Irma Lóa er níu ára stelpa sem á tvo frændur, tvo stóra frændur sem eru samt árinu yngri en hún. Það eru tvíburabræðurnir Grettir og Golíat, nefndir eftir stórum og sterkum mönnum úr sögubókunum því þeir voru langstærstu börnin er þeir fæddust og eru enn langstærstir, allavega í sínum árgangi í skólanum. Irma Lóa, Grettir og Golíat eru náin og miklir vinir. Þegar við grípum niður í þeirra sögu eru þau stödd í kartöflugarðinum að taka upp kartöflur með Önnu Láru, móður Irmu Lóu. Anna Lára skreppur frá og á meðan finna krakkarnir litla dularfulla fígúru en það fer ekki betur en svo en að flugmaður sem á vegi þeirra verður tekur af þeim fígúruna. Upphefst þá eftirgrennslan eftir hver maðurinn er sem tók af þeim fígúruna og hvers vegna. Þau njóta aðstoðar Hennings, pabba Irmu Lóu við leitina sem verður spennandi og skemmtileg.
Spennandi og vakti upp hlátur
Bókin Algjör steliþjófur er létt, skemmtileg og spennandi barnabók sem hélt áhuga mínum og dætra minna allan tímann. Þórdís Gísladóttir er höfundur sögunnar en Þórarinn M. Baldursson er myndhöfundur. Þórdís og Þórarinn hafa áður leitt saman hesta sína í bókunum um Randalín og Munda.
Við mæðgur lásum bókina saman og kláruðum hana í einni setu því við urðum að vita hvernig hún endaði. Sagan vekur upp spennu sem kitlar forvitni eldri barna án þess að vera of mikil og æsandi fyrir lítil hjörtu. Við mæðgur vorum sammála um að Gagnamagnið væri eitt af því fyndnasta við söguna og dæturnar voru á því að flugmaðurinn, Falk Sörensen, væri dónalegur og frekur kall. Mér þótti Þórdís tvinna fróðleikinn um styttuna vel og skemmtilega inn í söguna og kunni bókasafns- og upplýsingafræðingurinn í mér vel að meta tilvísunina í Sarp, sem er menningarsögulegt gagnasafn á netinu. Ég leyfi mér að fullyrða að fáar barnabækur hafi slíka tilvísun!
Algjör steliþjófur er nýjasta bókin í Ljósaseríunni, áskriftarklúbbi Bókabeitunnar. Áskrifendur Ljósaseríunnar fá til sín fjórar léttlestrarbækur á ári eftir hina ýmsu höfunda. Bækurnar fást einnig í næstu bókabúð og eru tilvalin tækifærisgjöf sem hvetur til lesturs. Dætur mínar hafa verið áskrifendur í rúmt ár ef ekki lengur og hafa flestar bækurnar hitt í mark hjá þeim.