Jólaboð fjölskyldu, ár eftir ár í hundrað ár.

Mér var boðið í jólaboð. Þetta tiltekna jólaboð var einstaklega huggulegt, þó átakanlega sorglegt og líka á köflum drepfyndið og var það haldið í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Þar mætti ég vopnuð grímu og vel sprittuð og fékk að vera fluga á vegg í fjölskyldusögu sem spannar hundrað ár. Í upphafi sjáum við fjölskylduna árið 1914, þetta er stórútgerðarfjölskylda og með þeirra augum, í gegnum jólamáltíð eftir jólamáltíð, fá áhorfendur að fylgjast með samfélagslegri þróun og breyttum áherslum í fjölskyldugerð og matargerð. Út frá minnsta samfélaginu, fjölskyldunni, er rýnt inn í stærra samfélagið; Ísland í framþróun og útrás sem er síðan í enn stærra samhengi heimsstyrjalda og tæknivæðinga.

Leikverkið Jólaboðið er skrifað af Thornton Wilder og er frá árinu 1931. Hér hefur það verið íslenskað og staðfært til að ríma við okkar veruleika og okkar mótun, sem kemur meðal annars frá ýmsum atburðum í Íslandssögunni. Það er Gísli Örn Garðarson sem leikstýrir og vinnur handritið í samstarfi við Melkorku Teklu Ólafsdóttur. 

Langborðið og hinn langi vegur

Það sem kom mér á óvart í upphafi var leikmyndin. Einfaldari gæti leikmynd ekki verið. Svart langborð með áföstum stiga var það eina sem prýddi sviðið. En þetta langborð þjónaði margslungnu hlutverki og var mjög táknrætt á ýmsa vegu. Fjölskyldan situr við langborðið á aðfangadagskvöld á hverju ári, sem koma hver á eftir öðrum, trekk í trekk og það veltur algjörlega á leikurunum að breyta fasi og túlkun eftir því sem árin líða til að undirstrika framvindu. Og það skiptir máli hver situr hvar. Goggunarröðin og valdaskiptingin er augljós innan fjölskyldunnar og samfélagsins frá upphafi. Í öndvegi situr að sjálfsögðu höfðingi heimilisins, sem undirstrikar karlaveldið í samfélaginu. Síðar í leikritinu er ýtt undir þann raunveruleika þegar Margrét, í túlkun Nínu Daggar Filippusdóttur, talar um sætið í miðjunni og hvernig henni hefur verið úthýst í ysta sætið. Senur sem fylgja eftir stigvaxandi hugmyndafræði feminisma í samfélaginu. En svo þjónar langborðið einnig sem vegurinn inn í ljósið, þegar persónur eldast og hverfa úr fjölskyldunni. Sterkar og áhrifamiklar senur, þegar persónur ganga hægt út úr leikmyndinni, meðan aðrir úr fjölskyldunni sitja við borðið og horfa á eftir þeim.

Sterkur leikhópur

Nýjar kynslóðir koma svo í staðinn fyrir þær eldri en það sem truflaði mig mest, og sem hefur alltaf gert, er þegar fullorðnir leikarar leika börn. Ég viðurkenni að hafa fengið kjánahroll í byrjun sögu þegar börnin komu í heiminn, en síðan þegar leið á þá er ég ekki frá því að þessi leikhópur fékk mig til að breyta þessari sterku skoðun minni örlítið til hins betra. Leikritið er borið uppi á góðum leikhóp en það eru átta leikarar sem túlka fjórtán persónur. Það eru Ólafía Hrönn, Ebba Katrín Finnsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Guðjón  Davíð Karlsson, Gunnar S Jóhannsson, Ragnheiður K. Steindórsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson. Þróun og þroski persóna, sem á sér stað oft á mjög stuttum tíma, er virkilega vel útfærður og leikarar koma persónum sínum vel frá sér – frá barndómi til heldri áranna. Má ég þá til að nefna sérstaklega Gunnar S. Jóhannsson í hlutverki seinni fjölskylduföðursins Davíðs og túlkun hans á þroska, og jafnvel hnignun persónunnar. Einnig fannst mér mjög gaman að sjá að aldur leikara skipti ekki máli í persónuvali.

Hröð framvinda og húmor

Mikill húmor er í verkinu og koma gamanleikararnir Ólafía Hrönn og Guðjón Davíð Karlsson þar sterkust inn. Verkið er í raun mjög fínn þverskurður af lífinu og fjölskyldugerð. Það er sorg og gleði í bland við átök, uppgang, líf og dauða. Að sjálfsögðu þekkja flestar fjölskyldur það hvernig aðfangadagskvöld getur verið þrungið spennu og hið minnsta getur hleypt öllu í uppnám. Það er líka spaugilegt atriði þegar grínast er með íhaldssemi fjölskyldunnar í tengslum við borðhald og hvernig jólin geta stundum verið eins í sniðum, ár eftir ár. Skeið, eftir skeið frá kjötsúpu til hamborgarhryggsins. Framvindan í verkinu skiptist á að vera mjög hröð en svo hægist á henni inn á milli. Það var allavega mikið hlegið í salnum svo verkið hafði tilætluð áhrif til skemmtunar. En það er ekkert sem sat eftir. Þarna var ekkert nýtt og það vantaði kannski aðeins meiri innsýn í persónugerð og hugsanir. Andleg veikindi tveggja persóna voru til dæmis bara með öllu horfin eftir tvö eða fjögur jól og einhvern veginn snerti öll saga, öll sálfræði, bara á yfirborðinu.

Það eru einnig ýmsar ádeilur í verkinu og auðvitað erum við látin hlæja mest af nútímanum, okkur sjálfum, og hvað við getum verið gölluð. Ádeilan þar var líka grafin frekar grunnt, meira bara gert til gamans og hlátursins vegna. Síhoppandi, illa uppaldni krakkinn í íþróttaálfsbúning er þar eitt dæmið. En það er bara einum of gott að sjá Þröst Leó í barnagalsa biðja um meiri screen time. 

 

Jólaboð fjölskyldu, ár eftir ár í hundrað ár. Alltaf í sama húsinu. Að loknu verki finnst mér ég ekki þekkja þessa fjölskyldu nægilega. Flugan fékk bara að heyra hluta af samræðunum, sjá örlítið brotabrot. En það var skemmtilegt, og flugan hló mjög mikið.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...