Ef þú sást það ekki, þá gerðist það ekki.

Yfirborðskennd, háleitar hugsjónir og hræsni er viðfangsefni bókarinnar Auðlesin eftir Adolf Smára.  Bjartur er ungur og upprennandi maður sem er með augun á markmiðum sínum og ætlar sér að ná langt. Hann vinnur hjá Reykjavíkurborg við að efla umhverfisvernd borgarbúa og stendur sig vel. Allavega að eigin mati.

Tvær persónur á sömu vegferð

Nína Kristín er ljóðskáld sem telur sig hafa heilmikið að segja í ljóðum sínum en þarf svo að horfast í augu við að enginn markaður er fyrir ljóðin og það sem hún hefur fram að færa. Neyðist hún því til að skríða aftur í foreldrahús og gangast þar undir lögmál sem hún fyrirlítur mest af öllu. Samkynhneigðin þvælist fyrir henni og sú eina af hennar fjölskyldumeðlimum sem fær að vita að hún er lesbía er amma hennar sem er með alzheimer. Bróðir Nínu, ungur maður á uppleið og með fæturnar á jörðinni, er andstæða hennar og rökræður hans við Nínu um lífið og tilveruna og óraunhæfar væntingar hennar til listarinnar og lífsins, eru oft óþægilega sannar.

Þegar upp úr slitnar milli Nínu og Söru, ljósmyndara sem Nína er ástfangin af, býðst Nínu að ganga til liðs við útgáfufyrirtæki sem vill hanna hinn fullkomna rithöfund og fá hann til að skrifa réttu bækurnar um rétta viðfangsefnið fyrir réttu lesendurna. Sem í raun gengur gegn öllum prinsippum Nínu. En þar sem allt virðist ganga á afturfótunum hjá henni slær hún til og gengur til liðs við neysluhyggjuna, selur sálu sína þar með skrattanum.

Bjartur er á sömu vegferð og Nína þó ólík séu. Hreinsunarátak hans, þar sem fjara var hreinsuð með sameiginlegu átaki reyndist mikil lyftistöng fyrir hann og hans frama en engu munaði þó að þessi gjörningur snérist upp í andhverfu sína. En það sem enginn veit og enginn sér skaðar ekki ímynd manns sem ætlar sér frama í stjórnmálum og hvaða máli skiptir þó að ruslið sem við tínum í dag fjúki óvart á haf út ef ekkert er vitnið?  Vinkona Bjarts dúkkar upp með hælisleitanda, unga konu sem senda á til Grikklands og þar sem Bjartur er duglegur að deila á samfélagsmiðlum fréttum um slæman aðbúnað flóttafólks lá beinast við að hann af öllum myndi bregðast við og gera allt sem hann gæti henni til bjargar. Öll spjót standa að honum, hann fær tækifæri til að sýna hversu sönn ímyndin er sem hann hefur byggt upp en guggnar á endanum.

Að standa við prinsippin

Bókin er að mörgu leyti fín. Þó er stundum eins og það eigi að troða öllum ádeiluefnum samtímans á rúmar tvö hundruð blaðsíður. Samfélagsmiðlar gera það ótrúlega auðvelt að taka upp hanskann fyrir þá sem minna mega sín en svo þegar á reynir og raunverulega á að taka til hendinni renna margir á rassinn. Með öðrum orðum, við erum til í að hrópa og kalla út í tómið á meðan einskis annars er krafist. Auðvitað er þetta ekki algilt, en ótrúlega algengt því miður.

Umhverfisvernd og breytt neysluhegðun, við gerum okkur grein fyrir vandanum, við neytum of mikið, ferðumst of mikið, tölum helling um það en svo breytist ekki neitt, ekki hjá okkur sjálfum. Og hversu mikið sem við viljum halda í prinsipp, standa í lappirnar, vera trú okkur sjálfum og okkar gildum þá er það hægara sagt en gert þegar gullið og grænu skógarnir birtast ljóslifandi fyrir framan okkur: þá brotnum við eins og Nína Kristín og seljum skrattanum sálina, prinsippin og fögru fyrirheitin.

Gjörningur Bjarts, um hreinsunina í fjörunni, og viðbrögð hans daginn eftir, þegar hann áttar sig á því að allt ruslið er fokið aftur í fjöruna og á haf út, eru mjög trúverðug: þetta sleppur á meðan enginn sér því þá verður hann ekki dreginn til ábyrgðar. Bjartur heldur í ímyndina hvað sem það kostar.

Sú hugmynd er ekki ný af nálinni að hægt sé að kortleggja fólk og nánast lesa hugsanir þess, til þess eins að græða. Við vitum að allt sem við gerum á netinu safnast í gagnabunka til að hægt sé að finna út hvað það sé nákvæmlega sem við erum að leita eftir. Auglýsingar á samfélagsmiðlum eru sniðnar að hverjum notanda fyrir sig og passað er upp á að við fáum bara þær upplýsingar sem fyrirfram er ákveðið að við megum fá. Gott dæmi um þetta eru forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum þar sem áróðri frambjóðandanna var stýrt að ákveðnum hópum fólks. Svona er þetta orðið og þó ritstýring hafi alltaf þekkst að einhverju marki er það aldrei eins auðvelt og nú að stjórna því hvað fólk fær að vita og lesa. Og því þá ekki að skrifa skáldsögur sem eru fyrirfram hannaðar fyrir sem flesta?

Skilur eftir áleitnar spurningar

Bókin er á heildina litið ágæt, en þar sem umfjöllunarefnin eru mörg og frekar stór er úrvinnslan frekar grunn, persónusköpunin er þó prýðisgóð þó það trufli aðeins hvað steríótýpan er allsráðandi, hugsjónaskáldið er samkynhneigð ung kona, sem og hælisleitandinn Maria og pönkarinn hún Hekla.  Listamennirnir eru sem sagt gay en umhverfissinninn og vonarstjarna Reykjavíkurborgar er gagnkynhneigður hvítur karlmaður.

Bókin er auðlesin, skilur eftir áleitnar spurningar sem hver og einn ætti að spyrja sjálfan sig að: erum við tilbúin að standa við stóru orðin þegar kemur að okkur sjálfum? Og hversu mikið er að marka persónuna sem birtist okkur á samfélagsmiðlum?

Auðlesin kemur inn á áhugaverða og umhugsunarverða hluti en verður líklega ekki eftirminnileg þeim er lásu.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...