Merkúríus, Venus, Júpíter

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á svokölluðum léttlestrarbókum, bókum sem henta börnum á yngsta stigi grunnskóla til lesturs og fagna ég því þegar góðar slíkar bækur koma út. Sævar Helgi Bragason eða Stjörnu Sævar eins og sumir kalla hann, er höfundur bókarinnar Sólkerfið sem er ný léttlestrarbók og gefin út af Forlaginu. Bókin er sú fyrsta í nýjum bókaflokki, Vísindalæsi, sem á að fræða börn um vísindi, náttúru og tækni. 

Handklæði mikilvægur ferðabúnaður

Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna þá fjallar hún um sólkerfið okkar. Hverri plánetu og öðrum fyrirbærum í sólkerfi okkar eru gerð góð skil með skemmtilegum og fræðandi texta sem inniheldur mikinn húmor sem höfðar til bæði barna sem og fullorðinna. Ég kunni vel að meta ábendinguna í formálanum um að gott væri að hafa með sér handklæði í ferðalaginu um sólkerfið. Bókin er sögð vökva, örva og efla vísindalæsi krakka og verð ég að taka undir það en einnig bæta við að hún geri slíkt hið sama fyrir okkur fullorðna fólkið. Bókina las ég með yngri dætrum mínum tveim en þær eldri sem og eiginmaðurinn ráku oft nefið ofan í bókina á meðan á lestrinum stóð. Við hin fullorðnu lærðum því líka eitthvað nýtt.

Myndmálið er svo einstaklega skemmtilegt en það er Elísabet Rún  sem á heiðurinn af myndskreytingum bókarinnar. Myndirnar eru litmyndir sem eru bæði skondnar en líka forvitnilegar á þann hátt að þær hvetja lesandann til að lesa meira. Lesandinn á stundum erfitt með lestur, mögulega smá lúinn og þá getur vel myndskreytt bókin gripið athygli lesandans og fengið hann til að vilja kafa aftur ofan í textann til að fá nánari útskýringu á myndefninu. Það gera myndskreytingarnar í þessari bók svo sannarlega.

Kjörin í heimalesturinn

Ég fagna þessari bók og bíð spennt eftir komandi bókum í þessum bókaflokki. Sólkerfið hefur allt með sér sem góð léttlestrarbók að mínu mati. Letrið er hæfilega stórt og magn texta á hverri síðu er passlegur. Kaflarnir eru einnig hæfilega langir en samt þannig uppbyggðir að lítið mál er að stöðva lestur í miðjum kafla. Það sem er hinsvegar allra best er að efni hennar er áhugavert fyrir bæði barnið sem les og foreldrið sem hlustar. Þegar maður hittir á slíka bók við heimalesturinn sem iðulega er sinnt í lok dags, jah slík bók gerir lífið ögn auðveldara og á höfundur hrós skilið.

Lestu þetta næst

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.