Fyrir allnokkru síðan fékk ég skilaboð frá vinkonu minni sem innihélt hlekk á vefsíðu RÚV. Við hlekkinn hafði hún skrifað “ég bilast” eða eitthvað álíka og látið nokkra broskalla með tár í augum af hlátri fylgja með. Ég beið ekki boðanna heldur smellti á hlekkinn sem vísaði inn á brot úr þættinum Lestin á Rás 1. Þar flutti Halldór Armand Ásgeirsson pistilinn Lífið fyrir hálfvita – fegurð þess að vera byrjandi. Án þess að uppljóstra of miklu þá fjallaði pistillinn um það þegar Halldór hitti mann og jós úr viskubrunni sínum við hann um söngleiki. Seinna sama kvöld fletti Halldór upp nafni mannsins og sá að maðurinn, sem Halldór hafði eytt kvöldstund í að fræða um söngleiki, var í raun ákveðinn þungavigtarmaður á því sviði, svo vægt sé til orða tekið.
Broskallarnir með tárin í augunum höfðu forspárgildi. Ég grét úr hlátri við það að hlusta á Halldór lýsa þessu óborganlega jafningjaspjalli og barnslegri einlægni byrjandans.
Rútuferðir, Ódysseifskviða og glundroði mennskunnar
Þennan pistil, sem nú ber heitið Söngleikir fyrir hálfvita, er að finna í Við erum bara að reyna að hafa gaman sem Halldór sjálfur kallar “hljóðesseyjusafn”. Safnið kom út hjá Storytel í byrjun september og er samansafn pistla eftir Halldór, lesnir af höfundinum sjálfum. Hann hefur verið pistlahöfundur hjá Lestinni á Rás 1, með hléum, frá árinu 2016 og eflaust glöddust margir þegar hann sneri aftur í Lestina í apríl síðastliðnum.
Viðfangsefni pistlanna eru samfélagsleg málefni stór og smá í bland við heimspekilegar vangaveltur. Það er augljóst að höfundur hefur ástríðu fyrir sagnfræði og heimspekilegri nálgun á stórar spurningar og er vel lesinn í þeim efnum. Honum tekst vel að spinna saman hversdagslegar frásagnir af rútuferðum og göngutúrum við sjóinn við Ódysseifskviðu og existensíalisma. Hið mannlega eðli og hvatinn á bakvið gjörðir manna eru auk þess regluleg umfjöllunarefni. „Hvað fær fullorðinn mann til þess að hrækja á barn þegar liðið hans tapar fótboltaleik“ er ein af fjölmörgum spurningum sem Halldór reynir að finna svör við.
Íslendingar eru þjóð sem á ekki fyrir því að búa í sínu eigin landi.
Neysluhyggja og verðlag á Íslandi er höfundi greinilega hugleikið og lái ég honum það ekki. Hann lýsir sér sem nokkurskonar „fagmanni í verðhækkunum“ verandi Íslendingur sem þekkir lítið annað en fjárhagslegan óstöðugleika. Súkkulaðisnúðar virka að hans sögn eins og Big Mac-vísitala að því leyti að hægt er að fylgjast með verðlagsþróun í gegnum þá. „Á tíunda áratugnum kostuðu þeir eitthvað í kringum 60-70 krónur stykkið. Í dag held ég að verðið á þeim sé í kringum 350 kall.“
Ég tengi Halldór. Notaðir þú líka grænan 100 krónu seðil til að borga fyrir snúðinn? Fórstu svo með afganginn í sjoppu til að láta starfsmanninn handvelja litla mola af nammi í græna plastpokann? Endurkoma grænu plastpokanna gæti verið verðugt efni í næsta pistil. Pokarnir gætu gengt tvíþættu hlutverki: minnkað nammiát og fyllt hjörtu landsmanna á fertugsaldri af rósrauðri nostalgíu.
Samfélagsrýni og hlátur
Sjálfur segir höfundur að pistlarnir séu „rannsókn á sjónarhornum“ og að þeir endurspegli ekkert endilega hans eigin skoðanir. Hann lítur á pistlaskrifin sem ákveðið form af skáldskap. Umfjöllunarefnin eru misþung. Sumir pistlanna innihalda fyrst og fremst hárbeitta samfélagsgagnrýni en aðrir eru af léttari toga. Viðfangsefnin eru oft víðfeðm og lesandinn, eða hlustandinn, er skilinn eftir með höfuðið þungt af spurningum um lífið og tilveruna sem ekki er hægt að svara. Stundum er farið um svo víðan völl innan sama pistils að auðvelt er að tapa þræðinum. En Halldór er líka ofboðslegur húmoristi og á köflum er ekki hægt annað en að hlæja upphátt.
„Ég er að koma frá hááhættusvæði,“ sagði ég við bílstjóra flugrútunnar…
„Já, er það já, hvaðan?“
„Þýskalandi,“ svaraði ég.
Ég veit ekki af hverju ég sagði þetta, mér leið eins og ég væri hættulegur og mér líkaði það. Þetta var valdeflandi útlit.
Höfundurinn er einstaklega vel að máli farinn og kemst vel að orði. Einstaka enskuslettur minna mig á það að hann er af þúsaldarkynslóðinni. Hann er með þægilega, jafnvel dálítið svæfandi rödd.
Heilt yfir tekst ágætlega að blanda saman þyngri og léttari viðfangsefnum. Bókin hefst á einum af lengri og pólitískari pistlum sem þar er að finna. Ég hvet þá sem hafa ekki mikla þolinmæði fyrir heimspekilegum vangaveltum eða pólitískri hugmyndafræði, eða réttara sagt, þeim sem eru bara að reyna að hafa gaman af því að lesa eða hlusta á þessa bók að láta ekki deigan síga. Þeim myndi farnast betur að byrja á pistlum á borð við Söngleikir fyrir hálfvita og Við erum bara að reyna að hafa gaman. Ég hvet þó alla til þess að ljúka við bókina í heild sinni. Því að lestri (og hlustun) loknum áttaði ég mig á því að það hafðist. Ég reyndi að hafa gaman af bókinni og það tókst. Slíkan sigur ætti ekki að vanmeta.
Halldór Armand Ásgeirsson (f. 1986) er rithöfundur og pistlahöfundur á RÚV.
Hann hefur gefið út bækurnar Vince Vaughn í skýjunum og hjartað er jó jó, Drón, Aftur og aftur og Bróðir.