Ég greip með mér bókastafla í bústaðinn, eins og ég geri nú vanalega. Ég var byrjuð á einni en ákvað að lesa fyrstu blaðsíðurnar í smárri bók, bara aðeins að forvitnast. Það endaði ekki betur en svo að ég kláraði bókina fyrir svefninn. Þetta var bókin Konan hans Sverris eftir nýjan höfund, Valgerði Ólafsdóttur sálfræðing og kennara, sem kemur út hjá Benedikt bókaútgáfu.

Bókin fjallar um Hildi, konuna hans Sverris og Sverri, manninn hennar Hildar. Það þarf ekki að tala undir rós um það að Sverrir beitir Hildi andlegu, og stundum líkamlegu, ofbeldi innan heimilisins. Bókin er uppgjör Hildar á þeirra stormasama sambandi og hjónabandi en hún var aðeins 17 ára þegar þau kynntust fyrst en hún slapp ekki frá honum fyrr en um fertugt. Saman eiga þau tvo drengi, Sölva og Matta, sem horfa upp á föður sinn koma illa fram við móður þeirra og alast upp í erfiðum heimilisaðstæðum þar sem móðirin er stöðugt hrædd.

Alkóhólismi og ofbeldi

„Í okkar sambandi var ég bæði eign og eigandi: Ég var Hildur hans Sverris og þú varst Sverrir hennar Hildar. Ég eignaði mér margt af þínu. Þín líðan var mín líðan, þín skömm mín, þitt líf mitt líf.“

Þessa lýsingu tengja margir við sem hafa barist við meðvirkni. Meðvirkni myndast í samböndum þar sem annar aðilinn drottnar og stjórnar hinum og hinn verður undirgefin og tiplar á tánum í kringum þann fyrsta. Sá undirgefni finnst hann bera ábyrgð á hinum og jafnvel kennir sér um ofbeldið sem hann verður fyrir. Hildur býr við kjöraðstæður meðvirkils en Sverrir er alkóhólisti og veður yfir hana fram og til baka á skítugum skónum. Hann kemur illa fram við hana, gagnrýnir allt sem hún gerir og það versta að mínu mati, þvingar hana til að stunda með honum kynlíf þegar hann er dauðadrukkinn (eða með hinu rétta nafni, nauðgar henni, þó að það sé aldrei sagt hreint og beint út).

Raunsannar tilfinningar

Bókin hefur virkilega grípandi rödd og tón sem hægt er að fylgja í fleiri fleiri blaðsíður nánast án þess að blikka auga. Stokkið er úr nútíð yfir í fortíð snurðulaust og gera stuttir kaflar það að verkum að hægt er að lesa bókina í einni setu án þess að lesandanum leiðist eina skúndu. Tilfinningar og upplifanir Hildar eru raunsannar og vekja djúpa samkennd með lesandanum. Valgerði tekst einstaklega vel að mála upp líðan Hildar í þessum ömurlegu aðstæðum og gerir hún það stundum með því að brjóta upp textann með upptalningum og jafnvel ljóðum.

Konan hans Sverris er einstök bók sem ætti að fá ríkulega athygli. Lesandinn fer í ferðalagið með Hildi í gegnum ofbeldissambandið sem hefur einkennt stærstan hluta lífs hennar, finnur til með henni, valdeflist með henni og að lokum nær sátt. Bókin er einstaklega vel skrifuð og af mikilli næmni, auðvelt er að mæla með þessarri bók.

 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...