Rebekka Sif, Kristín Björg og Katrín Lilja spjalla um bækur.
Í öðrum þætti Lestrarklefans á Storytel hittir Rebekka Sif barnabókahöfundinn Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur á vinnustofu hennar í Íshúsinu Hafnarfirði. Þær spjalla meðal annars um bókina Kennarinn sem fuðraði upp sem kemur út sem hljóðbók í byrjun desember. Annars er alltaf mikið að gera hjá hinni fjölhæfu Bergrúnu og segir hún okkur einnig frá verkefninu um Míu Magic.
Katrín Lilja Jónsdóttir og Kristín Björg Sigurvinsdóttir mæta í settið til að ræða um barnabækurnar Ævintýri Freyju og Frikka eftir Felix Bergsson og glæpasöguna Andnauð eftir Jón Atla Jónasson. Einnig mun Þuríður Blær Jóhannsdóttir leiklesa fyrir okkur æsispennandi senu úr Ævintýri Freyju og Frikka.
Þáttastjórn er í höndum rithöfundarins Rebekku Sifjar Stefánsdóttur sem er einnig aðstoðarritstjóri Lestrarklefans. Við viljum sérstaklega þakka Brá verslun fyrir fallegan fatnað sem bæði Rebekka og Katrín klæðast.
Bergrún Íris og Rebekka Sif rýna í Kennarann sem fuðraði upp.