Sævar Helgi sendi frá sér léttlestrarbók númer tvö í bókaflokki sínum vísindalæsi, Umhverfið. Þessi bók er, líkt og fyrri bók Sævars, Sólkerfið, myndlýst af Elísabetu Rún og gefin út af Forlaginu. Við mæðgur lásum Sólkerfið saman stuttu eftir að hún kom út og líkaði okkur vel svo við vorum snöggar að grípa þessa fyrir heimalesturinn og höfðum miklar væntingar.
Í fyrstu bókinni fræddumst við um sólkerfið okkar en í þessari bók er kastljósinu beint að Jörðinni. Við fræðumst um umhverfið í kringum okkur, hætturnar sem steðja að því og hvað við höfum og getum gert til að hugsa betur um Jörðina okkar fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir. Bókinni er skipt upp í nokkra kafla þar sem mismunandi atriðum eru gerð góð skil. Allt frá því að fræðast um loftsteinaklukkur og áhrif blýs á umhverfið okkar yfir í að fræðast um hringrás vatnsins og mikilvægi regnskóga.
Fræðibók fyrir fullorðna?
Ég hef mikinn áhuga á léttlestrarbókum, líklega því ég á fjórar dætur og þar af tvær á yngsta stigi grunnskóla. Ég hef því lesið ógrynni af slíkum bókum með dætrum mínum í gegnum árin og tel mig vera þokkalega sjóaða í að bera kennsl á góðar léttlestrarbækur. En því miður er það staðreynd að í gegnum árin hafa slíkar bækur verið vandfundnar en undanfarin ár hefur það breyst þó enn megi gera betur. Þessar léttlestrarbækur Sævars eru þær sem auðga úrvalið svo um munar og bæta það til hins betra. Á sama tíma og börnin læra nýja og áhugaverða hluti við lesturinn, fræðumst við fullorðna fólkið í leiðinni. Það á allavega við um sjálfa mig því þó ég hafi vitað margt þá kom í ljós við lestur bókarinnar að ég vissi ekki nógu mikið. Það má kannski líkja þessum bókum við Krakkafréttir sem eru á RÚV. Stundum er bara gott fyrir okkur fullorðna fólkið að slökkva á “fullorðinsfréttatímanum” og horfa á Krakkafréttir til að fá betri útskýringar á efninu og sama má segja um þessar bækur. Leggjum fræðidoðrantana frá okkur og grípum þessar, við getum þá bara tekið upp fræðidoðrantana ef okkur vantar dýpri skilning.
Sævar hefur í gegnum árin náð að straumlínulaga þekkingu sína um alls kyns málefni, þá sérstaklega um geiminn og umhverfið. Hann hefur hæfnina til að koma efninu frá sér á fræðandi hátt og barnvænan. Það verður spennandi að sjá hvaða efni verður í næstu Vísindalæsi-bók.
Önnur hliðarafurð af bókum sem þessum eru orðin. Í heimi þar sem efni og fróðleikur sem börn rata í er að miklu leyti á ensku þá er dýrmætt að fá fróðleik sem þennan matreiddan á íslenskri tungu, með íslenskum hugtökum. Það var tilfinnanlegur skortur á bókum sem þessum þar til Sævar og Elísabet Rún hófu sitt samstarf.
Risaeðlupiss og vatn
En fyrir utan að bókin sé áhugaverð og fræðandi fyrir börnin og okkur fullorðna fólkið þá er hún svo skemmtilega framsett. Sagan sjálf er fræðandi með fyndnum staðreyndum og líkingum. Risaeðlupissið vakti mikla lukku hér á bæ en varð jafnframt kveikjan að miklum umræðum um hringrás vatnsins og mengunar. Það er svo myndlýsingin sem er punkturinn yfir i’ið. Fræðin væru ekkert án myndlýsingar Elísabetar en jafnframt væru myndlýsingarnar ekkert án fræðanna. Myndirnar eru fallegar, skondnar og lýsandi og hjálpa til við að ná þreyttum litlum lesanda til að lesa aðeins meira því myndirnar vekja upp forvitni um hvað gerist næst.
Umhverfið er bók sem fræðir og vekur börn og fullorðna til umhugsunar um umhverfið okkar og hvernig við erum að fara með það og hvað við getum gert til að bæta það. Ég ábyrgist að eftir lestur bókarinnar munuð þið eflast enn frekar í að flokka frá heimili ykkar rusl, skoða betur hvað þið kaupið inn á heimilið af mat og fatnaði og spá meira í hvaða fyrirtæki fá peningana ykkar. Það er jákvæður eftirmáli af lestri bókar fyrir bæði ykkur og umhverfið okkar.