Hér má horfa á þáttinn í heild sinni á YouTube rás Storytel
Í nýjasta þætti Lestrarklefans á Storytel ræða Rebekka Sif, Katrín Lilja og Sjöfn Asare um bækurnar Undir yfirborðinu eftir Freidu McFadden og Inngangur að efnafræði eftir Bonnie Garmus. Rebekka Sif tekur viðtal við þýðandann og skáldið Sunnu Dís Másdóttur og einnig má heyra upplestur leikkonunnar Kötlu Njálsdóttur úr Undir yfirborðinu.
Sálfræðitryllir sem heldur manni
Undir yfirborðinu er spennandi bók sem hefur verið gífurlega vinsæl á Storytel. „Ég myndi mæla með henni, sérstaklega fyrir fólk sem er fyrir sálfræðispennutrylla. Hún er fínasta afþreying,“ segir Sjöfn Asare, rithöfundur. Hún fellur þó í þá gryfju að nýta sér margar þekktar klisjur. „Bókin tekst að halda manni en að sama skapi er hún uppfull af klisjum, en það er kannski það sem maður leitar eftir þegar maður er að lesa svona bók,“ segir Katrín Lilja, ritstjóri Lestrarklefans.
Margir hattar í litlum heimi
Rebekka Sif hitti Sunnu Dís Másdóttur, skáld og þýðanda, í Gröndalshúsi og ræddi við hana um bæði þýðingu hennar á skáldsögunni Inngangi að efnafræði eftir Bonnie Garmus og ljóðabókina hennar Plómur sem kom út síðasta haust. Sunna Dís er vel þekkt í bókmenntaheiminum og sinnir þar mörgum hlutverkum. „Það er stundum pínu snúið að skipta um hatta, því þetta er lítill heimur og pínu flókið stundum að vera í mörgum hlutverkum,“ segir Sunna Dís en hún starfar meðal annars sem ritstjóri, yfirlesari, ritlistarkennari, gagnrýnandi og auðvitað rithöfundur líka.
Síðasta haust komu svo út tvær bækur í hennar þýðingu en henni líkar vel við þýðandastarfið. „Þetta er gáta eða þraut sem þarf að leysa. Mér finnst þetta vinna vel með mínum skrifum.“ Aðspurð um hvaða möguleika henni finnst ljóðabækur hafa sem hljóðbækur segir hún: „Mér finnst þær nefnilega eiga alls kyns möguleika. Það verður rosalega mikil nánd, sérstaklega þegar höfundur les, maður er algjörlega kominn inn í hljóðheiminn.“
„Gleypti hana í mig á einni helgi“
Að lokum ræddu gagnrýnendur um Inngang að efnafræði sem fjallar um efnafræðinginn og sjónvarpskokkinn Elizabeth Zott. „Mér finnst það auka dýpt bókarinnar að við sjáum hlutina frá mismunandi sjónarhornum,“ segir Sjöfn en frásagnarform bókarinnar er fjölbreytt og skiptir höfundur oft um sjónarhorn á milli persóna. Gagnrýnendur voru allir sammála um að þetta væri grípandi og vel skrifuð bók. „Mér fannst þessi bók alveg æðisleg,“ segir Katrín Lilja. „Ég gleypti hana í mig á einni helgi. Ég átti erfitt með að hætta eftir að ég las fyrstu blaðsíðuna.“
Rebekka Sif, Katrín Lilja og Sjöfn ræða um hljóðbækur.
Að lokum mæla þær stöllur með hljóðbókum sem vert er að hlusta á. Þáttastjórn er í höndum rithöfundarins Rebekku Sifjar Stefánsdóttur aðstoðarritstjórans okkar.