Hvað borða tröllin?

Tröllamatur er fyrsta barnabók Berglindar Sigursveinsdóttur, myndlistakonu og kemur út hjá bókaútgáfunni Unga ástin mín. Bókin er lokaverkefni hennar af teiknibraut við Myndlistaskólann í Reykjavík. Það gleður mig að sjá að Berglind stefnir á frekara nám í barnabókateiknningu.

Í Tröllamat er saga af trölli sem finnur mannabarn í svanginn. Texti bókarinnar er allur sagður frá sjónarhorni tröllsins en í gegnum myndirnar er hægt að sjá sögu barnsins (og lambanna).

Myndir og texti segja sitthvora söguna

Ég féll strax fyrir bókinni. Það var eitthvað við teikningarnar og söguna í heild sem mér fannst hreinlega frábært. Saga barnsins er sögð algjörlega með myndunum, tröllið er skemmtilega kómískt og stundum veit maður ekki hvort samúðin eigi að vera með tröllinu, sem fær ekki að borða, eða með barninu, sem er næstum étið. Þetta er í raun hrylllingssaga! Börn hræðast tröll og það er hrikalegt að vera rænt af trölli og þurfa að berjast fyrir lífi sínu með klækjum og útsjónarsemi, eins og barnið gerir í bókinni. En á sama tíma vorkennir maður tröllinu sem hefur röddina í bókinni. Það grætur meira að segja!

Ég las söguna með fjögurra ára syni mínum, sem sér tröll í öllum fjöllum sem við förum framhjá. Hann veit allt um tröll. Þessi bók hitti því beint í mark hjá honum. Hann greip fyrir munninn af spennu þegar hann sá barnið gabba tröllið, hló (því hann hefur enga samúð með tröllum) þegar tröllið breyttist í stein og var létt að sjá að stutt var fyrir barnið að fara heim.

Íslensku blómin

Myndirnar í bókinni eru hlýjar og ævintýralegar. Ég velti fyrir mér hvort ekki hefði verið skemmtilegra að setja íslensk blóm í hlíðar fjallsins sem tröllið býr í. Blómin á myndunum minna um margt á túlípana, sem vaxa ekki nema við heimili mannfólks. Ég hefði viljað sjá sóleyjar, umfeðminga og geldingahnappa í hlíðunum við tröllahellinn.

Tröllamatur er bráðskemmtileg bók um tröll sem tapar. Sagan er tvíþætt og rödd barnsins fær að njóta sín í myndum bókarinnar. Bókin er tilvalin fyrir börn á aldrinum 2-6 ára. Ég hlakka til að sjá hvað Berglind býður upp á í framtíðinni.

Lestu þetta næst

Júlían er fullkominn

Júlían er fullkominn

Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til...

Gratíana fullorðnast

Gratíana fullorðnast

Benný Sif Ísleifsdóttir stimplaði sig rækilega inn á rithöfundasenuna á Íslandi við útgáfu fyrstu...

Héragerði yfir páskana

Héragerði yfir páskana

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er líklega best þekkt fyrir bráðfyndnar og beint-í-mark myndasögur. Til...

Systkinin í Rumpuskógi

Systkinin í Rumpuskógi

Systkinin Teddi og Nanna eru ákaflega samheldin refasystkin og búa saman í Stóru borg, þar sem öll...

Edinborg í aðalhlutverki

Edinborg í aðalhlutverki

Nú er farið að líða að aðventunni og því tilvalið að taka því rólega, búa sér til heitt súkkulaði...