Það getur verið áskorun að vaxa upp og læra á tilfinningarnar; reiðina, gleðina, sorgina, vonbrigðin, spennu og allt þar á milli. Baddi þarf að læra það. Baddi kemur úr smiðju hinnar finnsku Mervi Lindman. Lindman er fyrst og fremst myndhöfundur og hefur myndlýst fjölda barnabóka. Í bókunum um Badda er hún líka höfundur texta. 

Baddi kyssir og Baddi er reiður eru að mestu myndabækur. Textinn er í algjöru lágmarki og sagan er sögð í gegnum myndir og tala því beint til barnanna. Ungur ráðunautur Lestrarklefans, tveggja ára, hefur mikið dálæti á bókunum og það er ekki vegna textans, heldur vegna myndanna.

 

Einlægar og bráðfyndnar

Í Baddi er reiður upplifir Baddi vonbrigði. Það vill enginn sparka í bolta með honum. Hann verður alveg bálreiður! Hann verður jafn reiður og krókódíll! Allt er þetta vandlega sýnt með mydum. Rauðþrútinn Baddi sparkar í leikföng og lætur mjög illa. Litla kanínan hans er steinhissa og hrædd við reiða Badda. En svo er allur vindur úr honum og hann fellur á gólfið, úrvinda. Það er nefnilega erfitt að vera reiður. Um leið sér lesandinn fætur og hendur á mömmu sem kemur til að knúsa Badda eftir uppnámið.  

Í Baddi kyssir sýnir Baddi ást sína á heiminum. Hann gengur um og kyssir allt! Bókstaflega. Svipbrigðin á Badda í gegnum bókina og allir kjánalegu hlutirnir sem hann kyssir vekja ómælda ánægju hjá bæði hlustanda bókarinnar (barninu) sem og lesaranum (þeim fullorðna). Lindman er einstaklega fær í að koma til skila tilfinningalífi Badda, sem er ekkert nema elskan uppmáluð. 

Bækurnar um Badda rötuðu strax í hóp uppáhaldsbóka hjá ráðunauti Lestrarklefans. Hér eru á ferðinni bráðskemmtilegar myndabækur fyrir tveggja ára og eldri. Bækurnar eru með stuttum texta en myndirnar segja alla söguna sem nær þar af leiðandi beint inn í hjarta yngstu lesendanna. 

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...