Sumarleslisti Lestrarklefans 2023

Það er orðin hálfgerð hefð að ritstjórar og pennar Lestrarklefans skrifi nokkur orð um bækurnar sem verða lesnar yfir sumarið. Sumarleslistinn er í formi lítilla dagbókarfærslna þar sem hver og einn penni segir frá nýlesnum bókum og þeim sem eru næstar á listanum. Við vorum að þið getið fundið góðar hugmyndir að lesefni fyrir sumarfríið. 

Leslisti Rebekku Sifjar

Lestur hefur gengið hægt hjá mér þetta vorið þar sem ég komst að því að ég væri ólétt í byrjun mars og með því fylgdi mikil ógleði og þreyta auðvitað. Ógleðin því miður smitaðist yfir á bækurnar og alltaf þegar ég tók upp bók fékk ég klígju! Þvílík martröð fyrir bókaorm. Ógleðin er farin að dvína núna og því vonandi góðir lestrarmánuðir framundan. Þessa dagana er ég að blaða í nokkrum bókum, smásagnasafninu Hinum megin við spegilinn eftir Kára S. Kárason sem vann handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir, á dögunum. Sögurnar eru stuttar og fjölbreyttar en eiga það sameiginlegt að það er ekki allt sem sýnist. Ég er einnig byrjuð á Smáatriðin eftir Ia Genberg en hún kom út í bókaklúbbi Sólarinnar hjá Benedikt bókaútgáfu í vor. Ég kláraði einnig aðra bók í þeim klúbbi, Fullorðið fólk og var mjög hrifin af henni. Smáatriðin lofar góðu, enda hafa fyrirtaks bækur komið út í gegnum þennan klúbb og óhætt að treysta því að þær séu góðar. Bækur sem eru á leslistanum eru Bunny eftir Mona Awad, Yellowface eftir Rebecca F. Kuang, Daisy Jones and the Six eftir Taylor Jenkins Reid og að klára loksins doðrantinn The Goldfinch eftir Donnu Tartt. 

Leslisti Jönu

Úff, ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég á aldrei neinn sérstakan leslista sem ég ætla mér að klára því ég les svo mikið eftir tilfinningum og skapi (e. mood reader). Ég á alltaf haug af ólesnum bókum heima sem ég hef annað hvort keypt eða er með að láni frá bókasafninu og ég pikka út úr þeim það sem mig langar að lesa. Ég er þó með nokkur markmið fyrir næstu vikur í lestri. Fyrir það fyrsta ætla ég ekki að taka neina bók á bókasafninu í bili heldur einbeita mér að þeim bókum sem ég á heima.

Undanfarna mánuði hef ég dottið inn í fantasíubækur á ný en ég hef frá því ég man eftir mér lesið mikið af fantasíum en af einhverjum ástæðum hefur það minnkað undanfarin ár. Ég tók mig til og byrjaði að lesa ACOTAR seríu Sarah J. Maas  sem telur fimm bækur í heildina og er ég búin með þrjár þeirra. Í sumar langar mig að klára tvær síðustu og svo eru nokkrar aðrar fantasíubækur sem bíða ásamt einni rómansbók því ég er jú forfallinn ástarsögu aðdáandi og því verður að vera ein pjúra þannig.

Einmitt núna er ég að lesa The Last Heir to Blackwood Library eftir Hester Fox og hún byrjar vel. Síðan bíður mín Fourth Wing  eftir Rebeccu Yarros, en sú bók hefur tröllriðið Bookstagram og BookTok undanfarnar vikur og bókin Sing Me to Sleep eftir Gabi Burton. Svo er það ekta rómansbókin sem bara verður að vera með en það er Spænska ástarblekkingin eftir Elenu Armas. Það verður að vera ein þannig líka. 

Svo já, þetta er planið. Hvort ég lesi þessar allar í sumar og skipti þeim ekki út fyrir einhverjar aðrar verður að koma í ljós. Ég lofa engu!

Leslisti Hugrúnar

I need to read the books I have

Ég varð að hefja þennan sumarleslista minn á játningu (sjá meðfylgjandi mynd af Joey og Phoebe). Ég er svolítið fiðrildi þegar kemur að bókalestri því ég vil lesa það sem ég er í stuði fyrir hvert sinn sem er hverfult. Stundum vil ég lesa spennusögur, svo kannski ástarsögu daginn þar á eftir og jafnvel fræðibók daginn þar á eftir. Ég á mjög erfitt með að lesa eina bók frá upphafi til enda og engar aðrar á sama tíma. Það er skemmst frá því að segja að ég er með 137 bækur á „Want to Read“ hillunni minni í Goodreads þannig að það er vandlifað að vilja lesa allar bækurnar.

En. Ég er að reyna að takmarka mig við þrjár bækur í senn. Eina skáldsögu á íslensku, eina skáldsögu á ensku og eina fræðibók. Í sumar langar mig að klára The Paris Apartment eftir Lucy Foley en ég lauk nýlega við Gestalistann eftir sama höfund og hafði gaman af.

