Berglind Ósk sendir frá sér ljóðabókina Loddaralíðan í ár undir formerkjum bókaútgáfu félags ritlistarnema, Blekfjelagsins. Áður hefur hún gefið út ljóðabókina Berorðað og birt smásögu í safninu Þægindarammagerðin og hinum ýmsu tímaritum. Orðið loddaralíðan er snilldarleg íslenskun á enska hugtakinu impostor syndrome. Fyrir þá sem ekki vita hvað loddaralíðan er þá byrjar Berglind bókina á orðskýringu.

Loddaralíðan no kvk (e. impostor syndrome) að finnnast maður ekki eins klár og aðrir halda að maður sé og óttast að það komist upp um mann. Þessi líðan er viðvarandi þrátt fyrir endurtekinn árangur.“

Bókin hefst á stuttu yfirliti yfir ævi ljóðmælanda. Bókinni er skipt upp í sjö kafla þar sem tekist er á við upplifun, afleiðingar  og orsakir loddaralíðunar. Þannig heitir fyrsti kafli „Að finnast þú vera feik“, annar „Afhjúpunarótti“, þriðji „Ekki nóg“, fjórði „Breytileg sjálfsmynd“, fimmti „Átta aðferðir til að koma ekki upp um þig“, sjötti „Vinnustaðamenning“ og að lokum sá sjöundi „Berskjöldun“. Berglind Ósk hefur frá árinu 2018 haldið fyrirlestrar um loddaralíðan. Sjálf kulnaði hún í starfi vegna viðvarandi loddaralíðunar.

Alvarleg en glettin

Ljóðabókin er nokkurs konar ferðalag. Í byrjun er ljóðmælandi gegnsýrður af loddaralíðan, þar er loddari í mótun. Síðan hefst hið langa ferðalag fullorðinsáranna og kryfjaðar eru tilfinningar sem tengjast loddaralíðan. Viðfangsefnið er höfundi greinilega hugleikið og stendur honum nærri hjarta, en það er stutt í grínið og sjálfshæðnina. Í kaflanum „átta aðferðir til að koma ekki upp um þig” fær kímni höfundar að blómstra en á sama tíma sér maður svart á hvítu hverju loddaralíðan getur áorkað sé hún óáreitt. Ljóðmælandi ávarpar líka eina af orsökum viðvarandi loddaralíðunar hjá fólki: Vinnustaðamenningu.

Með tannhvítu brosi  boðaði yfirmaður starfsfólkið á fund til að ræða skipulagsbreytingarnar. Þrátt fyrir almenna óánægju með þær dirfðist enginn að hefja upp raust af ótta við … enginn vissi reyndar hvað, en óttinn var áþreifanlegur. Eins og sönnum yfirmanni sæmir dansaði hann á mjórri línu þokka og yfirgangs. Hann sagði „Verði svo”, og svo varð. (Bls. 71)

Næst ræðir ljóðmælandi um endurgjöf fyrir vinnu. Það er greinilegt hver broddurinn er í orðum ljóðmælanda. Að lokum nær ljóðmælandi sátt. Hann sér að ekki verður við þetta ráðið: loddaralíðanin er viðvarandi ástand sem einfaldlega þarf að kljást við daglega, tala þarf upphátt um líðanina og stunda opin samskipti.

Ég minni mig á að hugrekki þýðir ekki að vera óhræddur heldur að halda áfram þrátt fyrir hræðsluna. Þessu komst ljónið að í Galdrakarlinum í Oz. Ég þarf bara að finna minn gula tígulsteinsveg. (Bls. 85)

Ert þú loddari?

Af þeim kvillum sem hrjá okkur þá er loddaralíðan sennilega einn af þeim hvimleiðustu, því eina leiðin til að sigrast á henni er að taka hana í sátt og berjast gegn henni á hverjum einasta degi. Og stundum þarf fleiri vopn en eitt til að standa af sér bardagann. Flestir í kringum mig sem hafa gripið í bókina og flett henni segja „þetta er ég“, því við erum öll haldin loddaralíðan. Berglindi tekst mjög vel til með þessari ljóðsögu. Hún er áhugaverð, afhjúpandi, fróðleg, gagnrýnin og full af von.

Að lokum verður að minnast á kápu bókarinnar, sem er einfaldlega svo fullkomin því hún rammar inn hvernig loddaralíðanin er. Lítill bolabítur í bangsafötum, að vonast til þess að allir taki bara eftir bangsanum en afhjúpi ekki bolabítinn sem starir stjarfur í myndavélina.

 

Lestu þetta næst

Drekar, dauði og erótík

Drekar, dauði og erótík

Hafi man eitthvað fylgst með bókaumræðum á samfélagsmiðlum á þessu ári þá er ansi líklegt að man...

Bækur inn um lúgu

Bækur inn um lúgu

Það er eitthvað fallegt við að fá póstsendingu inn um lúguna. Þá meina ég ekki auglýsingabæklinga...

Það er húmor í lauginni

Það er húmor í lauginni

Sund í Tjarnarbíó Klórlyktin gýs upp þegar maður gengur í salinn og ber augum glæsilega sundlaug...

Bumba er best

Bumba er best

Bekkurinn minn er sería barnabóka sem gerast í íslenskum veruleika eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur og...