Valskan

Það brá til tíðinda í heimi íslenskra bókaorma nú í október þegar bókin Valskan kom út hjá Forlaginu en það er fyrsta skáldsaga Nönnu Rögnvaldardóttur. Nönnu þekkjum við líklega best fyrir hinar ýmsu bækur tengdum matarsögu og matargerð. Það var því ánægjulegt að sjá að út væri komin hennar fyrst skáldsaga og það líka söguleg skáldsaga. 

Nanna byggir bókina sína á sögu sinnar eigin formóður, prestdótturinni Valgerði Skaftadóttur eða Völku. Sú kona átti mjög áhugaverða og skrautlega ævi. Mögulega skrautlegri ævi en margar aðrar konur sem lifðu á hennar tímum. Valka á sér drauma eins og margt ungt fólk. Hún vill verða auðug stórbýlisfrú með vinnukonur en hún vill líka menntun og sjá heiminn. Hún vill sjá Kaupmannahöfn og allt það sem sú borg hefur upp á að bjóða. Hinsvegar er hún fórnarlamb þeirra ára sem hún lifir. 

Náttúran, hennar eigin tilfinningar og samfélagið setja henni mörk. Hún á marga bræður og þeir eru kostaðir til náms eins og hægt er en ekki hún, hún er jú kona. Náttúran grípur einnig í taumana því Valka upplifir móðuharðindin af eigin raun en jafnframt lendir hún í aðstæðum vegna sinna eigin gjörða sem breyta lífi hennar svo um munar. 

Ísland, Danmörk og aftur til baka

Við fylgjum Völku frá barnæsku og fram á fullorðins ár. Þetta er hennar þroskasaga þar sem við förum með henni í gegnum allar hennar ástir og raunir. Allt frá bænum þar sem hún ólst upp á norðausturhluta landsins, til Kaupmannahafnar og aftur heim til Íslands. Lífshlaup Völku er hreint magnað og kemur ekki á óvart að Nanna hafi ákveðið að nýta ævi hennar í þessa skáldsögu. Valka upplifir móðuharðindin og lýsingar Nönnu á þeim raunum eru mjög góðar og sterkar. Þetta voru gríðarlegar hörmungar sem gengu yfir íslensku þjóðina, hrein hungursneyð og mikið mannfall var í þessum hörmungum.

Lýsingar Nönnu á örbirgðinni, fátæktinni og hvernig örlög fólks voru svo gott sem óumflýjanleg vegna náttúruhamfara. Það var erfiður lestur en áhugaverður. Úr móðuharðindunum fer Valka svo til Kaupmannahafnar að læra vefnað. Hún er því líklega ein af fyrstu íslensku konunum sem fer erlendis til að sækja sér menntun. Hópur af ungu fólki var í raun sendur til Danmerkur í lok móðuharðindanna til að læra tóvinnu, vefnað og spuna og Valka var ein af þeim. Í Danmörku upplifði Valka margt, hún upplifir hvernig almenningur í Kaupmannahöfn lifði í raun og veru og gekk sjálf í gegnum ýmsar raunir. Hún endar á að koma aftur til Íslands og býr þá á Suðurnesjum meðal annars. 

Hvatvísi og kynlíf

Það er óhætt að segja að Valka hafi farið víða á sinni ævi en það á ekki bara við landfræðilega. Það er mikil saga í kringum einkalíf hennar bæði í sveitinni en einnig í Danmörku. Ástarlíf hennar er skrautlegt sem hefur ýmsar afleiðingar í för með sér. Hjúskaparlög þessa tíma eru Völku ekki hliðstæð og barnsmissir er mikill á þessum árum. Það sem mér þykir sérstakt við Völku er hvað hún er sjálf frjálsleg og hvatvís ef svo má segja. Þetta er söguleg skáldsaga en það sem er sérstakt við hana finnst mér er hversu fjölbreytt ástarlíf Völku er miðað við þann tíma sem hún lifir. Hún leyfir sér svo margt þrátt fyrir að vera full meðvituð um þær afleiðingar sem gætu orðið við það. Afleiðingar sem varða jafnvel við lög. Það er gömul saga og ný að nóg er til af mislukkuðum mönnum og gáfuðum konum.

Í sögunni eru svo sannarlega miklar tilfinningar og kynlíf og lítið rætt um kaffi og kaffibæti! En þrátt fyrir hvatvísina þá er Valka raunsæ og sterk kvenpersóna sem tekur stjórn á eigin lífi. Hún er með lítinn púka á öxlinni sem reynir að stýra hennar gjörðum og honum tekst það stundum en yfirleitt nær hún alltaf að gera það rétta og bjarga sér út úr ömurlegum aðstæðum. Það var þó ekki bara persónusköpun Völku sem mér þótti áhugaverð og öðruvísi. Án þess að fara of djúpt í það þá voru ýmsar persónur sem komu við sögu sem vöktu athygli mína en þó helst voru það kannski prestarnir og sýslumenn. Of oft hef ég lesið sögulegar skáldsögur þar sem prestar og sýslumenn eru ekkert annað en kaldrifjaðar, ómanneskjulegar persónur. Í þessari bók fyrir finnast þó slíkir menn sem sýna samkennd og eru ekki eingöngu einhverjir harðstjórar og pervertar. 

Frábær söguleg skáldsaga

Ég hef lesið margar sögulegar skáldsögur, íslenskar og erlendar. Af mínum lestrarafrekum í þeim efnum má nefna flestar bækur Guðrúnar frá Lundi, þriggja binda verk Sigrid Undset um Kristínu Lafransdóttur ásamt ýmsum léttari sögulegum skáldsögum. Mér þótti Valskan vera skemmtileg nýjung í hóp sögulegra skáldsagna. Hún er vissulega skrifuð í gamaldagsstíl ef svo má segja, nútíminn lekur ekki mikið inn í skrifin nema kannski að Nanna brýtur smá upp mynstrið sem mér finnst vera mikið í íslenskum sögulegum skáldsögum. Þá á ég við sögulegar skáldsögur sem gerast á 17.-19. öld. Það má endilega leiðrétta mig en ég man ekki eftir mörgum slíkum skáldsögum þar sem kynlíf og svona hispursleysi í ástarmálum er svona áberandi. Smá pönk í þessu. 

En Valskan er hreint út sagt frábær bók sem ber alls ekki með sér að vera fyrsta skáldverk höfundar. Hún er skrifuð af mikilli fimi, bæði hvernig hliðarsögur persóna eru tvinnaðar inn í hana og hvernig aðstæðum er lýst. Hún tikkar í öll boxin sem gera góða sögulega skáldsögu og rúmlega það. Hún er spennandi, fyndin og sorgleg saga kröftugrar konu sem neitar að vera fórnarlamb. Ef þessi bók verður ekki með þeim vinsælustu í jólabókaflóðinu þá verð ég hissa. 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...