Gunnar Theodór Eggertsson gefur út barnabókina Furðurfjall – Nornaseiður í ár. Áður hefur hann gefið út þríleikinn um Galdra-Dísu og hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bókina Steindýrin. Gunnar Theodór skrifar furðusögur, sumar misflóknar, en flestar mjög grípandi.

Að þessu sinni skrifar Gunnar Theodór fyrir yngri lesendur, eða fyrir börn á aldrinum 7-12 ára. Sagan segir af álfastúlkunni Ímu sem er að farast úr afbrýðisemi út í systur sína sem fær að nema galdra hjá nornunum. Svo er það smiðssonurinn Andreas sem sér lífið í höllinni í hillingum og þegar honum er boðið að verða skósveinn riddara breytist líf hans. Líf þessara tveggja aðalpersóna tvinnast saman í þessum þríleik.

Bókin er myndlýst af Fífu Finnsdóttur, sem vinnur við tölvuleikjagerð í Berlín. Myndirnar eru ævintýralegar, það er hreyfing í þeim og tilfinning og þær eru á köflum svolítið drungalegar. Sérstaklega er æðstanornin hrikaleg. Myndirnar passa vel við söguna.

Mætast þau?

Bókin fer hægt af stað og það tekur lesanda svolítinn tíma að ná áttum í heiminum sem Gunnar Theodór hefur skapað. Kortið fremst í bókinni hjálpar lesandanum þó að ná áttum og lenda á hinni furðulegu eyju Ímu. Það er greinilegt að mikil hugmyndaauðgi liggur að baki heiminum. Sjónarhornið skiptist svo á milli Ímu og Andreasar. Hræðilegir atburðir eiga sér stað á eyjunni hennar Ímu og Andreas þarf að glíma við hrikaleg vandræði. Íma er skemmtilega kokhraust sögupersóna sem lætur engan segja sér fyrir verkum, en svolítið seinheppin. Andreas er fastur í draumórum og dreymir stóra drauma. Hann kemst þó að því að það er stundum gott að trúa á þjóðsögurnar.

Leyndardómarnir bíða

Gunnar Theodór skilur lesandann eftir með ótal spurningar í lok bókarinnar og þar er spurningin “hvenær kemur framhaldið?” háværust. Langbest væri að framhaldið kæmi út sem fyrst, að vori til dæmis. Við erum öll farin að hámhorfa og hámlesa og það er erfitt að bíða heilt ár eftir framhaldi af skemmtilegri bók.

Nornaseiður er stutt bók sem vekur forvitni um framhaldið. Sagnaheimur Gunnars Theodórs er stór og nokkuð heilsteyptur og lesendur munu geta týnt sér í honum. Leyndardómar eiga án efa eftir að afhjúpast.

Lestu þetta næst

Júlían er fullkominn

Júlían er fullkominn

Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til...

Gratíana fullorðnast

Gratíana fullorðnast

Benný Sif Ísleifsdóttir stimplaði sig rækilega inn á rithöfundasenuna á Íslandi við útgáfu fyrstu...

Héragerði yfir páskana

Héragerði yfir páskana

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er líklega best þekkt fyrir bráðfyndnar og beint-í-mark myndasögur. Til...

Systkinin í Rumpuskógi

Systkinin í Rumpuskógi

Systkinin Teddi og Nanna eru ákaflega samheldin refasystkin og búa saman í Stóru borg, þar sem öll...

Edinborg í aðalhlutverki

Edinborg í aðalhlutverki

Nú er farið að líða að aðventunni og því tilvalið að taka því rólega, búa sér til heitt súkkulaði...