ fjallar um hana sem „er sálfræðingur / eða sálgreinir / eða þerapisti / eða geðlæknir“ og skjólstæðing hennar sem „spinnur vefinn / rekur þræðina úr kokinu“ (bls. 11) Vefinn má túlka sem orðin, minningarnar sem nú á að sálgreina. En vefnaðurinn „er ekki upp á marga fiska / hvorki skipulagðar lykkjur / né þéttofin heild / heldur götótt dula“ (bls. 11). Eitthvað er á skjön, eitthvað er ósagt og vantar upp á.
Sálfræðingurinn hefur krufningu á sögu manneskjunnar, minningunum, vefnaðinum: „hún fikrar sig nær götunum í vefnum // hún vill fylla upp í þau / líkt og tannlæknir fyllir í holur / en fyrst þarf hún að þétta þræðina í kring // og það er sárt“ (bls. 13) Ljóðið flæðir þægilega, leit sálgreinandans vindur upp á sig fallega þar sem lesandinn sér hana nánast sem rannsakanda, spæjara í huga manneskjunnar sem „fálmar eftir / óefni“ (bls. 14)
Kámuga óefnið
Í þriðja hluta bókarinnar, „möskvi“ á sér stað endurtekning, nú er rætt við hana sem „er ekki sálfræðingur, ekki sálgreinir“ (bls. 23) og þar fram eftir götunum, hún er kona á íslensk-bandarískum bar. Þar eiga sér stað frekar heimspekilegar samræður hún segir hann vera „brotamynd […] vítaruna eftirmynda sem finna má / á víð og dreif um heimsbyggðina“ (bls. 24) Hann veit að „undir göngunum / titrar lífið […] / ekkert gláfægt sjálf / ekkert kjarnað ég / heldur kámugt óefni // varurð / eintók og óhlaðin // til / finning“ (bls. 26) Hann virðist ókyrrast við að tala við hana, hugur hans er fastur við til / finninguna.
Í enn öðrum kafla sem ber einnig heitið „göt“ verður á vegi ljóðmælanda „sálfræðingur / og sálgreinir / og þerapisti / og geðlæknir“ sem virðist ætla að taka til hendinni og lækna þetta óefni: „jæja! nú getum við komið reglu á þennan vefnað / þennan dúk / þessa dulu / […] þéttofið sjálf er hagnýtt sjálf“ (bls. 43). Hún kemur með lausnir og aðferðir til að komast af.
„aukaverkanir óþekktar“
Í kaflanum „hnútar“ ræðir ljóðmælandi við enn eina konuna, nágrannakonu og trúnaðarvin: „hlustunin er raunveruleg / en ráðin sem hún gefur / alltaf fjarstæð“ (bls. 57) Hann fær hana til að skoða óefnið og hún segir „kvíðinn er neysluvara / eins og allt annað / segir hún / kámugur og klístraður / brýtur hann sér leið inn í kjarnann / eins og veira // undan honum streyma áhyggjur / á færibandi“ (bls. 59) Þessi lýsing finnst mér einkar skemmtileg og sönn, eins og svo margar lýsingar í þessari ljóðabók. Nágrannakonan gerir lítið gagn, kemur ljóðmælanda í uppnám en býr svo um hann í stofunni.
Í síðasta kafla bókarinnar sem heitir enn og aftur „göt“ er ljóðmælandi kominn til geðlæknis sem leggur fyrir hann krossaprófið sem allir þurfa að svara, sé grunur um þunglyndi. Tómas leikur sér með spurningar prófsins, m.a. „ég tel áhyggjur þekja minn innsta kjarna“ og svo á ljóðmælandi að velja „mjög sammála, frekar sammála, hvorki ósammála né sammála…“ (bls. 74) þið þekkið þetta. En ljóðabálkurinn endar (höskuldarviðvörun!) á prýðilegri ádeilu á þetta kerfi: „hún skráir svörin í töflureikni […] / þú stenst prófið / hún skrifar upp á það sem gengur af // fyllingu / sem stoppar í göt // efnislegt tóm // frumefni / gegn óefni // tuttugu og eitt gramm / einu sinni á dag // aukaverkanir óþekktar“ (bls. 75).
umframframleiðsla er merkileg ljóðabók um málefni sálarinnar, andleg veikindi og erfiðleika, og hvernig ljóðmælandi leitar eftir svörum, lækningu jafnvel. Hjálpina er í raun hvergi að finna þó að hann leiti vítt, til mismunandi kvenna úr mismunandi áttum, sem eru mishjálpsamar. Ég hafði mjög gaman af þessari bók, það er auðvelt að týna sér í fallegum ljóðlínum og heimspekilegum vangaveltum sem leynast í ljóðunum sem eru kímin, lúmsk og íhugul.