Ísland fortíðarinnar, ósögð saga og saga kvenna er efni skáldsögunnar Sumarblóm og heimsins grjót eftir Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur. Sigrún Alba hefur hingað til skrifað fræðibækur og rannsóknarsvið hennar eru ljósmyndir, minnisrannsóknir, trámafræði og aðferðafræði söguritunar, samtímamyndlist og danskar samtímabókmenntir.

Efni skáldsögunnar Sumarblóm og heimsins grjót endurspeglar áhugasvið Sigrúnar Ölbu að vissu leyti þar sem öll þessi efni koma við sögu. Hún leikur sér að fræðunum en kemur þeim til skila á aðgengilegan hátt í skáldsögu. Fyrir einhvern sem er á höttunum eftir auðlesinni og léttri skáldsögu gæti þetta hljómað ógnvekjandi og fráhrindandi, en ég get lofað skemmtilegum og grípandi lestri.

Sagan byggir á raunverulegum atburðum og fólki og það er það nesti sem lesandi leggur upp með þegar lesturinn hefst.  

Aðalsöguhetja bókarinna er Sóley Stefánsdóttir sem bókstaflega fæðist í byrjun bókarinnar. Lesandinn stekkur inn í huga Axels, stóra bróður hennar, sem er með svolítið blendnar tilfinningar gagnvart nýju litlu systur sinni. Sóley fæðist inn í mikla fátækt á Vestdalseyri skammt frá Seyðisfirði árið 1907. Á unga aldri missir hún móður sína úr berklum og fjölskyldan klofnar, sem var ekki óalgengt fyrr á öldum. Bræður hennar finna sér vinnu, pabbinn fer til að leita að vinnu en Sóley litla situr ein eftir og er dæmd til að flakka á milli heimila. Hún elst upp hjá vandalausum frá sex ára aldri. Þegar hún stendur svo eftir sem einstæð móðir rétt um tvítugt verða hlutirnir enn erfiðari. 

Kíkt inn um glugga

Saga Sóleyjar er eins og að gægjast inn um glugga til fortíðar Íslands. Þótt sagan segi að mestu sögu Sóleyjar, þá má segja að lesandinn kynnist gamla bændasamfélaginu. Fyrri hluti sögunnar gerist á þeim tíma sem fólk barðist gegn sulti og fátækt. En tíminn líður og tækninýjungar tuttugustu aldarinna breyta lífi fólks. Samgöngur verða betri og Reykjavík verður að stórborg. Það er margt sem gerist á einni mannsævi.

Tónninn í bókinni er rólegur. Það er ekki yfirdrifið mikið af tilfinningum í henni en einhvern veginn er maður dreginn áfram af forvitni. Hvað varð um Sóleyju? Hvernig vegnaði henni af sem einstæðri móður? Venjan var að börn voru sett í fóstur ef móðirin var einstæð. Það var taugatrekkjandi að fylgjast með Sóley og lífi hennar í gegnum árin. Bókin er skrifuð í stökkum. Lesandinn fær stutt innlit í helstu örlagadaga Sóleyjar, án þess þó að lesandanum finnist hann nokkru sinni hafa misst af neinu. Hún lifir mikla rósturtíma í heimssögunni; kreppu, tvær heimsstyrjaldir, byrjun borgarmenningar í Reykjavík og upphaf baráttu verkalýðs fyrir auknum réttindum. 

Samkynja sambönd eða góð vinátta?

 Stundum þegar skrifaðar eru bækur sem gerast í fortíð Íslands er lífsbaráttan hörð og oftar en ekki má gæta mannvonsku í garð aðalsögupersónunnar. Til dæmis er barn misnotað, óréttlætið ríkir og einstæða móðir er send út í kuldann. Vissulega eru dæmi um harðræði í bókinni, en það sem lesandinn tekur með sér eftir lesturinn er trú á góða vináttu. Sóley átti ætíð hauka í horni og endaði á að búa með barnlausumhjónum í fjölda ára. Þegar fjölskyldufaðirinn lést bjuggu konurnar saman tvær. 

Ævi Sóleyjar er saga kvenna í byrjun tuttugustu aldarinnar. Eflaust minnir saga hennar okkur á hve mikill sigur það var fyrir allar konur að leikskólar eða dagheimili komu til sögunnar. Einstæðar konur höfðu fá úrræði til að vinna fyrir sér, ef þær voru með barn á framfæri. Þeirra helsti kostur var að gefa barnið frá sér til að geta unnið fyrir sér, eða deila uppeldi þess með barnlausum hjónum. 

Ég naut þess að lesa Sumarblóm og heimsins grjót. Sagan er grípandi þótt frásögnin sé róleg. Í lok bókarinnar segir höfundur frá því að saga Sóleyjar sé að einhverju leiti saga ömmu hennar. Hér er á ferðinni frábær söguleg skáldsaga sem er tilvalið að lesa í bústað, á ströndinni eða í tjaldútilegunni. Eða bara heima í sófa á meðan rigningin bylur á gluggunum.  

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...