Eftir flóðið 2021

Jólabókaflóðið í lok hvers árs er stórt. Það er engin leið fyrir nokkurn að komast yfir það að lesa allar bækurnar. Fjölmiðlar ná ekki að fjalla um allar bækurnar og þá gerist það að bækur sem hefðu ef til vill mátt fá meiri athygli sigla hljóðar hjá. Við í Lestrarklefanum tókum saman nokkrar bækur sem okkur finnst að hefðu mátt fá meiri athygli í liðnu flóði. Við höfum enn ekki lesið allar þessar bækur, en í krafti höfundar síns eða sterkra efnistaka þá finnst okkur bókin vel eiga meiri athygli skilið. Þessi listi er ekki tæmandi og fjölmargir góðir molar leynast í útgáfu síðasta árs. Þetta eru bara þær bækur sem okkur finnst að hafi farið óþarflega hljótt um.

 

Kóperníka eftir Sölva Björn Sigurðsson

Sölvi Björn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2019 fyrir skáldsöguna Seltu. Aðrar bækur eftir Sölva hafa notið mikilla vinsælda og er þar skemmst að nefna Síðustu dagar móður minnar sem Díana Sjöfn fjallaði um fyrir nokkru síðan.

„Kaupmannahöfn 1888. Raðmorðingi gengur laus og börn hverfa unnvörpum. Kóperníkus, íslenskur unglæknir, er rekinn frá störfum og rannsakar nú lát besta vinar síns. Kóperníkus grunar fyrrverandi samstarfsfólk sitt á spítalanum um græsku en niðurstaðan virðist ekki í augsýn.“

Nætur sem daga ritstýrð af Sigrúnu Kristjánsdóttur

Nætur sem daga er ljósmyndabók. Í bókinni eru tvöhundruð tuttugu og tvö valin sýnishorn úr sex og hálfrar milljóna mynda safni Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Myndirnar fanga gleymd sem og geymd augnablik. Inn á milli myndanna eru ljóð og örsögur eftir Óskar Árna Óskarsson sem gefa bókinni einstakt yfirbragð og andrúmsloft. Bókin kom út um miðjan desember og kom því seint inn í jólabókaflóðið. Fyrir vikið týndist hún.

Bókin er gefin út í tilefni af 40 ára afmæli safnsins.

Myndaval: Sigríður Kristín Birnudóttir, Gísli Helgason og Kristín Hauksdóttir.
Ritstjóri: Sigrún Kristjánsdóttir.
Inngangsgrein: Kristín Svava Tómasdóttir.
Ljóð og örsögur: Óskar Árni Óskarsson.

Holupotvoríur alls staðar eftir Hilmar Örn Óskarsson

Holupotvoríur alls staðar er einstaklega fjörug léttlestrarbók úr Ljósaseríu Bókabeitunnar. Bókin er bráðfyndin og grípandi og myndlýsing Blævar Guðmundsdóttir lífgar svo um munar upp á bókina. Í bókinni talar ein persónan eingöngu pólsku og í lok bókarinnar er þýðing á öllum frösunum.

„Hávarður og Maríus eru átta ára og bestu vinir. Einn daginn ætla þeir að selja tombólur og græða haug af peningum en hitta þá Bartek sem er nýfluttur til Íslands frá Póllandi. Í fyrstu gengur erfiðlega fyrir strákana að tala saman en þeir láta það ekki stöðva sig. Sérstaklega ekki þegar þeir uppgötva að Bartek er á leið í lífshættulegan leiðangur.“

Álfheimar eftir Brynjar Jóhanesson
Ljóðabækur fá alla jafnan ekki eins mikla athygli og skáldsögur. Þær þykja ekki fyrir alla, sem er ranghugmynd sem við í Lestrarklefanum viljum rétta. Ljóð eru fyrir alla. Álfheimar eftir Brynjar Jóhannesson er sérlega aðgengileg ljóðabók um hversdaginn. „Brynjar lýsir heiminum í einföldum setningum. Án kaldhæðni eða stæla sýnir hann okkur sitt skrítna, tæra sjónarhorn. … Útkoman er sú að alvarlegustu málefni verða hjóm, tölvupóstar breytast í merka viðburði, suð í ísskápum verður að skynbrenglandi katastrófum og hlutirnir riðlast úr samhengi og endurraða sér svo aftur á skynsamlegri og eðlilegri hátt -að því er virðist alveg óvart,“ segir Almar Steinn Atlason, myndlistamaður um bókina. Jana okkar hjá Lestrarklefanum orðaði þetta í aðeins færri orðum: „Bókin er brill.“
Skaði eftir Sólveigu Pálsdóttur

Sólveig Pálsdóttir hlaut Blóðdropann árið 2020 fyrir bók sína FjötrarÍ ár heldur Sólveig áfram með sögu Guðgeirs, hins sérlega rólega rannsóknarlögreglumanns. Glæpasögur eru ein af vinsælustu bókum landsins, en þessar bækur fá oft ekki umfjöllun. Nokkuð sem við í Lestrarklefanum getum vel tekið til okkar líka. Sólveig hefur sýnt og sannað að hún getur skrifað spennandi og áhugaverðar glæpasögur og því er forvitnilegt að vita hvort sú sé ekki raunin með þessa bók.

miSter einSam eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur

Ragnheiður Eyjólfsdóttir hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna Rotturnar árið 2018. Þar á undan hefur hún hlotið Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bókina Arftakinn sem kom út 2015 og Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir framhaldið Undirheimar árið 2017. Það er því merkilegt þegar höfundur sem hún gefur út nýja bók. Sögur Ragnheiðar eru æsispennandi og grípandi. Allar líkur eru á að miSter einSam eigi ekki eftir að svekkja lesendur.

 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...