Ég lenti í þeirri óvenjulegu reynslu fyrir stuttu síðan að verða svo gangtekin af bók að ég gat ekki með góðu móti lagt hana frá mér. Hún endaði á að vera eina bókin sem ég las á því tímabili. Eina bókin sem ég las frá upphafi til enda án þess að lesa aðrar á meðan! Það var bókin Eins og fólk er flest eða Normal People eins og hún heitir á frummálinu eftir Sally Rooney. Ég á erfitt með að útskýra hvað það var sem heillaði mig svo en ég mæli eindregið með umfjöllun Rebekku Sifjar um bókina hér á Lestrarklefanum. Ég er því spennt að lesa næstu bók Rooney, Fagri heimur, hvar ert þú?

Svo langar mig að lesa 7 venjur til árangurs eftir Stephen Covey sem er löngu orðin klassík á sviði svokallaðra viðskiptabóka.

Paris Apartment Lucy Foley

Leslisti Katrínar Lilju

 Sumarið mitt mun einkennast af allri vinnunni sem á eftir að vinna úti við. Sumarfríið er nokkuð bókað af smáverkum í garðinum og innanhúss, svo það er ekki útlit fyrir að það verði mikil afslöppun. En það færi þó aldrei svo að ég næði ekki að lesa nokkrar bækur. 

Eftir að hafa horft á eftir hverjum lesandanum á eftir öðrum lesa bækur Söruh J. Maas þá er ég farin að vera ansi forvitin um bækurnar. Líklega mun ég lesa eina þeirra í sumarfríinu, kannski tvær ef sú fyrsta fellur í kramið. 

Síðasta sumar las ég eina af Múmín-stórbókunum. Í ár vil ég lesa Múmín – Litlu álfarnir og flóðið mikla, Halastjarnan og Pípuhattur galdamannsins. Af þeim þremur bókum sem eru í safninu er ég spenntustu fyrir Halastjörnunni

Í bókaklúbbnum mínum er lesefni sumarsins Lungu eftir Pedro Gunnlaug Garcia. Ég er einstaklega spennt fyrir þeirri bók, en hún hlaut einmitt Íslensku bókmenntaverðlaunin 2022. 

Af öllu sem ég ætla að gera í sumar, þá vona ég að ég nái að lesa fullt. Ef ég þekki mig rétt þá verður leslistinn samt yfirfullur af ástarsögum (Jenny Colgan til dæmis) og klisjukenndum spennusögum. Það er bara fátt meira afslappandi en það. 

Fyrra bindið

Leslisti Sæunnar

Ég er um þessar mundir í sumarfríi og ákvað að verja heilum mánuði í húsaskiptum í London en leslistinn minn litast ansi mikið af því. Ég hef notið þess að heimsækja bestu bókabúðir borgarinnar (meira um það í pistli) og kaupa spennandi bækur á ensku og því er aldrei þessu vant ekkert íslenskt á leslistanum. Ég hlusta vikulega á The Rest is Politics hlaðvarpið sem ég mæli klárlega með en annar þáttastjórnandinn Alastair Campbell, fyrrum samskiptaráðgjafi Tony Blair gaf í maí út bókina But What Can I Do? Hann plöggaði henni hægri vinstri í þáttunum svo ég hljóp í Waterstones fyrsta morguninn minn í London til að næla mér í eintak. Bókin er um stöðuna í stjórnmálum í dag og hvað við getum öll gert til að breyta henni.

Í hinni mögnuðu Blackwell’s í Oxford keypti ég mér The Little Friend eftir Donnu Tartt. Bókin kom út árið 2002 og er því alls ekki ný af nálinni, þetta er söguleg skáldsaga um óleyst morð en ung stúlka að nafni Harriett ákveður að taka málin í sínar hendur og leysa ráðgátuna um morð bróður síns áratugi fyrr. Ég er mikill aðdáandi The Secret History eftir sama höfund og hafði gaman af The Goldfinch (þó hún hafi verið full löng) og er því spennt fyrir þessari. Í sömu ferð í Oxford náði ég mér i bókina His Only Wife eftir Peace Adzo Medie. Þetta er chick flick bók sem var í bókaklúbb Reese sem gerist í Gana sem ég held að verði fullkomin við sundlaugarbakkann!

Leslisti Sjafnar

Ó sumarfrí, vertu velkomið í fang mitt með allan þinn tíma fyrir afþreyingarlestur. Sem virðulegur doktorsnemi í bókmenntafræði reyni ég að taka sumarið í að lesa eingöngu bækur sem nýtast mér ekki í námi, og hef nýlega lokið við Yellowface eftir R.F Kuang, sem er skemmtilegur útgáfuthriller sem tekur á ýmsum samtímaefnum. Einnig kláraði ég bókina Chain Gang All-Stars eftir Nana-Kwame Adjei-Brenyah, sem er mjög skemmtileg, áhugaverð og lifandi bók. Svolítið eins og að lesa dystópískan tölvuleik.

Núna er ég að lesa Chasing the Scream eftir Johann Hari, en ég er um hálfnuð með hana og tel að það þyrftu allir í heiminum að lesa hana og það sem fyrst, en hún býður upp á djúpa og mannúðlega sýn á afleiðingar glæpavæðingu neyslu og stríðið gegn eiturlyfjum sem Vesturlönd hafa háð í um 100 ár. Næst á listanum hjá mér eru svo Hijab Butch Blues eftir Lamya H, spennubókin Girls and their Horses eftir Elizu Jane Brazier, höfund Good Rich People, og framhaldið af You-seríu Caroline Kepnes sem kom út fyrr á árinu.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...