Yfirnáttúruleg og jarðbundin hrollvekja

Í margar aldir, árþúsund jafnvel, hafa kettir þótt bera með sér yfirnáttúru og vera dularfullar verur. Við sem höfum kynnst köttum náið vitum að það er eitthvað til í þessu. Hvað er kötturinn annars að horfa svo stíft á þegar hann starir í hornið? Að sjálfsögðu er draugur í rýminu með þér! Eða þannig líður manni í það minnsta. 

Hildur Knútsdóttir veit þetta greinilega líka. Kettir eru dularfullar og óræðar verur sem leyna á sér. Í síðustu þremur nóvellum Hildar hafa kettir komið við sögu. Fyrsta nóvellan var Myrkrið milli stjarnanna, svo kom Urðarhvarf og að lokum er það Mandla. Áður hefur verið fjallað um Myrkrið milli stjarnanna hér á Lestrarklefanum. Allar nóvellurnar eiga það sameiginlegat að vera hrollvekjandi og grípandi sögur sem draga lesandann að lokalínu bókarinnar á harðaspretti. 

 

Köttur á hjúkrunarheimili

Eva er öldrunarlæknir á hjúkrunarheimili. Hún er nýskriðin yfir þrítugt, nýkomin heim úr námi með unnusta sínum og þau hafa nýlega komið sér fyrir í lítilli íbúð. Dag einn ráfar steingrá læða, hálfsoltin, inn á öldrunarheimilið þar sem Eva starfar. Eftir smá þref við yfirmenn og samstarfsfélaga er fallist á rök Evu um að dýr og hafi góð áhrif á blóðþrýsting og lundarfar íbúa heimilisins. Kötturinn fær að vera. En þegar kemur í ljós að þeir heimilismenn sem kötturinn hænist að deyja skömmu síðar fara að renna á Evu tvær grímur. Getur kötturinn spáð fyrir um dauða? Og er kötturinn að fitna?

Á meðan Eva fylgist með kettinum fitna á hjúkrunarheimilinu fær lesandinn að kynnast Evu hægt og rólega. Fortíð hennar er stráð áföllum og ótta sem virðist ætla að fylgja henni áfram.

Fljótlesin en grípandi

Ég kann vel við þessar nóvellur Hildar. Þær eru stuttar og grípandi. Hildur nær að grípa athygli lesandans og afhjúpar á réttum stöðum næsta leyndardóm sögunnar, næsta skref sem dregur lesandann enn lengra niður. Það er hrollvekjandi að fylgjast með læðunni Möndlu liggja makindalega hjá heimilismönnum, vitandi hvað gerist næst. Það er hrollvekjandi að fylgjast með einkalífi Evu og vona að rætist úr öllu hjá henni. Útundan mér hef ég heyrt að fólk annað hvort elski þessar bækur eða hati þær, ég er klárlega í fyrri flokknum. Fyrir þá sem eru eins og ég, vilja smá hrollvekju, kattadrama og annað drama í líf sig þá eru þessar nóvellur málið. Aðrir lesa bara eitthvað annað.

Þessi bók var ein af bókunum sem ég einsetti mér að lesa yfir páskana. Þegar ég byrjaði var mér ómögulegt að leggja hana frá mér og ég kláraði hana í einni setu. Lagði hana frá mér og hristi af mér hrollinn með kaffi og páskaeggi.

Hildur er góð að skrifa hrollvekjur – hvort sem þær eru jarðbundnar eða yfirnáttúrulegar. Ég myndi vilja sjá fleiri hrollvekjur frá henni, jafnvel smásagnasafn af hrollvekjum fyrir fullorðna. Eða bara fleiri nóvellur sem við getum lesið í einni setu.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...