Stefán Máni er helst þekktur fyrir hrollvekjandi glæpasögur þar sem Hörður Grímsson rannsakar morð og mannshvörf. Stefán Máni hefur þó áður sent frá sér tvær unglingabækur; Úlfshjarta (2014) og Nóttin langa (2015). Hrafnskló er því hans þriðja unglingabók.

Sagan segir af þeim Kingu og Arnaldi, sem eru bæði nýliðar í Hólabrekkuskóla í Breiðholtinu. Kinga var rekin úr Fellaskóla en Arnaldur er nýfluttur úr Hafnarfirðinum. Kinga er í 10. bekk og er öllu meira hörkutól en Arnaldur. Hún missti föður sinn af slysförum fyrir nokkrum árum, áfall sem hún og móðir hennar eru enn að jafna sig á. Kinga veipar og á kærasta sem er dópsali. Arnaldur er í 9. bekk og býr við slæmar aðstæður, pabbi hans er strangur og kaldur og mamma hans er veik. Hann er astmaveikur og sjúklega ástfanginn af Sóldísi, vinsælustu stelpunni í skólanum. Sóldís er hluti af vinahóp sem tekur Arnaldi heldur illa í nýjum skóla, þar er Borgar leiðtoginn. 

Myrk unglingasaga

Borgar og gengið hans spila leikinn Hrafnskló, eða Rawen’s Claw. Leikur þar sem ninjur berjast sín á milli í hliðarraunveruleika, eins og Pokémon Go. Í tilraun til að vinna sér inn vini ákveður Arnaldur að hlaða leiknum niður. Það fer þó alls ekki eins og hann vonaðist til og útskúfun hans í nýjum skóla verður meiri. Kinga spilar leikinn líka og er mjög góð í honum. Þrátt fyrir að virðast mikið hörkutól sem þarfnast einskis þá stendur hún með lítilmagnanum og vinskapur tekst með Kingu og Arnaldi.

Saman ætla Arnaldur og Kinga að ná sér niður á þremur mönnum. 

Sagan er myrk og erfið, eins og Stefáni Mána er lagið. Hún er krydduð með svolitlu ofbeldi, en þó ekkert sem ætti að stuða eða ganga fram af íslenskum unglingum. Hér er ofbeldi á skólavelli og ólöglegar nektarmyndir helst til umræðu. Íslenskir undirheimar stinga inn sínu ljóta höfði, en aftur ekkert sem stuðar tilfinninanlega.

Flótti frá raunveruleikanum

Kinga býr við mjög erfiðar aðstæður, á móður sem er mikið fjarverandi og þarf meira og minna að sjá um sig sjálf. Hún stefnir inn í heim glæpa, eiturlyfja og ofbeldis þegar hún kynnist Arnaldi. En tölvuleikurinn er þeirra athvarf. Fyrir vikið er töluvert um lýsingar á tölvuleikjaspilun í bókinni. Allur texti úr leiknum er á ensku og unglingarnir í bókinni sletta mikið. Svona eins og unglingar gera! Mér þótti þetta ekki koma að sök, ekki síst þar sem þetta minnti óneitanlega á leikjalýsingar á fótbolta. Sem geta verið mjög spennandi.

Þegar Arnaldur og Kinga opna leikinn hverfur lesandinn með þeim inn í tölvuheiminn. Lýsingarnar eru lifandi og stundum gleymdi ég að þau væru bara að horfa á símaskjá. Sem var frískandi! Því það er auðvelt að gleyma sér góðum leik og það sama má segja um Hrafnskló

Stundum fannst mér tal þeirra Kingu og Arnaldar heldur fullorðinslegt miðað við að þau eiga að vera 15-16 ára og vitneskja þeirra um alls kyns hluti heldur nákvæm. Sérstaklega á hér við um Kingu. En þetta angraði mig þó ekki teljanlega. Þau eru töffarar sem vita bara alls konar og tala um alls konar. Sjálfstæðir unglingar sem bjarga sér sjálfir. 

Sjálfstæðir unglingar

Ég ímynda mér að bókin höfði til krakka á unglingastigi og eldri. Það er skemmtilegt að sjá tölvuleik taka svona mikið pláss í bók, og það án þess að verða að fantasíu þar sem sögupersónurnar hverfa inn í leikinn. Sagan er nokkuð jarðbundin að þessu leiti. Að öðru leiti setur hún íslenska unglinga í erfiðar aðstæður sem þau þurfa að finna sjálf út úr, án aðkomu fullorðinna því hinir fullorðnu hafa brugðist þeim. 

Ég hlustaði á söguna á Storytel. Lestur Rúnars Freys Gíslasonar var mjög góður, þótt stundum þætti mér sem rödd Arnaldar mætti vera unglegri. Að sama skapi þótti mér vanta kvenrödd til að lesa hluta Kingu. 

Hrafnskló er spennandi og myrk unglingasaga um félagslega útskúfun, upprisu lítilmagnans og góða hefnd. Það er vel hægt að mæla með lestri.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...